Þriðjudagur 15. apríl 2003

105. tbl. 7. árg.

Ef marka má fyrirsögn í Morgunblaðinu í gær „Blaðberar Morgunblaðisins semja“ hafa berar blaðsins haft í ýmsu að snúast undanfarið. Ef sjálf fréttin er hins vegar lesin þá kemur í ljós að það var víst Verzlunarmannafélag Reykjavíkur og útgáfufélag Morgunblaðsins sem gengu frá kjarasamningi vegna blaðberanna. Með fréttinni fylgdi svo mynd af samingamönnunum, fjórum fullorðnum körlum, enginn þeirra með blaðburðarpoka. Einn þeirra bar þó titilinn „starfsmaður VR og blaðberi Morgunblaðsins“. En sætt. Þó læðist sú hugsun að mönnum að þar með séu upp taldir þeir blaðberar sem að málinu komu.

Það er merkilegt hvað þessir atvinnusamningamenn telja sig hafa efni á að tala fyrir hönd annarra. Í umræddu tilfelli blaðberanna má velta því fyrir sér hvaða kröfur börnin, það eru jú börn sem bera þessa atvinnugrein uppi, hafi gert um nýjan kjarasamning. Kjarasamning sem, samkvæmt frétt Morgunblaðsins, gerir lítið annað en að staðfesta öll fyrri kjarasamningsbundin réttindi blaðbera. Það sem svo kemur nýtt inn í líf blaðberanna mun vera skylda til að vera félagi í VR, og greiða væntanlega þangað hluta af launum sínum, og skylda til að greiða í starfsmennta- og orlofsheimilasjóð VR. Auðvitað er það svo orðað þannig að greiðslur í starfsmennta- og sumarhúsasjóð séu á ábyrgð útgáfufélagsins. Ætli það hafi einhvern tímann hvarflað að samningamönnum að þær greiðslur verði fjármagnaðar með lægri launum til blaðberanna?

Verkalýðsfélag, með dyggri aðstoð atvinnurekanda, hefur náð nýju meti í lágkúru þegar það lætur sér ekki nægja að pína almenna launþega í félagsvist sína heldur herjar á börn. Héðan í frá munu 10 ára börn niðurgreiða sumarhúsavist félagsmanna VR, orlofsdvalir á Spáni, leigu á tjaldvögnum og ekki síst taka þátt í að fjármagna allan pólitíska áróðurinn sem verkalýðsfélagið dembir yfir landsmenn á ári hverju.