Ínýjasta tölublaði Vesturbæjarblaðsins segir frá því að fjárhagsstaða hins 106 ára gamla Landakotsskóla í Reykjavík sé nú afar bágborðin orðin. Katólska kirkjan á skólann en hann er rekinn sem sjálfstæð stofnun og þar er börnum frá fyrsta bekk til tíunda kennt eftir aðalnámskrá grunnskóla. Foreldrar greiða um sautján þúsund krónur á mánuði fyrir skólavist barna sinna en auk þess leggur Reykjavíkurborg skólanum til 220 þúsund krónur á ári fyrir hvern nemanda. Er það umtalsvert lægra en borgaryfirvöld þurfa að greiða með hverjum nemanda í skólum borgarinnar, en Vesturbæjarblaðið hefur það eftir fræðsluyfirvöldum að sá kostnaður nemi „um eða yfir 400 þúsund“ krónum á ári, þó blaðið taki að vísu fram að erfitt sé að „fá upplýst hvað [sé] innifalið í þeirri tölu.“ En semsagt, kostnaður við skólarekstur, ekki síst vegna mikilla launhækkana kennara, hefur vaxið svo að nú nægja þessar tekjur ekki til svo reka megi Landakotsskóla hallalaust. Hefur skólinn því leitað ýmissa leiða til að auka tekjur sínar en ekki orðið nægilega mikið ágengt, og sr. Hjalti Þorkelsson skólastjóri segist vondaufur um aðstoð frá borgaryfirvöldum í Reykjavík.
Ekki fer hins vegar milli mála hvað umræddu blaði, Vesturbæjarblaðinu, finnst, en í leiðara þess segir meðal annars: „Sannleikurinn er sá, að ítrasta aðhalds og sparsemi er gætt í rekstri Landakotsskóla og samanburður við sambærilega skóla sýnir að rekstur hans kostar um 30 % minna en meðaltal samanburðarskóla. Fjárhagslega er það því hagkvæmt fyrir borgina að hækka framlag sitt til Landakotsskóla svo starfsemi hans geti þrifist. Skólinn hefur fyrir löngu sannað tilverurétt sinn og það væri til háborinnar skammar ef meirihluti borgarstjórnar sér ekki sóma sinn í að finna lausn á þessu máli í samráði við stjórnendur skólans.“
Til háborinnar skammar, segir blaðið og vissulega væri eftirsjá í hinum ágæta Landakotsskóla. Ekki er hins vegar víst að katólska kirkjan fái mikla áheyrn hjá borgaryfirvöldum þó Vesturbæjarblaðið segist reyndar hafa heimild fyrir því að formaður fræðsluráðs sé hlynntur því að skólinn verði rekinn áfram. Hvað um það, þessi frásögn af erfiðleikum hins aldna skóla má verða til að minna á eitt, sem er einörð andstaða ákveðinna þjóðfélagsafla við hvers kyns hugmyndir – þó ekki sé meira – um nýbreytni í skólamálum. Íslenskir vinstri menn, og skiptir þá engu hvort þeir kalla sig Samfylkingarmenn, vinstrigræna eða eitthvað enn annað, mega ekki heyra minnst á nokkrar breytingar í skólamálum. Þeir snúast öndverðir gegn öllum slíkum hugmyndum af álíka opnum huga og múslimi gerði ef einhver styngdi upp á því við hann að krjúpa í átt frá Mekka til tilbreytingar.
Skammt er að minnast leiksýningarinnar sem Samfylkingin í Hafnarfirði setti á svið til að ná undir sig rekstri Áslandsskóla, en fyrri meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði heimilað einkaaðila að reka þann skóla. Þegar sá samningur var gerður lýsti Samfylkingin því þegar yfir að hún myndi rifta honum jafnskjótt og hún kæmist til valda. Sagði sú yfirlýsing meira en mörg orð um frjálsræðið og nútímann á þeim bænum, því engu máli myndi skipta hvernig skólastarfið gengi. Samningnum yrði sagt upp. Látum nú vera ef menn segjast rifta þeim samningi sem illa reyndist, en að vera ákveðinn í að snúa til baka hvernig sem allt gengi, það er furðuleg forherðing, en alveg í hinum raunverulega anda Samfylkingarinnar. Samfylkingin er nefnilega miklu afturhaldssamari en hún lætur oft í veðri vaka, sérstaklega þegar frambjóðendur hennar reyna að stíga í vænginn við yngri kjósendur.
Staðreyndin er sú, að íslenskir vinstri menn hafa breyst miklu minna en þeir láta og ýmsir halda. Íslenskir vinstri menn lækka ekki skatta. Þeir selja ekki ríkisfyrirtæki. Þeir breyta almennt ekki um rekstrarform, jafnvel úreltustu stofnana. Þó Samfylkingin þori ekki lengur að segja frá því hversu uppsigað henni er við skattalækkanir og einkavæðingu þá er það svo að þegar ríkisstjórnin hefur haft forgöngu um skattalækkun eða einkavæðingu þá finnur Samfylkingin alltaf heilmargt sem veldur því að hún getur bara ekki stutt málið í það sinn. Það er verið að lækka skatta of mikið, eða á röngum tíma eða rangan skatt. Það er verið að selja rangt fyrirtæki eða á röngum tíma. Það hefði verið betra að selja í fyrra. Eða á næsta ári. Bara ekki núna. Það er svo ýmist verið að selja of mörgum eða of fáum. Verðið er heldur ekki nógu gott.
En á fjögurra ára fresti mæta Samfylkingarmenn á fund kjósenda og eru nútímalegastir allra.