Þeir eru búnir að banna að tóbakið sjáist í verslunum, það má ekki lengur tala um það nema á ákveðinn hátt. Það skattlagt af slíku offorsi að stappar nærri banni. Ekki má auglýsa það og eigendur húsnæðis ráða ekki lengur hvort þeir leyfa gestum og gangandi að reykja í húsum sínum og mega það jafnvel ekki sjálfir. Svo er það áfengið sem ríkið hefur einokun á að selja, bannar að sé auglýst og skattlaggur það þannig að í raun liggur stórsekt við hverjum sopa. Allt er þetta gert af góðum hug enda leiðin til ánauðar vörðuð góðum fyrirætlunum.
Þeir sem hafa viljað sporna gegn þessari forræðishyggju hafa stundum nefnt að ef menn ætli að feta þessa braut verði þess skammt að bíða að frelsiskartöflur, gosdrykkir, súkkulaði, rjómabollur og hvaðeina sem menn telja óhollustu fram að næstu tískusveiflu í manneldisbransanum fari sömu leið. Að þessu hefur að sjálfsögðu verið helgið dátt enda geti hinir alvitru embættis- og stjórnmálamenn hæglega dregið skynsamleg mörk í þessum efnum. Engu að síður er menn þegar farnir að feta þessa leið með hærri vörugjöldum á þær vörur sem innihalda sykur en aðrar.
Á sunnudagskvöldið mátti svo sjá góðlega konu, sjálfan framkvæmdastjóra Manneldisráðs ríkisins, mæla fyrir þeirri tillögu í sjónvarpsfréttum að leggja sérstakan óhollustuskatt á gosdrykki sem næmi 6 krónum á hvern lítra. Svo skemmtilega óvænt vill til að samkvæmt tillögunni mun innkoman, 270 milljónir króna á ári, renna til Manneldisráðs þótt það gengi ekkert alltof vel hjá framkvæmdastjóranum að skýra til hvers ætti að nota þessa fjármuni. En eins og menn vita þá eru embættismenn jafn vel til þess fallnir að draga skynsamleg mörk í útþenslu stofnana sinna og að hemja löngun sína til að gerast forsjármenn annarra borgara.