Helgarsprokið 16. mars 2003

75. tbl. 7. árg.

Tvenn hagsmunasamtök sem innheimta gjöld af félagsmönnum sínum nauðugum létu ljós sitt skína í vikunni. Samtök iðnaðarins héldu aðalfund sinn og Alþýðusamband Íslands blandaði sér í umræðu um skattamál.

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi félagsmanna við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Sem kunnugt er hafa samtökin ekki látið neitt tækifæri framhjá sér fara til að reka áróður fyrir því að Ísland afsali sér frelsi og fullveldi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. Svo langt hafa samtökin seilst í þessa veru að þau hafa starfsmenn í því að vinsa úr allar jákvæðar fréttir um Evrópusambandið í erlendum fjölmiðlum og senda þær á fjölmiðla hér á landi í þeirri von að íslenskir fjölmiðlar birti þær Evrópusambandinu til dýrðar. Ekki síst hefur þeim þótt akkur í fréttum af hvers kyns skoðanakönnunum sem sýna jákvæð viðhorf til Brusselvaldsins. Þá verður það ekki tekið af forsvarsmönnum samtakanna að þeir hafa ekki legið á liði sínu þegar færa þarf rök fyrir aðild Íslands að ESB.

„Ef þrepaskattkerfi ASÍ hefði verið við lýði undanfarin ár hefðu þeir lægst launuðu færst upp um flest þrep því laun þeirra hafa hækkað mest. Þessar tillögur ASÍ eru því fyrst og fremst miðaðar gegn því að alþýða manna geti bætt kjör sín. Það er afar einkennileg stefna félags sem kennir sig við sjálfa alþýðuna …“

En á aðalfundi samtakanna voru kynntar niðurstöður könnunar á afstöðu félagsmanna í samtökunum til aðildar Íslands að ESB. Er skemmst frá því að segja að Samtökum iðnaðarins hefur ekki tekist að sannfæra eigin félagsmenn um ágæti þess að Íslands afsali sér frelsi og fullveldi. Um 57% þeirra félagsmanna samtakanna sem tóku þátt í könnuninni eru andvíg aðild Íslands að ESB. Þótt Samtök iðnaðarins hafi verið gjörn á að senda niðurstöður hvers kyns skoðanakannana sem koma vel út fyrir þeirra málstað út um hvippinn og hvappinn í þeirri von að því verði gerð skil einhvers staðar að 51,78% tannsmiða á Skáni séu ánægð með aðild Svía að Evrópusambandinu er ekki þar með sagt að aðrir þurfi að uppveðrast á sama hátt þátt kannanir sýni um hríð að vindar blasi þeim í hag. Þessar niðurstöður ættu hins vegar að vera forystu Samtaka iðnaðarins umhugsunarefni. Forystan má ekki gleyma því að menn eru neyddir til að greiða samtökunum yfir 200 milljónir króna á ári. Það má auðvitað beita sér af miklu afli með svo miklu fé. Er rétt að nota þessa fjármuni til að berjast fyrir máli sem meirihluti þeirra sem neyddir eru til að greiða til samtakanna eru andvígir?

Og svo er það forysta Alþýðusambands Íslands sem kostuð er af vinnandi fólki að því forspurðu. Á undanförnum dögum hefur forysta þessi vakið upp hugmyndir um að þrepaskipta tekjuskatti einstaklinga. Þetta setur forystan fram þótt í raun fari tekjuskattur einstaklinga hækkandi með tekjum. Maður með 200 þúsund króna laun greiðir bæði fleiri krónur og hærra hlutfall launa sinna í skatt en maður með 100 þúsund krónur. Maður með 400 hundruð þúsund greiðir svo enn hærra hlutfall og á hann er til viðbótar skellt hátekjuskatti. Ef við tökum upp fleiri skattþrep mun munurinn á því hvað menn greiða í skatt enn aukast. Það mun einnig þýða að svonefnd jaðaráhrif skattkerfisins aukast en þau letja menn mjög til vinnu því hver viðbótarkróna verður minna virði en sú næsta á undan.

Ástæðan fyrir því að ASÍ fer á stað með þetta núna er að sögn forystu samtakanna er að þeir tekjulægstu greiða nú hærra hlutfall launa sinna í skatt en fyrir nokkrum árum. Ástæðan fyrir þessari auknu skattbyrði er ekki sú að skatthlutföll hafi verið hækkuð heldur að laun hafa hækkað. Og eins og áður sagði greiða menn hærra hlutfall launa sinna í skatta eftir því sem tekjur þeirra hækka. Menn hafa því fleiri krónur í laun, greiða fleiri krónur í skatt og eiga fleiri krónur eftir í launaumaslaginu eftir skatta en áður. Ef þrepum er bætt inn í skattkerfið munu þessi áhrif sem ASÍ þykist raunar vera á móti aukast enn frekar. Þegar menn auka tekjur sínar munu þeir ekki aðeins greiða meira vegna þeirra áhrifa sem núverandi skattkerfi hefur heldur einnig vegna þess að þeir flytjast upp í hærra skattþrep.

Ef þrepaskattkerfi ASÍ hefði verið við lýði undanfarin ár hefðu þeir lægst launuðu færst upp um flest þrep því laun þeirra hafa hækkað mest. Þessar tillögur ASÍ eru því fyrst og fremst miðaðar gegn því að alþýða manna geti bætt kjör sín. Það er afar einkennileg stefna félags sem kennir sig við sjálfa alþýðuna en kannski ekki svo undarlegt þegar haft er í huga að félagið er fjármagnað með nauðungargjöldum og ekki síður að það eru þingkosningar á næsta leiti og tillögunum er beint gegn stjórnarflokkunum og í þágu stjórnarandstöðunnar.