Jæja, ætli hneykslunarhellur og hvolsvellir séu ekki í startholunum? Ætli árvökulir fréttamenn, þessir sem hafa sífelldar áhyggjur af formreglum stjórnsýslunnar og ekki síður pólitískum stöðuveitingum, séu ekki rétt ófarnir á stað að kanna málið? Jú auðvitað. Auðvitað er bara spurning um mínútur hvenær þeir fjalla um að vinstrimeirihlutinn í Reykjavík var að ráða í sérstakt embætti framkvæmdastjóra miðborgar Reykjavíkur sem þannig er orðið eina hverfi borgarinnar og þó víðar væri leitað sem hefur sérstakan „framkvæmdastjóra“. Og fyrir valinu varð Kristín Einarsdóttir, fyrrverandi alþingismaður Kvennalistans.
Enginn þarf að efast um að fréttamenn eru á leiðinni niður í ráðhús að spyrja hvort starfið hafi ekki örugglega verið auglýst. Og þegar þeir hafa fengið loðið svar við þeirri spurningu þá munu þeir vitaskuld forvitnast um það af hverju ákvörðun um málið var skyndilega tekin í borgarráði á þriðjudaginn – og þá ákveðið að ráða Kristínu ekki frá og með þeim degi heldur frá 1. janúar síðastliðnum! Það var nánar tiltekið 23. mál á dagskrá borgarráðsfundar 11. mars 2003 að ráða „framkvæmdastjóra miðborgarinnar“ frá og með 1. janúar sama árs. Þessu munu fréttamenn auðvitað velta fyrir sér, sem og því hvort ekki sé augljóst að ákvörðun um þessa ráðningu hafi verið tekin í síðasta lagi í desember en hins vegar verið haldið leyndri þar til nú að ákvörðunin er kynnt – sem tillaga Þórólfs Árnasonar en ekki Ingibjargar Gróu Gísladóttur sem nú er í fundaferð um landið að ræða breytt vinnubrögð í stjórnsýslunni.
Já fréttamenn, einkum þeir sem starfa á virtum fjölmiðlum eins og Fréttablaðinu og Stöð 2, munu fjalla ýtarlega um það hvort staðreyndin sé ekki einfaldlega sú, að sú sem í raun hafi ákveðið þessa ráðningu, Ingibjörg Pandóra Gísladóttir, hafi verið að búa til veglegt embætti fyrir ágætan fyrrum þingmann Kvennalistans. Og af venjulegu hugrekki Ingibjargar hafi ráðningin verið falin þar til hún sjálf var komin í öruggt skjól og farin að túra um landið með Ellerti Schram. Jú auðvitað munu fréttamenn fjalla um þetta. Og aðrir sem hingað til hafa haft miklar áhyggjur af pólitískum stöðuveitingum, þeir munu ræða þetta fram og til baka. Menn munu spyrja hvað komi næst. Hvort fleiri gamlir þingmenn vinstri flokkanna verði skipaðir framkvæmdastjórar einstakra póstnúmera. Aftur í tímann. Hinn vandaði fréttaskýringaþáttur, Spegillinn, mun fjalla um þetta og ræða málið við Herdísi Þorgeirsdóttur og Svan Kristjánsson sem ekki munu eiga orð.
Þannig verður þetta nú allt saman, börnin góð.