Nú á að stofna nýtt einkahlutafélag. Tveir framsæknir aðilar, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, ætla að stofna einkahlutafélag. Þetta félag á að hafa með höndum all nokkra framkvæmd, byggingu tónlistar- og ráðstefnuhallar sem tónlistaráhugamenn og Björn Bjarnason hafa í nokkur ár reynt að sannfæra fólk um að búið sé að ákveða að byggja. Sumir hafa meira að segja ítrekað gengið svo langt að segja að ríkið hafi „skuldbundið sig“ til að reisa þessa höll og það fyrir milljarða og aftur milljarða króna. Vefþjóðviljinn hefur af og til séð ríka ástæðu til að vekja athygli á að þær staðhæfingar eru hrein fjarstæða. Reyndar slík fjarstæða að ótrúlegt er að menn haldi þeim fram í fullri alvöru; líklegra er að menn séu fullyrðandi þetta í sífellu til að telja mönnum trú um að málið sé útrætt og ekki annað eftir að gera en að velja marmarann á gólfin – sem verði gert í fullu samráði við Ashkenazý að sjálfsögðu.
En segjum nú að þeir hafi rétt fyrir sér, þessir sem svo oft fullyrða að ríkið hafi skuldbundið sig til að reisa tónlistarhöllina. Ætli þeir geti þá ekki verið svo vingjarnlegir að svara spurningu sem Vefþjóðviljinn hefur af og til borið fram þegar þessar heilaþvottartilraunir hafa dunið á borgurunum: gagnvart hverjum er ríkið skuldbundið að byggja þetta hús? Segjum nú að ríkið haldi að sér höndum og ekkert frekar gerist í þessum byggingarmálum, er þá einhvers staðar til aðili sem gæti farið í mál og fengið ríkið dæmt til að byrja að byggja? Það hlýtur að vera hægt að fá svar við þessum einföldu spurningum. Ef ríkið er skuldbundið til að reisa margumrædda tónlistarhöll, þá hlýtur einhvers staðar að vera aðili sem á samsvarandi kröfu á ríkið að reisa höllina undanbragðalaust. Og, með sama hætti, ef enginn slíkur aðili er til, þá er ríkið ekki skuldbundið til að reisa þessa höll nú eða nokkru sinni.
Nei, hvorki ríkið né Reykjavíkurborg eru skuldbundin til að reisa tónlistarhöllina. Og það er ekki bara það að þau séu „ekki skuldbundin“, að þau gætu með lagaklækjum komist hjá því að reisa hana. Nei staðreyndin er sú – þrátt fyrir í senn örvæntingarfullar og afdráttarlausar fullyrðingar ýmissa um hið gagnstæða – að hvorki íslenska ríkið né Reykjavíkurborg hafa ákveðið að tónlistarhöll verði reist á sinn kostnað. Ráðherrar og borgarstjóri geta lýst vilja til hvers sem er. Þeir geta gert þær áætlanir sem þeim sýnist. Þeir geta meira að segja búið til einkahlutafélög utan um loftkastala sína. En það eru aðeins tveir aðilar sem geta tekið ákvörðun um að ríkið og borgin fjármagni þessa tónlistarhússbyggingu, hvort sem væri að smáum hluta eða heild. Annar þessara aðila er Alþingi Íslendinga. Hinn er borgarstjórn Reykjavíkur. Og þeir sem ákaft reyna að telja fólki trú um að „ákvörðun liggi fyrir í tónlistarhússmálinu“, ætli þeir séu reiðubúnir að segja þessu sama fólki frá því hve miklu fé Alþingi og borgarstjórn hafa samþykkt að veita til byggingarinnar?
Nei ætli það.
En þá er sjálfsagt að taka af þeim ómakið. Alþingi Íslendinga hefur ekki ákveðið að íslenska ríkið leggi krónu til byggingar tónlistarhúss. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekki veitt fimmeyringi úr borgarsjóði til byggingar tónlistarhúss. Það hefur enginn aðili með fjárveitingarvald tekið nokkra ákvörðun í þessu máli.
Eða svo þetta sé stafað ofan í menningarvita og svo kallaða fréttamenn:
Það er ekki búið að ákveða að byggja ráðstefnu- og tónlistarhús á kostnað hins opinbera. Hvorki við hafnarbakkann í Reykjavík né annars staðar á íslensku yfirráðasvæði.