Síðastliðinn fimmtudag kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í svokölluðu einkadansmáli og heimilaði þar sveitarstjórnum að banna borgurunum, með einni saman lögreglusamþykkt, að framfleyta sér með einkadansi. Daginn eftir fjallaði Vefþjóðviljinn nokkuð um þennan dóm og þótti lögfræðin í honum ekki upp á marga fiska. Fleiri hafa nú vikið að þessum undarlega dómi, og meðal þeirra er sá maður íslenskur sem einna mestur sérfræðingur þykir um íslenskan stjórnsýslurétt, Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskólans. Rætt er við Pál í DV í gær og verður ekki sagt að hann lofsyngi Hæstarétt. „Í þessu máli vék Hæstiréttur frá eigin fordæmum um skýringu stjórnarskrárinnar á atvinnufrelsi“ segir prófessor Páll Hreinsson og mega þessi orð vera umhugsunarefni þeim sem halda að nektardansarar njóti sömu mannréttinda og aðrir Íslendingar.
Í viðtalinu við DV minnir Páll á að atvinnufrelsi megi ekki skerða nema þá með lögum, og segir: „Hæstiréttur hefur í öðrum dómum gert ríkar kröfur til lagaheimilda sem takmarka atvinnufrelsi. Í dómsmálum sem vörðuðu annars vegar Samherja og hins vegar Stjörnugrís segir til dæmis: „Fyrirmæli stjórnarskrárinnar um að atvinnufrelsi verði ekki skert nema með lagaboði verða ekki túlkuð öðru vísi en svo, að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að fela framkvæmdavaldshöfum óhefta ákvörðun um þessi efni. Löggjöfin verður að mæla fyrir um meginreglur, þar sem fram koma takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem talin er nauðsynleg.““ Páll Hreinsson segir að nú bregði svo við að Hæstiréttur beiti ekki þessum fyrri viðmiðum í einkadansmálinu og rétturinn rökstyðji engan veginn hvers vegna hann víkur frá eigin fordæmum og beitir allt öðrum viðmiðum. Þó vera megi að rétturinn hafi rök fyrir því, þá komi þau ekki fram í dómnum, segir prófessorinn og klykkir út með því að „mjög erfitt“ sé að svara því hvert fordæmisgildi þessa dóms sé.
Þó auðvitað sé sjálfsagt að varast að taka upp átórítetstrú og vitanlega sé þessi tiltekni prófessor ekki óskeikull, fremur en aðrir menn, þá mættu ofstækismenn borgar- og bæjarstjórna taka sér stutta hvíld frá sigurhátíðum sínum til að hugleiða orð hans. Menn mættu hugleiða hverju Hæstiréttur Íslands kostaði til nú á fimmtudaginn. Þar gerði rétturinn skyndilega allt aðrar og vægari kröfur til þeirra heimilda sem takmarka atvinnufrelsi en hann hefur áður gert. Af því verður dregin sú ályktun að annað hvort hafi ofstækisliðinu tekist að fá það fram að héðan í frá hafi stjórnvöld rýmri heimildir en áður til að skerða atvinnufrelsi borgaranna, og þá ekki einungis frelsið til að dansa heldur atvinnufrelsi almennt. Eða þá hitt, að Hæstiréttur hafi ákveðið, án rökstuðnings, að einkadansarar skuli njóta minni mannréttinda en annað fólk. Eru þar komnir tveir kostir og hvorugur góður.
Og talandi um fordæmisgildi dóma, þá er rétt að hafa eitt í huga. Dómarar leggja dóm á mál eins og þau eru lögð fyrir hvern dóm og miðað við þau gögn sem þar eru lögð fram. Í einkadansmálinu er þannig miðað við málavexti eins og þeir voru lagðir upp af málsaðilum og miðað við þær kröfur og þann rökstuðning sem þar voru hafðir uppi. Sem dæmi má nefna að í einu dómsmáli kann að vera lögð fram skýrsla sem sá, er leggur hana fram, segir sanna eða gefa mjög sterka vísbendingu um ástand á tilteknu sviði. Ef gagnaðilinn, það er að segja sá sem ekki leggur skýrsluna fram, eyðir engu púðri í að vefengja skýrsluna, svo sem vegna þess að hann telji efni hennar engu máli skipta, þá má gera ráð fyrir að dómurinn líti svo á að skýrslan sé rétt og þá kann að vera – ef rétturinn hefur aðra skoðun á mikilvægi skýrslunnar – að niðurstaða þess tiltekna dómsmáls ráðist af hinu ætlaða sannleiksgildi skýrslunnar, sem þó var aldrei tekist á um í málflutningnum. Slík niðurstaða í einu máli þyrfti ekki að hafa áhrif í öðru máli ef þar væri á ferð annar málsaðili, sem legði fram önnur gögn og svo framvegis.
Nú hafa borist fregnir af lítilsigldum stjórnmálamönnum í öðrum sveitarfélögum sem vilja neyta meðan á nefinu stendur og taka að nota lögreglusamþykktir til að meina öðru fólki að starfa við einkadans. Svona rétt eins og þeim hafi verið gefin fyrirmæli um að eira nú engu, en ekki verið rétt í meira lagi hæpin heimild til að fara nú sínu fram. Vefþjóðviljinn vill af þessu tilefni taka fram að það er jafn ljóst í dag og það var fyrir dómsuppkvaðningu á fimmtudaginn, að hver sú skerðing á atvinnufrelsi sem styðst við réttlægri heimildir en sett lög, er ógild að mati stjórnarskrár ríkisins. Þó dómararnir fimm hafi á fimmtudaginn ákveðið að víkja frá sínum fyrri fordæmum – án þess einu sinni að reyna að búa til rök fyrir því tiltæki – þegar kemur að einkadönsurum og áskilja atvinnufrelsi þeirra minni vernd en allra annarra manna, þá ætti allt sæmilegt fólk að sjá hversu mikil reisn er yfir þeim sveitarstjórnarmönnum sem reyna nú að ganga á lagið.
Sómakærir sveitarstjórnarmenn hljóta að standa með atvinnufrelsinu en gegn fordómunum.