Þróun hitastigs jarðar er nokkuð sem stundum hefur verið rætt á þessum síðum og bent á að hæpið sé að fullyrða nokkuð um þessa þróun sem þó sé allt of oft gert. Það er reyndar svo oft fullyrt að jörðin sé að hitna verulega af manna völdum að óhætt er að gera ráð fyrir að þetta sé almennt viðurkennt sem staðreynd. Allt annað en einfalt er þó að segja til um hvernig hitastig jarðar er að þróast, hvað þá hvers vegna það þróast með þeim hætti sem menn telja að það þróist. Öllu máli skiptir í raun hversu langt aftur í tímann menn líta þegar verið er að meta þróun hitastigsins og einnig hvaða mælingar menn miða við. Og þegar verið er að giska á hvað það er sem veldur hækkun og lækkun hitans, þá lenda menn í enn meiri vanda. Skýrir útblástur koltvísýrings breytingu á hitastigi jarðar, eða er orsakanna ef til vill að leita í mismikilli virkni sólar? Báðar skýringarnar eiga sér formælendur og svo útilokar önnur ekki hina, því margir mismunandi þættir geta haft áhrif á hitastigið.
„…samkvæmt The Economist er engin leið að geta sér til um þróun hitastigs jarðar nema endurtaka alla útreikningana sem spá IPCC byggir á.“ |
Vegna þess hve margt getur haft áhrif á hitastig jarðar, bæði beint og óbeint, er ákaflega erfitt að spá fyrir um þróun hitastigsins og hvert það muni verða að gefnum tilteknum forsendum. Mun hitastig hækka ef iðnaðarframleiðsla eykst? Hve mikið mun það hækka ef þróunarríkin verða ríkari hraðar en þróuðu ríkin á næstu áratugum? Mun það yfirleitt hækka eitthvað á næstu áratugum? Engri þessara spurninga er hægt að svara með vissu, en þó hafa ríki heims samþykkt að draga úr útblæstri koltvísýrings vegna þess að þau hafa áhyggjur af því að hitastig muni fara hækkandi ef ekkert verði að gert, og þau trúa því líka að hærra hitastig yrði af hinu illa. Þó er alls óvíst að hækkun hitastigs yrði neikvæð á heildina litið og margir hafa bent á að víða hefði það mjög jákvæð áhrif ef hiti hækkaði lítillega. Íslendingar gætu til dæmis suma daga ársins notað svo sem eins og hálfa gráðu til viðbótar til að ná úr sér mesta hrollinum. Og landbúnaður bæði hér á landi og annars staðar hefði gott af auknum koltvísýringi í andrúmsloftinu.
Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC, er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sett var á fót árið 1988 og hefur þann tilgang að meta áhrifin af hegðun mannsins á hitastig jarðar. IPCC hefur veruleg áhrif á afstöðu ríkisstjórna heimsins og hefur mælt með aðgerðum til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, þar á meðal koltvísýrings. Kyoto samkomulagið byggir til að mynda að stórum hluta á mati þessarar stofnunar. The Economist fjallaði nýverið um alvarlega gagnrýni sem sett hefur verið fram á útreikninga sem álit stofnunarinnar byggir á. Mat stofnunarinnar hefur oft verið gagnrýnt og þá hefur sérstaklega verið bent á hve ónákvæm spálíkönin eru. Bent hefur verið á að ekkert líkan hafi komið fram sem spái með sannfærandi hætti fyrir um hitastig eða veðurfar áratugi fram í tímann. Til að spá fyrir um slíkt vanti enn allt of mikið upp á þekkingu á samspili ólíkra þátta og gagnrýnendur hafa hvatt til aukinna rannsókna áður en ákveðið er að leggja út í stórkostlega dýrar aðgerðir til að lagfæra eitthvað sem ekki hefur verið sýnt fram á að sé úr lagi gengið.
Sú gagnrýni sem The Economist greinir nú frá snýst ekki um þessar almennu efasemdir um líkönin, heldur beinlínis um ranga útreikninga. Ian Castles, sem er tölfræðingur við Austalian National University og fyrrverandi yfirmaður tölfræðistofnunarinnar þar í landi, og David Henderson, sem kennir við Westminster Business School og er fyrrum aðalhagfræðingur hjá OECD, hafa gagnrýnt þá skýrslu IPCC sem á að leggja grunninn að mati á breytingum hitastigs í framtíðinni. Gagnrýni þeirra verður gefin út í næsta mánuði í tímaritinu Energy and Environment og lýtur hún meðal annars að framreikningum á landsframleiðslu hjá þróunarríkjunum. Castles og Henderson segja að bilið á milli ríkra og fátækra þjóða sé ofmetið í skýrslu IPCC vegna þess að landsframleiðslan sé reiknuð út frá gengi gjaldmiðlanna, en ekki sé tekið með í reikninginn að verðlag í þróunarríkjunum sé mun lægra en í ríkari löndum heims. Þá sé í skýrslunni gefin sú forsenda að bilið á milli ríkra og fátækra þjóða heims muni hverfa á þessari öld. Afleiðingin af þessu tvennu sé sú að gert sé ráð fyrir að þróunarríkin muni vaxa á mun meiri hraða en þau hafi nokkru sinni gert, jafnvel þó miðað sé við varfærnustu spána. Vaxtarhraðinn er reyndar slíkur samkvæmt forsendum IPCC, að íbúar ríkja á borð við Norður-Kóreu verða orðnir efnaðri en íbúar Bandaríkjanna, gangi svartsýnasta spáin um vöxt fátæku ríkjanna eftir.
Þar sem líka er gert ráð fyrir vexti ríkari landanna væri þessi niðurstaða út af fyrir sig fagnaðarefni, því þar með væri ekkert fátækt ríki eftir í heiminum. Þetta sýnir hins vegar hversu fjarstæðukenndar forsendur IPCC eru, og samkvæmt The Economist er engin leið að geta sér til um þróun hitastigs jarðar nema endurtaka alla útreikningana sem spá IPCC byggir á.
Castles og Henderson gagnrýna margt annað í skýrslu IPCC og einnig það hvernig hún er unnin og hverjir koma að þeirri vinnu – og hverjir koma ekki að henni. Þannig benda þeir á að ráðuneyti sem fjalla um efnahagsmál og stofnanir sem fjalla um tölfræði þurfi að koma meira að þessari vinnu í stað þess að hafa hana eingöngu á sviði umhverfisráðuneyta. Miðað við þær alvarlega reikniskekkjur sem IPCC virðist hafa gert er eðlileg krafa að tölfræði- og hagfræðikunnátta skýrsluhöfunda verði bætt. Annar lærdómur sem draga má af þessu er að taka opinberum skýrslum – og öðrum skýrslum vitaskuld líka – með eðlilegum fyrirvara. Allt of oft er gleypt gagnrýnislaust við þeim tölum sem settar eru fram í slíkum skýrslum og látið með þær eins og þær séu heilagur og endanlegur sannleikur. Og það sem verra er, fjölmiðlar hafa ríka tilhneigingu til að gera sem mest úr þeim ábendingum sem fram koma í skýrslum á borð við skýrslu IPCC, án þess að láta getið um þá fyrirvara sem settir eru um nákvæmni niðurstöðunnar. Fjölmiðlamönnum þykir fyrirsögnin „Hitastig jarðar hækkar!“ mun betri en fyrirsögnin „Hitastig jarðar kann að hækka lítillega ef marka má flókna útreikninga sem byggðir eru á veikum forsendum“.