Ég bið að heilsa Hæstarétti. |
– Brynleifur Tobiasson. |
Ekki kom hann nú beinlínis á óvart, blessaður dómurinn hjá þeim í gær. En ósköp var nú lítið varið í hann, bæði rökstuðninginn og niðurstöðuna, en það er bara eins og það er. Hæstiréttur Íslands sneri sem sagt í gær við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði úrskurðað ólögmæta þá breytingu á lögreglusamþykkt Reykjavíkur sem í senn bannaði fólki að dansa einkadans og sýnendum hans að fara um meðal gesta í sýningarhúsinu. Á síðasta ári fjallaði Vefþjóðviljinn um þessa breytingu og var niðurstaða blaðsins ótvírætt sú að einkadans væri lögmæt atvinnustarfsemi og þegar af þeirri ástæðu yrði hann ekki bannaður nema með lögum sem þættu nauðsynleg vegna almannaheilla. Dómur Hæstaréttar í gær er tilvalin ástæða til að láta þess getið að skoðun Vefþjóðviljans á þessu máli er með öllu óbreytt.
Þegar Vefþjóðviljinn hefur fjallað um lögfræðileg málefni hefur blaðið stundum reifað þá skoðun sína að þó dómar Hæstaréttar séu vitanlega að jafnaði endanleg lögfræðileg niðurstaða hverrar þrætu, þá sé ekki þar með sagt að þeir séu rétt niðurstaða hennar. Dómurinn í gær má að mati blaðsins vera skýrt dæmi um þann mun sem getur verið á þessu tvennu, því Vefþjóðviljanum þykir sem dómur Hæstaréttar haldi hvorki veðri né vindum. Og ekki rökum heldur, og það er verst. En dómurinn er endanleg niðurstaða í þessu tiltekna deilumáli og þeir borgarfulltrúar sem í fyrra héldu því fram að banna mætti umrædda starfsemi með einni saman lögreglusamþykkt geta nú gengið um með sigurbros á vör. Og þá er ekki annað eftir en að líta aðeins á dóminn sem breiðir sigurbrosin yfir stjórnlynd andlitin.
Þegar þetta deilumál er skoðað er ágætt að gera sér í upphafi grein fyrir því að rekstur svokallaðra nektarstaða er fyllilega lögleg atvinnugrein. Og er þá ekki átt við það að hann sé löglegur svona af því að hann hafi ekki sérstaklega verið bannaður, nei löggjafinn hefur beinlínis tekið fram að hann sé heimill. Til eru lög sem bera númerið 67/1985 og nefnast „lög um veitinga- og gististaði“. Í 9. grein þeirra laga er fjallað um flokkun veitingastaða og eru þar mismunandi flokkar taldir upp í fjölmörgum liðum. Fyrir nokkrum árum tók löggjafinn sig til og bætti nokkrum flokkum sérstaklega inn á þennan lista, og meðal annars kom þá inn ný tegund veitingastaða: „Næturklúbbur. Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og sýningu á nektardansi í atvinnuskyni.“ Löggjafinn hefur þannig tekið af tvímæli um það að nektardans er atvinnugrein sem heimilt er að stunda á svokölluðum næturklúbbum. Þetta er alveg ótvírætt og verður ekki misskilið. Og svo það sé rifjað upp enn einu sinni, þá segir í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að öllum skuli frjálst að stunda þá vinnu sem þeir kjósa, en því frelsi megi hins vegar „setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess“. Eða með öðrum orðum: atvinnufrelsi verða ekki settar skorður með neinu því sem hefur minna gildi en lög, svo sem reglugerðum, tilskipunum eða umburðarbréfum. Að ekki sé minnst á lögreglusamþykktir sem þangað til í fyrrasumar voru saklausar umgengnisreglur, svo sem um útivistartíma barna og almenn ákvæði um þrifnað á götum úti, ef svo mætti segja. Meira að segja lög sem takmarka atvinnufrelsi eru haldlaus ef þau þykja ekki nauðsynleg vegna almannahagsmuna.
Það er því algerlega ljóst að ekki má nota lögreglusamþykktir til að hindra lögmæta atvinnustarfsemi. Í máli því sem hér er fjallað um reyndu yfirvöld meðal annars að halda því fram, að jafna mætti banni við einkadansi við almennar reglur um afgreiðslutíma verslana sem einnig væru stjórnvaldsfyrirmæli en ekki lög en hefðu þó verið taldar standast þó þær strangt til tekið takmörkuðu frelsi manna til að stunda vinnu sína. Hér er rétt að hafa í huga, að það vita það allir sem vilja vita að með breytingunni á lögreglusamþykktinni var í raun reynt að ganga af nektardansstöðunum dauðum, því alkunna er að það er af einkadansinum sem staðirnir og starfsfólkið fá tekjur sínar. Má hér minna á einstaklega ógeðfelld ummæli Stefáns Jóns Hafsteins, borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sem sagði í sjónvarpsþætti í fyrra að hann teldi ekki unnt að banna þessa veitingastaði en þá væri ráðið að „drekkja þeim í skrifræði“. Þó almennar reglur um atvinnustarfsemi, svo sem almenn ákvæði um afgreiðslutíma, hvíldartíma starfsmanna og svo framvegis, kunni að vera taldar standast, þá sjá flestir heilbrigðir menn að ekki má nota slíkar reglur til þess að banna þá starfsemi sem ekki má banna nema með lögum. Dettur kannski einhverjum í hug að teygja mætti heimild til að setja almennar reglur um afgreiðslutíma upp í það að setja reglu um að tilteknar verslanir mættu aðeins vera opnar í tíu mínútur, annan hvern miðvikudag? Eða kannski fjórða hvern hlaupársdag? Nei, vitaskuld ekki. Auðvitað myndu þá allir viðurkenna að í raun væri ekki verið að setja almennar reglur um afgreiðslutíma heldur verið að banna starfsemina. Og það vita allir að er bannað samkvæmt stjórnarskrá.
Í dómi sínum viðurkennir Hæstiréttur að stefndi, Veitingahúsið Austurvöllur ehf., hafi leyfi til að reka næturklúbb og í því felist leyfi til að láta nektardans fara fram á staðnum, en „þótt nektardans sé leyfður lögum samkvæmt [sé] engu að síður heimilt að setja þeirri starfsemi almennar skorður í þágu velsæmis og allsherjarreglu.“ Slíkt megi gera í lögreglusamþykkt og beri lögreglu að sjá til þess að lögreglusamþykktum sé fylgt og að ekki eigi sér stað refsiverð háttsemi inni á veitingastöðum, eins og það er orðað í dómnum. Segir Hæstiréttur svo að breytingin á lögreglusamþykktinni geri „yfirvöldum kleift að fylgjast með sýningum á nektardansi og ganga úr skugga um, að allsherjarreglu og velsæmis sé gætt og að ekki fari fram refsiverð háttsemi í næturklúbbum. Einkasýningar á nektardansi [fari] fram í lokuðu rými innan veitingastaðanna og [verði] slíku eftirliti þar ekki við komið.“ Er svo klykkt út með svohljóðandi fullyrðingu sem að mati dómaranna leysir allan vanda: „Leyfi stefnda til að reka næturklúbb getur þannig ekki falið í sér heimild honum til handa að láta svokallaðan einkadans fara fram í lokuðu rými eða leyfa för sýnenda meðal áhorfenda. Þessir þættir í rekstri stefnda verða því ekki taldir atvinnustarfsemi, sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar.“
Hæstiréttur samþykkir að „nektardans“ sé heimill – enda á rétturinn erfitt með að halda öðru fram þegar löggjafinn hefur beinlínis kveðið upp úr með það að nektardans sé lögmæt atvinnugrein – en „svokallaður einkadans“ aftur á móti ekki. Til þess að koma sér til þeirrar niðurstöðu þarf að finna út að „svokallaður einkadans“ sé ekki stjórnarskrárvarin atvinnustarfsemi og það er gert með að slá því fram að þar sem að breytingin á lögreglusamþykktinni geri lögreglunni kleift að fylgjast með því að ekki sé brotið gegn velsæmi, að þá geti leyfið til að stunda nektardans ekki falið í sér leyfi til að stunda nektardans í lokuðu rými. Hér er gaman að minnast þess að Hæstiréttur hefur á undanförnum árum gert ógurlegar kröfur til þess að stjórnvöld fari mildilega með vald sitt, að þvingunarráðum verði ekki beitt nema sýnt sé að vægari úrræði dugi ekki. Í dómnum er ekki nefnt nokkurt einasta dæmi þess að lögreglunni hafi verið meinað að fylgjast með því sem fram fer í einkadansklefa. Það er ekki einu sinni reynt að „sýna fram á að vægari aðferðir komi ekki að haldi“, eins og Hæstarétti er svo tamt að fara fram á – í öðrum málaflokkum.
Já og vel að merkja: Hæstiréttur vísar einungis til þess að einkadansbannið geri lögreglunni kleift að fylgjast með, það er hreint ekki talað um að tilgangurinn sé að aðrir gestir geti haft augun hjá sér og fylgst með því að velsæmis sé gætt. Bannið er semsagt sett til þess að lögreglan geti fylgst með því sem henni hefur aldrei verið meinað að fylgjast með og sem hún hefur aldrei einu sinni reynt að fylgjast með. Ef menn halda að bann við „svokölluðum einkadansi“ sé nauðsynlegt þar sem veitingahússeigandinn geti einfaldlega sem húseigandi meinað lögreglunni að líta í einkadansklefann, þá hlytu þær áhyggjur einnig að eiga við um húsnæðið allt og því mætti með þessum rökstuðningi banna allan nektardans innandyra. Og eiginlega bannað hvað sem er innandyra, því alls staðar verður lögreglunni nú að vera kleift að „ganga úr skugga um, að allsherjarreglu og velsæmis sé gætt og að ekki fari fram refsiverð háttsemi“.
Þegar borgarfulltrúar, dómarar eða aðrir sem láta sig þetta mál varða, fara skyndilega að tala um að „gæta velsæmis“, þá má hafa í huga að löggjafinn er búinn að ákveða að nektardans á þar til gerðum næturklúbbi sé heimil atvinnustarfsemi. Það hlýtur að mega líta svo á að þar með hafi löggjafinn kveðið upp úr með það að nektardans á slíkum stað – nektardans sem augljóslega kemur varla fyrir augu annarra en þeirra sem eru svo fúsir til að horfa á hann að þeir borga sig inn – sé ekki andstæður velsæmi. Menn þurfa ekki að vera samþykkir þeirri ákvörðun löggjafans frekar en þeir vilja, en það breytir ekki því að þessu mati verður hvorki haggað í borgarstjórn Reykjavíkur né á dómarafundi í Hæstarétti.
Það mætti halda lengi áfram að ræða þennan leiða dóm Hæstaréttar, því hann verðskuldar ýtarlegri skoðun og umfjöllun. En það verður að bíða betri tíma. Þó getur Vefþjóðviljinn ekki stillt sig um að bæta einni spurningu við í lokin. Það var ekki eitt atriði lögreglusamþykktar heldur tvö sem Hæstiréttur Íslands ákvað að væru í góðu lagi. Það var ekki aðeins að Hæstiréttur samþykkti bannið við því að nektardans færi fram í lokuðu rými heldur ákvað Hæstiréttur einnig að það væri í lagi að banna dönsurunum „að fara um meðal gesta“! Og hvaða ástæðu á eiginlega að gefa fyrir því banni? Dansarnir mega ekki vera einir með gesti, af því að þá getur lögreglan – sem nótabene hefur hingað til aldrei átt erindi inn á nektarstað – kannski ekki fylgst með dansinum, og dansararnir mega ekki heldur fara um meðal gesta fyrir allra augum! Hvaða grín er þetta eiginlega? Það er alkunna að margir hatast við nektarstaði og það fólk sem þá sækir og þar starfar. Af hverju segir fólk ekki bara hreint út að það hafi séð færi á að loka stöðum sem það hefur fordóma gegn, og hafi einfaldlega gripið tækifærið í trausti þess að eftirmál yrðu engin fyrir það sjálft?