Þriðjudagur 18. febrúar 2003

49. tbl. 7. árg.
Aukið frelsi í efnahagslífinu á síðustu 10 árum hefur gert útrás íslenskra fyrirtækja mögulega.

Stjórnarformaður Bakkavarar, Ágúst Guðmundsson, var í viðtali á dögunum og lýsti þar meðal annars viðhorfum sínum til þeirra breytinga sem orðið hefðu á umhverfi atvinnulífsins hér á landi á síðustu árum. Ágúst sagði að útrás Bakkavarar og annarra fyrirtækja sem farið hefðu sömu leið, ætti rætur sínar að rekja til þess aukna frelsis sem orðið hefði í efnahagslífinu hér á landi á síðustu tíu árum, en áður hefðu fyrirtækin „verið hneppt í fjötra“. Ágúst lýsti mikilli ánægju sinni þróun mála og þá sér í lagi hve hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja væri orðið hér á landi eftir að tekjuskattur fyrirtækja hefur verið lækkaður í 18%, en fyrir áratug var þetta hlutfall 45%.

Ágúst hélt áfram: „Það er afar gott að reka fyrirtæki á Íslandi í dag. Eina vandamálið við Ísland er það að Ísland er svo lítið. Ef að Ísland væri jafn stórt og Bretland að þá væri þetta náttúrlega langsamlega besta landi í heimi til að reka fyrirtæki í, ég velkist ekki í nokkrum vafa um það. Fjármagnsmarkaðurinn hérna er afar sterkur og hreyfanlegur. Lífeyrissjóðakerfið er alveg gríðarlega gott. Við erum að horfa á mjög hreyfanlegan vinnumarkað, sem að gefur mönnum afar mikil tækifæri. Og það er lítil skriffinnska á Íslandi og það er auðvelt að koma hlutum í verk fljótt og vel.“ Hann bætti við að vegna þess vanda sem fylgdi því að hafa svo lítinn heimamarkað þyrftu íslensk fyrirtæki að hafa samkeppnisforskot til að geta náð árangri erlendis. Vel hefði tekist til með það á síðustu árum að skapa gott umhverfi og lagði hann sérstaka áherslu á skattakerfið í þessu sambandi. „[Skattkerfið] leiðir auðvitað til þess að fyrirtæki eins og okkar reynir að koma heim eins miklum tekjum og hægt er. Þannig að við erum alltaf og stöðugt í því að velta fyrir okkur, getum við búið þetta til heima, hvernig getum við búið til meiri virðisauka heima á Íslandi, því að þar viljum við búa til gróðann. Við viljum græða á Íslandi af því að á Íslandi erum við að borga 18% skatt en í Bretlandi erum við að borga 30% og 28% í Svíþjóð og svo framvegis. Og þetta auðvitað hefur alveg gríðarlega mikil áhrif þegar kemur að samkeppnishæfni landsins og því að reyna að fá hvort sem er íslensk fyrirtæki til að flytja starfsemi heim eða hreinlega erlend fyrirtæki til að flytja starfsemi til Íslands.“

Hægri menn hafa lýst svipuðum sjónarmiðum og stjórnarformaður Bakkavarar, en vinstri menn hafa sýnt þeim takmarkaðan skilning. Ekki þarf að minna á að Steingrímur J. Sigfússon og félagar eru jafnan á móti því að gera vel við „gróðafyrirtæki“, og vilja jafnan skattleggja þennan vonda gróða eins og kostur er. Þeir átta sig hins vegar ekki á því að gróðinn er ekki föst stærð. Hann er þeim mun meiri sem skatthlutfallið er lægra, meðal annars vegna þess að fyrirtæki vilja mynda gróða hér á landi ef skatturinn er lágur, eins og Ágúst lýsti.

En það eru ekki bara harðlínumennirnir á vinstri vængnum sem agnúast út í lækkun tekjuskatta á fyrirtæki. „Nútímalegu jafnaðarmennirnir“ í Samfylkingunni sjá líka rautt þegar þessi mál ber á góma. Þegar verið var að ákveða lækkun þessa skatts á Alþingi fyrir tveimur árum töluðu Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Jóhanna Sigurðardóttir, sigurvegari prófkjörs Samfylkingarinnar, ákaft gegn þeirri lækkun tekjuskatts á fyrirtæki sem ríkisstjórnin lagði til, þ.e. úr 30% í 18%. Bæði tóku þau stórt upp í sig að venju, og Jóhanna sagði meðal annars að það væri „alveg útilokað“ að Samfylkingin gæti „mælt með því að skatthlutfall fyrirtækja verði lækkað um 12%, eða úr 30% í 18%.“

Ef Samfylkingin kemst í ríkisstjórn að loknum kosningum, hversu lengi ætli fyrirtæki þurfi þá að bíða áður en skattar á þau verða hækkaðir?