Íslenskir fjölmiðlamenn segjast stundum í eilífri tímaþröng. Þeir séu fáir en verkefnin mörg og sé það skýringin á því að þeir geti sjaldnast gert betur en að líta á yfirborð hlutanna. Þeir hafi aldrei tök á að koma sér upp djúpri þekkingu á nokkrum sköpuðum hlut, og því fari sem fer. Reyndar er misjafnt hversu illa fjölmiðlum fellur þetta ástand, að minnsta kosti eru til fjölmiðlar sem virðast fullsáttir við að senda frá sér frétt eftir frétt sem bendir ekki til að fréttamennirnir hafi dvalist á Íslandi lengur en þurfti til að læra að bera fram einfaldar setningar. Að minnsta kosti hafi þeim ekki gefist tóm til að setja sig inn í nokkurt mál af gagni. Þannig er til sjónvarpsstöð sem stundum virðist telja að slík linnulaus vanþekking sé afsakanleg, svo lengi sem dagskrárgerðarmennirnir séu afslappaðir í tali, með fráhneppt í hálsinn og þaulæfðan „þægilegan“ talanda. Og svo mætti áfram telja.
En gott og vel, ljósvíkingarnir þurfa að vera snöggir að setja saman fréttir sínar og ávallt viðbúnir að tala fyrirvaralaust við alla menn nema Ron Jeremy. Sama má kannski segja um starfsfélaga þeirra á dagblöðunum, því þó þeir geti eytt minni tíma í að velja sér gleraugnaumgjarðir eða til að greiða hárið nægilega lengi til að það virðist ógreitt, þá þurfa blöðin að koma út flesta daga. Það er þá kannski helst á tímaritunum sem menn geta leyft sér að lesa yfir það sem þeir skrifa, því þar er hugsanlega minna kapphlaup við sekúnduvísinn.
Mannlíf var að koma út og þar var meðal annars grein sem bar ýmis merki þess að höfundi hafi heldur legið á. Þessi grein, „Með höndina í kökuboxinu“, er svo sem ósköp saklaus en það má hafa eitt og annað í henni sem dæmi um vinnubrögð nútímafjölmiðlamanna, sem flest virðast segja og skrifa eftir minni. Í kynningu greinarinar segir að stundum þurfi „lítið til að fjölmiðlasirkusinn fari af stað“ og verði í greininni sögð saga „nokkurra slíkra sirkusa sem hafa bæði skemmt okkur og hneykslað“. Gott og vel, það má segja afar mörg dæmi af fjölmiðlaupphlaupum og tilefnislausri allsherjarhneykslun en látum það vera. Tökum frekar tvö atriði úr greininni sem höfundur getur varla hafa skrifað eftir öðrum heimildum en eigin minni eða annarra.
Jæja, um Albert Guðmundsson, fyrrverandi þingmann, ráðherra og sendiherra, segir til dæmis eins og ekkert sé sjálfsagðara: „Albert stofnaði Borgaraflokkinn eftir að hann var flæmdur úr ráðherraembætti og gerðist guðfaðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.“ Jújú Albert sagði af sér ráðherraembætti en hann stofnaði reyndar ekki Borgaraflokkinn fyrr en síðar þegar í ljós kom að hann yrði ekki ráðherra þó þáverandi flokkur hans kæmist í ríkisstjórn. Látum það vera, en hvað með hina staðhæfingu greinarhöfundar, þessa að Albert heitinn hafi verið „guðfaðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar“? Var ekki staðreyndin sú, að Borgaraflokkurinn gekk ekki til þess stjórnarsamstarfs fyrr en búið var að koma Alberti úr landi sem sendiherra í París? Þurfti ekki Jón Baldvin Hannibalsson að flytja þáverandi sendiherra Íslands í Frakklandi, Harald Kröyer, skyndilega burt til að koma Alberti fyrir? Og hvað sagði Albert sjálfur? Ætli þessi orð hans segi ekki flest sem segja þarf um þá kenningu Mannlífs að hann hafi verið guðfaðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar:
„Hvað Borgaraflokkinn varðar, þá vék hann frá þeirri stefnu sem ég hafði þegar ég stofnaði flokkinn. Það varð til þess að ég sagði af mér formennsku, því það er óhæft að lenda sem formaður í minnihluta í stórum málum, einsog stjórnarmyndunarviðræðum, og vita ekki einu sinni að þær séu í gangi. Ég hef heldur ekki skipt mér af flokknum síðan ég sagði af mér formennsku og ekki mætt þar á þingflokksfundi.“ |
Hitt dæmið sem má taka er líka saklaust en minnir á hvernig vitleysa getur komist á gang við það að einhver flettir ekki upp heldur treystir á eigið minni. Um núverandi forsætisráðherra segir greinarhöfundur allt í einu: „Davíð hóf pólitískan feril sinn á því að gera alla helstu andstæðinga að sendiherrum“ og nú kannski heldur einhver grandalaus lesandi að sú sé raunin. Nú skulum við, eins og greinarhöfundur Mannlífs gerir greinilega, horfa fram hjá þeirri staðreynd að pólitískur ferill forsætisráðherra hófst vitaskuld ekki þegar hann kom fyrst á þing árið 1991 en jafnvel þó þessi kenning sé skoðuð í því vinsamlega ljósi þá er ekki mikið varið í hana. Og er þá ekki átt við að forsætisráðherrann hafi aldrei farið með utanríkisráðuneytið og því ekki verið í því að gera einn eða neinn að sendiherra. Ef við segjum að pólitískur ferill þessa ráðherra hafi hafist árið 1991 og teygjum upphafið út allt fyrsta kjörtímabil hans á ráðherrastóli, allt fram til 1995, þá var einn stjórnmálamaður skipaður sendiherra á þeim árum. Jón Baldvin Hannibalsson skipaði Eið Guðnason þingmann og ráðherra Alþýðuflokksins sem sendiherra og hlýtur að vera all óvænt upphefð fyrir Eið Guðnason að verða skyndilega orðinn allir helstu andstæðingar núverandi forsætisráðherra.