Tvennar samræður.
Fyrst þær fyrri:
Dagskrárgerðarmaður Rásar 2: „Ég meina heldurðu virkilega að stjórnarráðið hafi þau tök á embættismönnum hér að þau geti skipað þeim að sitja og standa eins og þeim hentar? |
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: „Nei, ég er alls ekki að halda því fram. Ég er hins vegar að benda á það að traust á stofnunum samfélagsins hefur rýrnað.“ |
Dagskrárgerðarmaðurinn: „En þú varpar þeirri spurningu upp í þinni ræðu í Borgarnesi!“ |
Ingibjörg Sólrún: „Nei, ég byrja á ræðuna mína á því að fjalla um traustið í samfélaginu. Ég segi fólk treystir ekki stjórnmálamönnum. Fólk treystir ekki ríkisstjórn. Það treystir ekki Alþingi. Það treystir ekki fjölmiðlum. Það treystir ekki stofnunum samfélagsins. Og þetta, maður heyrir enduróminn af þessari umræðu mjög víða í samfélaginu og það er mjög slæmt vegna þess að þegar stofnanirnar grípa síðan til aðgerða og ráðstafana sem geta verið fyllilega eðlilegar, málefnalegar og faglegar, að þá vaknar þessi umræða upp og hún á ekki að þurfa að vakna upp. Við eigum að trúa því öll og treysta að þegar stofnanirnar fara af stað þá séu þær bara að rækja sitt eftirlitshlutverk og þar séu menn að vinna sín verk. Ég er þeirrar skoðunar að þessar stofnanir séu að vinna sín verk algjörlega á faglegum og málefnalegum grunni. En það er ekki nóg að ég trúi því og treysti því þegar að umræðan í samfélaginu er á öðrum nótum.“ |
Þannig er þetta nú. Það er ekki hún sem reynir að vekja tortyggni og grafa undan trausti í þjóðfélaginu. Hún trúir ekki þessu slaðri sem hún heyrir hvar sem hún kemur. Hún meira að segja ber á móti því, en enginn má við margnum.
Og þá eru það síðari samræðurnar, sem reyndar áttu sér stað austur á héraði all nokkru fyrr, en eiga hér heima því þar talaði kona sem all nokkuð mun vera skyld Ingibjörgu þeirri sem hér var vitnað í:
Frænka Ingibjargar Sólrúnar: „Ekki þarf ég að spyrja að því; það liggur eitthvað illa á þér, því ekki ertu vön að vera svona fálát með öllum jafnaði; en mig skal nú ekki furða það, þó það kynni að liggja illa á þér út úr hansvítis slaðrinu, sem gengur staflaust hérna í sveitinni; því þú munt varla hafa getað komist hjá að heyra það sjálf.“ |
– Sigríður Bjarnadóttir frá Sigríðartungu: „Hvað er það?“ |
Frænkan: „Nú, þú hefur þá ekki heyrt það, elskan mín, hvað það talar um þig?“ |
– Sigríður: „Nei, ekki hef ég heyrt það; hvað er það?“ |
Frænkan: „Og minnstu ekki á það, ég get varla talað um það, ekki nema það, að það er verið að bendla þig við þremilinn hann Gvend á Búrfelli.“ |
– Sigríður: „Hver gjörir það?“ |
Frænkan: „Á, það var líklegra, að það væri ekki meiri hæfa fyrir því en mörgu öðru, sem það fer með; en guði sé lof, að það er ekki satt, þar færi illa góður biti í hundskjaft, hafði ég nærri sagt; ég var búin að heita því fyrir mér, að ekki skyldi ég koma í veisluna þína, gæskan mín, ef þú ættir þann kúalubba; en mikið er, hvað bölvað hyskið – guð fyrirgefi mér, að ég blóta – getur logið, ég segi það satt, tilhæfulaust; þetta er altalað út um alla sveit, en ég ber á móti því…“ |
Þær eru líkar, þær frænkurnar. Að vísu er ósannað hversu sterk blóðböndin eru í raun milli þeirra en það fólk sem bæði hefur lesið Pilt og stúlku og fylgst með málflutningi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur undanfarnar vikur, gengur ekki að því gruflandi að ef Íslendingabók raðaði fólki fremur eftir innræti en ætterni þá væri skammt milli þeirra systra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og húsfreyjunnar á Leiti.
Og nú langar Gróu að verða forsætisráðherra Íslands.