Fimmtudagur 13. febrúar 2003

44. tbl. 7. árg.

Hvor viltu heyra fyrst, góðu tíðindin eða þau slæmu? Þetta er vinsæl spurning að minnsta kosti í bandarískum bíómyndum og hún kemur upp í hugann vegna pólitískra atburða síðustu tveggja daga. Það er best að líta fyrst á slæmu tíðindin, en þau eru að ríkisstjórnin ætlar að drífa sig út í ýmsar framkvæmdir sem ekki eru allar alveg nauðsynlegar, hvorki í bráð né lengd. Rökin fyrir því að hafa hraðar hendur er atvinnuástandið og að betra sé að framkvæmt verði á næstunni en þegar álversframkvæmdir standi sem hæst. Þetta er rétt svo langt sem það nær, en opinberar framkvæmdir eru ekki æskilegar einungis til að bæta atvinnuástand. Þar sem ýmsar þessara vegaframkvæmda að ekki sé minnst á menningarhúsin á landsbyggðinni eru ekki nauðsynlegar, væri betra að láta þær alveg eiga sig. Nær væri að skilja meira eftir í vösum almennings og reyna að bæta atvinnuástandið með þeim hætti.

En um þetta snýst einmitt önnur af jákvæðu fréttunum, því þær voru tvær síðustu daga. Í gær lýsti forsætisráðherra þeirri skoðun sinni að ekki væri ástæða til að láta ríkissjóð fitna um of og benti á að það sé „miklu betra, að skilja sem mest eftir hjá fólkinu og fyrirtækjunum í landinu.“ Hann hyggst á næstu vikum kynna hugmyndir sínar um skattalækkanir og ekki verður annað sagt en það sé ánægjuleg tilbreyting að heyra stjórnmálamann tala með þessum hætti. Alltof oft vilja þeir auka skatttekjur sem mest og fá aldrei nóg.

Hin jákvæða fréttin varðaði áframhaldandi einkavæðingu ríkisfyrirtækja, en til að kosta þær framkvæmdir sem ætlunin er að ráðast í á næstu mánuðum verða seldir þeir hlutar ríkisins sem eftir eru í Íslenskum aðalverktökum, Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Þar með verður enn dregið úr þátttöku ríkisins í atvinnulífinu og er óhætt að segja að einkavæðing hafi gengið mun hraðar fyrir sig á yfirstandandi kjörtímabili en frjálslyndir menn þorðu að vona. Að sama skapi hljóta þetta að vera erfiðir tímar fyrir forystumenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, því á þessum bæjum hafa menn staðið gegn því að lina tök ríkisins í atvinnulífinu. Vinstri grænir gera það blygðunarlaust og viðurkenna iðulega að vera fylgjandi ríkisrekstri, en samfylkingarmenn fara aftan að hlutunum, segjast ekkert vera á móti einkavæðingu, en eru þó jafnan á móti þeirri aðferð sem beitt er.