Tæknin hefur breytt eðli og inntaki lýðræðisins,“ segir í greinargerð með nýrri þingsályktunartillögu varaþingmannsins Björgvins G. Sigurðssonar og nokkurra félaga hans um „milliliðalaust lýðræði“. Tillagan gengur út á að skipuð verði „nefnd sem kanni möguleika á að þróa milliliðalaust lýðræði og kosti rafrænna aðferða við framkvæmd þess“. Næði hugmyndin um „milliliðalaust lýðræði“ fram að ganga í sinni tærustu mynd hefði það svo sem einn kost í för með sér, Björgvin og félagar myndu hætta á þingi og láta það eiga sig að setja öðru fólki reglur sí og æ. En þetta er að vísu ekki hugmynd Björgvins, því hann hefur boðið sig fram til áframhaldandi setu sem varaþingmaður á Suðurlandi og þráir sjálfsagt fátt heitar en eignast varanlegt sæti á Alþingi. Þessi tillaga er líklega liður í þeirri viðleitni, því tillögur af þessu tagi hljóma ósköp vel áður en fólk veltir þeim fyrir sér. Það nefnilega lítur þannig út að með þessu „milliliðalausa lýðræði“ eigi að auka val einstaklingsins. Slíkt vakir þó alls ekki fyrir þeim sem bera tillöguna fram.
„[Pólitískur leiðtogi Samfylkingarinnar] hefur þar með aukið völd stjórnmálamanna á kostnað almennings og það er sú stefna sem Samfylkingin fylgir í raun. Allt annað eru orðin tóm og innihaldslaus kosningabrella.“ |
Í greinargerðinni, sem nokkuð augljóst er að fyrsti flutningsmaður hefur ritað af alkunnri yfirvegun og hógværð, segir að markmiðið með tillögunni sé að Ísland verði „tilraunastofa við þróun lýðræðisins og fánaberi framþróunar lýðræðislegra stjórnarhátta“. Meiri menntun, tölvueign og meiri frítími kalli á „að almenningur hafi meira um hagi sína að segja en áður.“ Fulltrúalýðræðið í núverandi mynd er „fyrirbæri fortíðar“ að mati flutningsmanna. Og skyldi þá ekki talað um „nýja öld“ og allt annað sem gleður penna ungra jafnaðarmanna? Jú, einmitt, í greinargerðinni er því slegið upp að þarna sé um að ræða „Lýðræði 21. aldarinnar“, ekkert gamalt og úrelt lýðræði frá síðustu öld, sem hafi „að mörgu leyti runnið sitt skeið“.
Eitt af því sem virðist ráða úrslitum um að ekki gangi lengur að búa við þetta úrelta 20. aldar lýðræði sem menn gera nú, er að mati flutningsmanna að heimurinn hafi gjörbreyst „frá þeim tíma þegar verjandi var að óskir fólksins þyrftu að fara í gegnum fulltrúa þess að einu eða öllu leyti, fulltrúa sem höfðu tíma og aðstæður til að sinna mikilvægri ákvarðanatöku en almenningur ekki.“ Og að mati Björgvins og félaga hefur þorri almennings nú „aðstæður og upplýsingu til að taka sjálfur stærri ákvarðanir um hagi sína og líf.“ Þannig er þetta nú. Almenningur í dag er miklu betur upplýstur um alla hluti en almenningur fyrir hálfri öld eða svo, sem eigraði um í gapandi fáfræði og nagandi upplýsingaskorti. En hvernig kemur þetta allt heim og saman við þá kenningu að heimurinn sé sífellt að verða flóknari og fjölbreytileiki mannlífsins allur að verða meiri. Og hvernig er með kenninguna, sem ekki er síður vinsæl, að fólk verði æ uppteknara og hafi ekki lengur tíma til að lesa bækur – lesi eiginlega ekkert nema fyrirsagnir eða myndablöð – og hafi varla tíma til að sinna fjölskyldunni. Hvernig á það fólk að setja sig inn í hin ólíklegustu mál daginn út og inn og kjósa um þau daglega á lýðnetinu, í Kringlunni eða ölstofum landsins? Ætli það gæti farið svo að popúlistar ættu auðveldara með að koma sjónarmiðum sínum í gegn þegar þannig háttar til en við núverandi fyrirkomulag?
Í greinargerð með tillögunni er mikið lagt upp úr því að Ísland geti orðið „tilraunastofa“ með því að fylgja tillöguflytjendum í þessu máli, sem er út af fyrir sig athyglisverð hugmynd. Mesta furða að þessi ágæta hugmynd sé ekki orðuð þannig að Íslendingar hafi þarna óvænt tækifæri til að gerast tilraunarottur lýðræðisins, en út á það virðist tillagan ganga öðru fremur. Ein þeirra tilrauna sem Björgvin og félagar nefna er kosning um Reykjavíkurflugvöll og er sú atkvæðagreiðsla talin „merkileg tilraun í milliliðalausu lýðræði og líklegt er að hún gefi tóninn fyrir innleiðingu beins lýðræðis á sveitarstjórnarstiginu“. Það er vissulega djarft – nánast fífldjarft – að nefna flugvallarkosninguna alræmdu í þessu sambandi. Eftir áralangar umræður um það mál, og linnulausar umræður sem tröllriðu öllu mánuðina á undan kosningunni, kusu ekki nema rúm 37% atkvæðisbærra manna um hið stóra flugvallarmál sem fjölmiðlamenn og sumir stjórnmálamenn héldu að allir hefðu óskaplegan áhuga á. Og það meira að segja þrátt fyrir að kosið væri í Kringlunni auk hefðbundnari kjörstaða. Niðurstaðan var ámóta glæsileg og þátttakan. Minnihluti þátttakenda í kosningunni vildi flugvöllinn burt, sem þýðir að mikill minnihluti kosningabærra Reykvíkinga, 18%, vildi losna við völlinn. Hvernig túlkuðu popúlistar svo niðurstöðuna, líklega lýðræðislega og flugvöllurinn er væntanlega orðinn óumdeildur meðal þeirra stjórnmálamanna sem hlusta hvað mest á almenning. Nei, ekki er það nú svo. Ýmsir hafa þvert á móti reynt að túlka niðurstöðuna þannig að flugvöllurinn eigi ekki framtíð fyrir sér.
Þeir sem lögðu fram þingsályktunartillöguna um „milliliðalausa lýðræðið“, hljóta að vera kunnir áhugamenn um lýðræði og beita sér fyrir framgangi þess hvar sem þeir koma. Ekki síst þar sem þeir ráða sjálfir málum og geta beitt lýðræðislegum vinnubrögðum. Nei, reyndar ekki. Í hópi þessara lýðskrumara en enginn annar en Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, sem nýlega valdi einn og sjálfur nýjan leiðtoga þessarar fylkingar án þess að bera það undir flokksmenn með lýðræðislegum hætti. Hann ákvað bara sí svona einn góðan veðurdag að svilkona hans, Ingibjörg Pandóra Gísladóttir, skyldi verða „pólitískur leiðtogi“ Samfylkingarinnar í hans stað. Flokksmenn höfðu að vísu kosið hann sjálfan til þessa hlutverks í beinni og lýðræðislegri kosningu sem mikið var gert úr á sínum tíma að væri alveg sérstaklega lýðræðisleg því þetta var póstkosning meðal allra flokksmanna. Það dugði bara ekki til. Forysta flokksins vildi skipta um leiðtoga og þá var skipt án þess að ræða það við flokksmenn. Forystumenn einhverra annarra flokka hefðu sennilega verið sagðir haldnir valdhroka á mjög háu stigi að hegða sér með þessum hætti.
„Milliliðalaust lýðræði“ er ekki leiðin að auknu vali almennings. Breytingin sem næðist fram með ítrekuðum kosningum um alla hluti yrði sú að auk þess sem völd popúlista myndu aukast yrði þjóðfélagið loks endanlega gegnsýrt af stjórnmálum. Annaðhvort yrðu allir landsmenn orðnir að litlum stjórnmálamönnum sem hugsuðu ekki um neitt annað en pólitísk úrlausnarefni, eða þá að litlir minnihlutahópar næðu völdum í einstökum málum og gætu keyrt áhugamál sín í gegnum þjóðaratkvæði þar sem lítill minnihluti þjóðarinnar tæki þátt. Þetta er hvorki nútímalegt né framför frá því sem nú er. Sú framför sem flutningsmenn ættu að bjóða upp á er að leggja til að þeim ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi stjórnmálanna verði fækkað, en ekki að þær verði færðar til og settar í hendur fámennra þrýstihópa. Í þessu gætu þeir til að mynda tekið sér til fyrirmyndar þá sem hafa beitt sér fyrir einkavæðingu, en með því að selja eigur ríkisins er verið að auka völd almennings og draga úr völdum stjórnmálamanna. Hið sama má gera með skattalækkun, en pólitískur leiðtogi Samfylkingarinnar, og þar með flutningsmanna tillögunnar, hefur gengið í þveröfuga átt og hækkað skatta. Hann hefur þar með aukið völd stjórnmálamanna á kostnað almennings og það er sú stefna sem Samfylkingin fylgir í raun. Allt annað eru orðin tóm og innihaldslaus kosningabrella.