ESBÞað er ekki hægt að bjóða mönnum upp á þessa þvælu. „Sérfræðingarnir“ segja í viðtali við Aftenposten að matvara í Noregi muni lækka um 30% við inngöngu Noregs í ESB. Það er vegna þess að tollar og viðskiptahindranir sem Norðmenn hafa lagt á sjálfa sig – eða öllu heldur norskir stjórnmálamenn á norskan almenning – munu falla niður við aðild. Þessa tolla má fella niður hvenær sem er og aðild að ESB er ekkert skilyrði fyrir því. Rétt er því að segja að matvara geti ef til vill lækkað um 30% þrátt fyrir inngöngu í ESB. Raunar er Evrópusambandið sjálf með himinháa tollmúra til að verja bændur á heimavelli gegn framleiðslu annarra bænda og er helsti dragbíturinn á samninga um alþjóðlegt viðskiptafrelsi. Íslendingar fá til dæmis að kynnast áhuga ESB á fríverslun þessa dagana með því að sambandið hefur sett fram háar fjárkröfur gegn því að vörur héðan njóti áfram tollfrelsis í nýjum aðildarríkjum sambandsins. Ríkin sjálf hafa ekkert á móti því að vörur séu fluttar tollfrjálst frá Íslandi eins og undanfarin ár en það getur framkvæmdastjórnin í Brussel ekki liðið.
Það er með öðrum orðum hægt að lækka tolla og fækka viðskiptahindrunum án þess að ganga í helsta tolla- og miðstýringarbandalag heimsins, Evrópusambandið. Það er ekki bara hægt heldur einnig æskilegt. Þá losna menn ekki aðeins við eigin tolla heldur sleppa við ytri tolla sambandsins og allt hitt ruglið sem fylgir aðild einnig.