Helgarsprokið 26. janúar 2003

26. tbl. 7. árg.

J

Skyldi vera virkt innra eftirlit og fylgt gátlista og gæðahandbók við rekstur þessa sandkassa?

æja þá er loksins komið að ykkur brjálæðingunum sem hafið hengt upp rólu eða slegið upp sandkassa við heimili ykkar. Þið hafið verið gjörsamlega eftirlitslausir fram að þessu, valsað um án starfsleyfis, ekki verið settir undir eftirlitsskyldu, ekki fengið yfirlitsskoðun, aðalskoðun af faggildum aðila eða rekstrarskoðun, ekki sinnt innra eftirliti eða gert gátlista eða gæðahandbók og hafið víst látið alla staðla og tilskipanir Evrópusambandsins sem vind um eyru þjóta. En ekki lengur. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hefur gefið út reglugerð 942/2002 þar sem tekið er á þessari vafasömu starfsemi ykkar. Hún er með öðrum orðum búin að setja á sig boxhanskana, komin út á akurinn og farin að hitta kjósendur, eins og hún sagði fyrir skömmu að til stæði.

Það vantar ekki frekar en fyrri daginn að markmiðin með því að setja nýjar og auknar reglur um borgarana eru falleg. „Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi barna og annarra með því að tryggja að leikvallatæki og leiksvæði séu hönnuð, frágengin og þeim viðhaldið á öruggan og viðurkenndan hátt.“, segir í fyrstu grein reglugerðarinnar. Já hver er á móti því að börnin leiki sér í öryggi á leiksvæðum? Líklega enginn. En þar með er ekki sjálfgefið að ríkið eigi að setja reglur um málið og alls ekki sjálfgefið að þær reglur eigi að vera eins og þær séu settar af stjórnmálamanni sem mætir kjósendum með boxhönskum.

„Nú er málið sum sé það, að áður en afi og amma setja sandkassa út í garð fyrir barnabörnin, verða þau að kynna sér staðalinn ÍST EN 1176 og framfylgja honum samkvæmt gátlista.“

Í Reykjavík einni eru um 200 leiksvæði á vegum borgarinnar. Við fyrirtæki og fjölbýlishús eru óteljandi leiksvæði til viðbótar en reglugerðin nær einnig til þeirra. Samkvæmt þessari nýju reglugerð verða eigendur þessara svæða nú að verða sér úti um starfsleyfi samkvæmt reglugerð um hollustuhætti. Allt umstangið og eftirlitið mun kosta eigendur leiksvæða tugi þúsunda króna. Áður en nýtt svæði er tekið í notkun þarf að fara fram „lokaúttekt byggingarfulltrúa“ samkvæmt byggingareglugerð. Og svo eru það kröfurnar, maður lifandi. Framvegis verður sérstaklega bannað að þeysa um leiksvæðin á vélknúnum ökutækjum. Þetta eru afar merkileg nýmæli og mjög brýnt að koma þessu ákvæði í reglugerð því engum hafði dottið í hug að þetta gæti verið til vansa. Grindverk skulu vera þannig að börnum stafi ekki hætta af þeim en áður lögðu flestir afar sem settu upp leiksvæði fyrir barnabörnin mesta áherslu á að hafa girðingar sem hættulegastar til að hleypa smá spennu í leikinn. Lýsing skal vera til staðar sem kemur sér vel á daginn og á björtum sumarkvöldum þegar börn eru helst að leik en ekki síður í myrkri þegar þeim er bannað að vera úti samkvæmt annarri reglugerð og geta notið þess að mæna á upplýst leiksvæðin úr herbergisglugga sínum. Á leiksvæðum skal gert ráð fyrir „ruslabiðum“ og losa skal sorp úr þeim eftir því sem við á og ekki síður eftir ákvæðum reglugerðar um úrgang. „Hættulegt rusl ber að fjarlægja jafnóðum“ enda geta börn jafnt farið sér að voða á kjarnorkuúrgangi sem karamellubréfum. Og svo eru það körfuboltaspjöldin, ja þau ber að festa tryggilega upp sem engum hafði dottið í hug áður.

Svo er það innra eftirlitið, ekki verður hjá því komist að afinn og amman eða pabbinn og mamman, sem setja upp rólur og vegasölt fyrir börnin í bakgarði tvíbýlishússins, hafi innra eftirlit í lagi á leiksvæðinu. Í reglugerðinni segir að ábyrgðaraðili skuli vera að hverjum eftirlitsþætti innra eftirlits og skuli hann gera rekstraraðila viðvart um það sem aflaga fari og benda á nauðsynlegar úrbætur. Rekstraraðili skuli gera nauðsynlegar úrbætur eða taka leikvallatæki úr notkun. Svo segir: „Innra eftirlitið skal vera samkvæmt ákvæðum staðalsins ÍST EN 1176. Innra eftirlit skal framkvæma samkvæmt gátlista og í því skal vera slysaskráning. Í innra eftirlitinu skal tilgreina til hvaða úrbóta skal grípa þegar frávik verða frá ákvæðum reglugerðarinnar og hvenær úrbótum var lokið. Mælt er með að innra eftirlit sé hluti af gæðahandbók.“ Nú er málið sum sé það, að áður en afi og amma setja sandkassa út í garð fyrir barnabörnin, verða þau að kynna sér staðalinn ÍST EN 1176 og framfylgja honum samkvæmt gátlista.

Og innra eftirlitið er ekkert sem menn geta framkvæmt eftir hendinni eða eins og þeim hentar og dettur í hug. Í reglugerðinni er útskýrt hvernig innra eftirlitið fer fram: „Innra eftirlit greinist í reglubundna yfirlitsskoðun, rekstrarskoðun og aðalskoðun, sbr. ákvæði í viðauka III. Aðalskoðun skal framkvæmd af hæfum aðila samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda leikvallatækja.“

Svo eru það viðurlögin, þau eru ekki af verri endanum. Þeir sem eru með rólu eða sandkassa á sínum vegum og fara ekki eftir þessari miklu reglugerð verða settir í fangelsi allt að fjórum árum.