Seinheppnasti stjórnmálamaður lýðveldissögunnar, Össur E. Skarphéðinsson, vinnur nú hörðum höndum að sinni eigin pólítísku jarðarför – og virðist hæstánægður með framvindu mála.
Margir telja ef til vill að það hafi hann verið að gera alla sína tíð. Hann á eflaust Íslandsmet í mótsagnakenndu bulli, sem nú síðast snerist um hvort Ingibjörg Gísladóttir væri forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar eða ekki. Í þeim efnum var dagamunur á skoðunum hans. Í vetur, þegar niðurstaða lá fyrir í prófkjörum Samfylkingarinnar, leit Össur svo á að kynslóðaskipti hefðu átt sér stað. Ekkert slíkt átti sér stað, enda sitjandi þingmenn í öruggustu sætunum á framboðslistum flokksins. Skömmu fyrir þetta hafði hann stutt áformaða ríkisábyrgð til handa DeCode, en litlu síðar – sem kom ekki mjög á óvart – var hann á móti henni. Seinheppni Össurar E. Skarphéðinssonar hefur tekið á sig ótal aðrar myndir í gegnum tíðina og um skeið leit út fyrir að einu sigrar hans í stjórnmálum einskorðuðust við systurflokkana í Evrópu. Reyndar hefur hann nær einungis haft skoðun á systurflokkunum við ákveðnar aðstæður, sem minnir nokkuð á þá lýsingu að sigur á sér marga foreldra, en ósigurinn er munaðarleysingi.
Þó barst Össuri óvæntur liðsstyrkur fyrir um það bil ári. Þá tók Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, sig til og lýsti þeirri skoðun sinni að Samfylkingin væri algerlega misheppnað fyrirbæri. Þeir sem ekki þekkja til Svans mega vita, að spádómar hans og skoðanir á þjóðfélagsmálum hafa þá furðulegu náttúru að snúast upp í algera andhverfu sína. Um það má ýkjulaust skrifa heilt fræðirit. Og það var eins og við manninn mælt, gengi Samfylkingarinnar hefur aldrei verið betra, að minnsta kosti samkvæmt skoðanakönnunum. Og Össur gerir að sjálfsögðu eins og seinheppni hans býður honum að gera. Nú þegar staða hans sem formanns ætti að vera hvað sterkust, víkur hann sér sjálfum til hliðar og boðar að Ingibjörg Pandóra sé forsætisráðherraefni flokksins. Tvíeyki er orð dagsins og felst það í verkaskiptri samvinnu Össurar E. Skarphéðinssonar sem formanns (enn sem komið er) og Ingibjörgu Pandóru Gísladóttur sem talsmanns.
Vill einhver taka upp siðu Svans, áhættuspámanns, og spá fyrir framtíð Össurar í pólítík eftir þetta? Er líklegt að fyrrum borgarstjóri muni vilja vera mikið lengur áfram án umboðs þegar að næsta landsfundi Samfylkingarinnar kemur? Fer hún ekki í formannsframboð við fyrsta tækifæri og mun ekki Össur víkja með bros á vör? Er ekki frekar spurningin hvort brosið muni frjósa þegar Ingibjörg Pandóra Gísladóttir endurskoðar þetta tvíeykishugtak í krafti formannsstöðunnar? Er ekki öllum ljóst, að þá er það fyrirkomulag fyrir bý – hvað sem líður verklagi í norska Verkamannaflokknum?
Hvorki Vefþjóðviljinn, Svanur né aðrir geta sagt fyrir þessa hluti með neinni vissu – ekki einu sinni Össur Epimeþeus Skarphéðinsson sjálfur. Þó verður forvitnilegt að sjá, hvort Össur fær bakþanka þegar Ingibjörg Pandóra hefur opnað öskjuna sína, líkt og hún hefur gefið í skyn að hún muni gera.