„Þátttaka er mikilvægt atriði nýrra vinstristjórnmála, sem hefur fleiri en eina vídd. Úfæra þarf lýðræðishugtakið víðar. Hafa forgöngu um að ala fólk upp í samráði og þátttöku en ekki líta á stjórnmálaþátttöku sem kappleik á fjögurra ára fresti til að velja skaffara.“ |
– Stefán Jón Hafstein formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar í Degi 10. maí 2000. |
Þá er það blessað lýðræðið. Það er nú reyndar ekki alveg nógu gott að sumra mati. Þeir hafa talið sig geta gert það „nútímalegra“ og meira að hætti „nútímalegra jafnaðarmanna“. Gott ef ekki á „nýrri öld“ líka. Aðeins að útfæra það betur, segja þeir. Hafa meira samráð og leyfa öllum að taka þátt. Hljómar vel, ekki satt? Stjórnmálaþátttaka er nú ekki eins og hver annar kappleikur. Og þegar Stefáni Jóni Hafstein sleppir er nokkur betur til þess fallinn að lýsa þessu en formaður þingflokks Samfylkingarinnar?
„Samfylkingin leggur líka áherslu á lýðræði í flokkstarfinu þar sem aðkoma flokksmanna á að vera sem greiðust að mótun stefnu með gagnvirku sambandi félagsmanna og flokksins. Aðferðir beins lýðræðis verði þróaðar inna flokksins með beinni þátttöku flokksmanna í atkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Landsfundurinn samþykkti að formaður og varaformaður flokksins skyldi kosinn beinni kosningu en að auki verður stóru spurningunni um það hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu lögð undir atkvæði allra flokksmanna fyrir lok næsta árs. Með þessu er Samfylkingin að þróa skynsamlega aðferð til að koma á beinu lýðræði og auka möguleika flokksmanna til að koma að mótun flokksins.“ |
– Bryndís Hlöðversdóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar á heimasíðu sinni 27. nóvember 2001. |
Já stórt sem smátt verður borið undir flokksmenn alla enda er þessi áhersla á lýðræðið aðalsmerki Samfylkingarinnar. Þetta er nú einu sinni nútímalegur jafnaðarmannaflokkur með gagnvirkt samband við félagsmenn. Þetta lýsir sér ekki síst fram í því að allir flokksmenn eru spurðir beint um hverjir eiga að vera í forystu flokksins. Slíkar ákvarðanir verða ekki teknar af örfáum í innsta hring og tilkynntar á hótelherbergi um helgi eins og í einhverjum gamaldags skrípaflokki þar sem ekki er gagnvirkt samband við félagsmenn. Nei. nei. Slíkar ákvarðanir verða ekki teknar nema með nýjustu aðferðum beins lýðræðis sem þróaðar hafa verið innan flokksins, hins nútímalega jafnaðarmannaflokks á nýrri öld. Hvorki meira né minna dömur mínar og herrar.
Eða hvað segir ekki líka í „Manifesto“ Samfylkingarinnar: „Við viljum víðtækt lýðræði. Fulltrúar almennings taki ákvarðanir um sameiginleg málefni fyrir opnum tjöldum. Sem flestar ákvarðanir verði teknar beint af þeim hópum fólks sem þær varða.“ Enda hefur sjálfur Össur Skarphéðinsson líffræðingur á Vesturgötu ekki farið leynt með mikilvægi lýðræðislegs umboðs forystumanna í stjórnmálaflokki, ekki síst nútímalegum jafnaðarmannaflokki á nýrri öld.
„Almennt er ég þeirrar skoðunar að því víðtækara sem kjör formanns er, því traustari verður viðkomandi formaður.“ |
– Össur Skarphéðinsson í Degi 2. febrúar 2000. |