Ímorgunsjónvarpi Stöðvar 2 í morgun sat Sigmundur Rúnarsson ritstjóri DV að spjalli við stjórnendur þáttarins. Þar hélt að því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði „ekki tekið af skarið í Evrópumálum“. Nú er það svo sem ekkert nýtt að þeir sem vilja að Ísland verði áfram frjálst og fullvalda ríki séu taldir skoðanalausir í „Evrópumálum“. Svo virðist sem í huga Sigmundar og fleiri slíkra sé aðeins til ein möguleg skoðun á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, það er að segja að Íslands verði amt í sambandinu. Að öðrum kosti eru menn „ekki búnir að taka af skarið í Evrópumálunum“. Þessi þankagangur minnir svolítið á að þegar haldnar eru þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni Evrópusambandsins í ríkjum þess eru þær jafnan endurteknar ef niðurstaðan er ekki framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að skapi. Ef niðurstaðan er framkvæmdastjórninni þóknanleg kemur hins vegar ekki til greina að endurtaka kosninguna. Þá er niðurstaðan hin eina rétta! Þá er búið að taka af skarið!
Hins vegar er það deginum ljósara að tveir af íslensku stjórnmálaflokkunum hafa tekið af skarið um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð hafa einmitt sagt það skýrt og skorinort að það henti ekki Íslendingum að ganga í Evrópusambandið. Framsóknarflokkur hefur ekki sagt annað með formlegum hætti en að Ísland eigi að standa fyrir utan. Og svo er það Samfylkingin. Ja, lítill hluti flokksmenna sendi flokksforystunni skoðun sína á póstkorti í haust og meirihluti þeirra taldi að Íslendingar eigi að kanna með viðræður við Evrópusambandið. Ekkert bendir til að Samfylkingin muni á næstunni geta tekið af skarið um hvort aðild hentar Íslendingum eða ekki. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nýr „talsmaður“ og „forsætisráðherraefni“ flokksins, er ekki líkleg til að bæta þar nokkru við því hún treysti sér ekki einu sinni til að styðja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.