Það eru ýmsir sem gera upp liðið ár þessa dagana. Einn þeirra er Pete du Pont fyrrum ríkisstjóri Delaware sem skrifar reglulega í The Wall Street Journal. Hann telur að George W. Bush hafi átt mjög gott ár sem forseti, ekki síst í utanríkismálum. Hópurinn sem starfi með honum að utanríkismálum, Cheney, Rumsfeld, Powell og Rice hafi hjálpað til við að skipa honum á bekk með nokkrum úrvalsmönnum á sviði utanríkismála og nefnir þar Churchill, Reagan og Thatcher. Þessir úrvalsmenn hafi lagt sitt af mörkum til að menn skilji hve frelsið er mikilvægt að hvernig það verður best varið. Árið hafi ekki verið eins gott á heimavelli enda þriðja árið í röð án þess efnahagur manna vænkist. Því sé mikilvægt að halda áfram að draga úr refsingum við því að menn leggi sig fram í atvinnulífinu. Þrennt tínir du Pont til sem hafi gerst á árinu en þurfi að laga. Verndartollar voru lagðir á stál, styrkir auknir til landbúnaðar og McCain-Feingold lögin um fjárframlög til stjórnmálaflokka voru samþykkt. Líklega muni hæstiréttur leiðrétta hið síðastnefnda en Bush þurfi sjálfur að leiðrétta hin atriðin tvö áður en forsetatíð hans lýkur.
Meðal kjánalegustu mála ársins telur du Pont vera boxkeppni fræga fólksins sem Paula Jones og Tonya Harding tóku þátt í. Kynferðisglæpamaðurinn Harvey Taylor flúði líka frá Flórída til Maine í febrúar þar sem hann kól á nokkrum tám áður en lögreglan klófesti hann. Taylor hótaði að stefna lögreglunni fyrir vanrækslu í starfi. „Ef lögreglan hefði staðið sig í stykkinu hefði ég verið kominn heim í fangelsi áður en ég lenti í þessu ástandi.“ Heimskumálaráðuneytið telur du Pont þó vera rekið handan Atlantshafsins á vegum Evrópusambandsins. Reglugerð þess númer 288/97 kveður á um að sósa sé grænmeti ef hún inniheldur meira en nánar tilgreint magn af grænmeti. Þ.e.a.s. ef 20% af massa hennar kemst ekki „í gegnum málmsigti með 5 millimetra möskva eftir að 20°C heitu vatni er hellt með“. Ef sósan stenst ekki þetta próf verður hún að grænmeti og tollar á innflutning hennar hækka úr 20% í 288%.
Síðast en ekki síst telur du Pont það hafa verið athyglisvert við nýliðið ár að fleiri Bandaríkjamenn fóru á keppni í trukka- og traktoradrætti en á tennisleiki.