Ívitnisburði sínum um „fundi“ sína við Bill Clinton forseta Bandaríkjanna greindi Monica Lewinsky frá því að í miðjum klíðum hefði Clinton fengið símtal frá sykurkónginum frá Flórída Alfonso Fanjul. Þótt símtal þetta kæmist ekki út af fyrir sig í heimsfréttirnar á sínum tíma sperrtu áhugamenn um frjáls viðskipti eyrun þegar á það var minnst. Marga hefur lengi grunað að sykurframleiðendur væru duglegir að gauka sætindum að ráðamönnum í Washington í þeim tilgangi að viðhalda tollum og innflutningstakmörkunum á sykur. Árið 1999 rakaði Alfonso Fanjul til dæmis saman einni milljón dollara til stuðnings flokki Clintons á fjáröflunarsamkomu á landareign sinni.
„Síðast en ekki síst komast framleiðendur í fátækari löndum heims ekki inn á markaði velmegunarlandanna með vörur sínar og er þar með meinað að bæta kjör sín upp á eigin spýtur. Í fararbroddi fyrir þessari óheillastefnu fer sjálft Evrópusambandið.“ |
Mary Anastasia O’Grady ritstjóri leggur út af þessu merkilega símtali í grein í The Wall Street Journal í fyrradag en forsetinn var eins og menn vita afar upptekinn maður og tekur ekki símann frá hverjum sem er, og ekki undir hvaða kringumstæðum sem er. Símtalið kom upp huga O´Grady í haust þegar Louisiana demókratinn Mary Landrieu sakaði stjórn George W. Bush um að stefna að fríverslun með sykur við Mexíkó. Þessi málflutningur hjálpaði Landrieu til að vinna sigur á keppinauti sínum úr röðum Repúblíkana um öldungadeildarsæti enda hafa margir í Louisiana hagsmuni af sykurframleiðslu. Landrieu gagnrýndi Bush hins vegar fyrir aðgerðir gegn innflutningi á stáli sem forsetinn greip til vegna ríkisstyrkja Evrópulanda til stálframleiðenda.
O´Grady segir að þessi vernd sem innlendir sykurframleiðendur njóti hafi fleiri afleiðingar en að Bandaríkjamenn greiði meira fyrir sykur en ella væri. Vegna áhrifa sinna hafa sykurframleiðendur reynt að fá sjálfum NAFTA samningnum um fríverslun í Norður-Ameríku breytt sér í hag. Samkvæmt upphaflegu útgáfu samningsins frá 1992 eiga sykurtollar og innflutningshömlur jafnt og þétt að minnka til ársins 2008 þegar fullt viðskiptafrelsi með sykur tekur gildi. Bandaríkjamenn hafa hins vegar haldið því fram að frá því samningurinn var undirritaður og þar til Bandaríkjaþing hafi staðfest hann árið 1993 hafi verið gerður hliðarsamningur sem setji ýmis skilyrði og hömlur á þessi viðskipti. Það var Mickey Kantor viðskiptafulltrúi hins nýkjörna forseta sem bætti þessari grein við samninginn enda höfðu sykurframleiðendur þá áttað sig á því að óbreyttur NAFTA samningurinn myndi leiða til aukinnar keppni við innfluttan sykur og hótuðu að beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir staðfestingu hans. Mexíkanar segjast hins vegar aldrei munu hafa samþykkt svo fáránleg skilyrði sem þessi aukagrein er.
Á síðasta ári lagði Mexíkó jafnvel 20% toll á sýróp frá Bandaríkjunum til að hefna fyrir sykurtollana. Það skaðar auðvitað bæði neytendur í Mexíkó og framleiðendur í Bandaríkjunum. Og þá hafa bandarískir sýrópsframleiðendur auðvitað heimtað aðgerðir til mótvægis í stað þess að lemja á félögum sínum í sykurframleiðslunni sem eiga upptökin að þessari hringavitleysu.
Um allan heim eiga svona endaleysur sér stað með þeim afleiðingum að framleiðendur sem að öllu jöfnu standa sig best komast ekki inn á markaði með vörur sínar, neytendur hafa um færra að velja og greiða óþarflega hátt verð. Síðast en ekki síst komast framleiðendur í fátækari löndum heims ekki inn á markaði velmegunarlandanna með vörur sínar og er þar með meinað að bæta kjör sín upp á eigin spýtur. Í fararbroddi fyrir þessari óheillastefnu fer sjálft Evrópusambandið.