We now find this reform law threatened by both political parties, the special interests who are regrouping, and also by the very regulatory body of the federal government charged with its interpretation. |
– John McCain þingmaður í öldungadeild Bandaríkjaþings. |
Þeir sem trúa því að peningar séu uppspretta alls ills í stjórnmálum og setja þurfi meiri, fleiri og umfram allt betri lög um fjármál stjórnmálaflokka ættu að líta til Bandaríkjanna um þessar mundir. Þar voru nýlega sett lög sem kennd eru við McCain og Feingold. Helstu aðdáendur laganna og jafnvel flutningsmenn frumvarpsins um þau hafa þegar lýst því yfir að farið sé í kringum þau. Og það ekki að ástæðulausu.
Með því að setja ströng lög um fjárframlög til stjórnmálaflokka er verið að vega að tjáningarfrelsi einstaklinganna sem vilja styðja sinn málstað með því að styðja ákveðinn flokk. Þegar hafa ýmsir aðilar ákveðið að láta reyna á lögin fyrir dómstólum á þeirri forsendu og líkega enda þau á borði hæstaréttar Bandaríkjanna áður enn langt um líður. Dómstóll á Hawaii hefur þegar lýst þau of vafasöm gagnvart stjórnarskránni til að geta átt við um fjárframlög vegna þingkosninga í ríkinu.
En peningarnir hverfa ekki úr stjórnmálum þótt stjórnmálaflokkunum sé meinað að taka við þeim. Þeir finna sér aðeins annan farveg eða öllu heldur bakdyr. Bæði demókratar og repúblíkanar hafa þegar stofnað eins konar skuggafélög sem safna fé sem flokkarnir geta ekki formlega gert sjálfir. Félög þessi heita til dæmis Empowerment for a New Century á vegum demókrata og American Spirit Fund og Leadership Forum sem rekin eru af repúblíkönum. Þessi félög munu gera nákvæmlega sama við peningana sem þau safna og flokkarnir hefðu gert nema að nú verður erfiðara fyrir fjölmiðla og almenning að meta hver eyðir hverju í auglýsingar og annan áróður. Í raun virka því lög gegn framlögum til stjórnmálaflokka eins og bann við áfengi. Starfsemin færist undir yfirborðið þar sem menn eiga erfiðara með að átta sig á umfangi hennar.
Segjum sem svo rökræðunnar vegna að lög um fjármál stjórnmálaflokka hefðu tilætluð áhrif og flokkarnir gætu ekki fundið leiðir í kringum þau eins og þeir hafa alltaf gert við öll slík lög. Hverjir næðu þá frumkvæðinu í umræðunni? Væru það ekki einmitt þeir harðsvíruðu hagsmunahópar sem hafa úr mestu fé að spila? Tækju ekki alls konar félög og fyrirtæki frambjóðendur einfaldlega upp á arma sína? Myndu menn vilja að auglýsingar á borð við auglýsingu garðyrkjubænda í nafni „ungs fólks í Samfylkingunni“ og auglýsingu Hagkaupa á lýðskrumi varaþingsmanns Framsóknarflokksins yrðu reglan en ekki undantekningar í íslenskum stjórnmálum?
Þeir sem fengju sérstakt vægi í slíku þjóðfélagi þar sem einstaklingar gætu ekki styrkt flokka og framboð að vild væru þó líklega samtök sem innheimta nauðungargjöld af almenningi. Nauðungarsamtök eins og BSRB, Samtök iðnaðarins og Stúdentaráð sem fá gjöld frá félagsmönnum sínum með atbeina ríkisvaldsins hefðu óneitanlega forskot á aðra sem taka þátt í umræðunni. Ekki síst ef stjórnmálaflokkum verður gert ómögulegt að taka við stuðningi frá félagsmönnum sínum.