Þriðjudagur 3. desember 2002

337. tbl. 6. árg.
Ekki hefði ég fengið vinnu í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn vorið 1945 ef þeir hefðu verið búnir að finna upp kennitöluna. Í umsókn um starfið gat ég þess eins að ég hefði unnið í verksmiðjunni á Ingólfsfirði árið áður og væri í menntaskólanámi, en námsmenn gengu fyrir með vinnu í ríkisverksmiðjunum. Vinnuna fékk ég nýorðinn fimmtán ára, en sextán ár voru lágmarksaldur.
– Magnús Óskarsson, Með bros í bland – minningabrot.

Engum dylst sem les endurminningar Magnúsar heitins Óskarssonar hversu þakklátur hann var fyrir sumrin tvö sem hann vann í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn þó strangt til tekið hefði hann ekki haft aldur til að vera ráðinn þar til starfa í öndverðu. Hefði Magnús sagt rétt til um aldur sinn hefði hann orðið af starfinu sem varð honum svo gott veganesti inn í skrifstofumennsku framtíðarinnar, eins og hann orðaði það sjálfur.

Síldarverksmiðjur ríkisins eru ekki eini vinnustaðurinn þar sem gilt hafa reglur um lægstan aldur starfsmanna. Í sjómannalögum hefur þannig lengi verið kveðið á um það að ekki megi menn starfa yngri en fimmtán ára til sjós, nema þá á sérstökum skólaskipum. Nú er hins vegar eins og mönnum þyki þetta aldursmark ekki nægja lengur því fram hefur komið opinberlega að til standi að hækka það í sextán ár. Ætla menn sjálfsagt að gera það af greiðasemi við unga pilta og þrýsta þannig á að þeir gangi menntaveginn svo kallaða í landi en fresti sjómennskudraumum að minnsta kosti um ár.

En af hverju að vera alltaf að hafa vit fyrir fleiri og fleiri mönnum? Af hverju að meðhöndla menn sem börn lengur og lengur? Fimmtán ára maður sem er náttúreðaður til sjómennsku en kannski síður til starfa í landi, af hverju má hann ekki ráða sjálfur þessum málum sínum ef honum býðst skipspláss? Halda menn kannski að forráðamenn hans neyði hann á sjóinn? Eða halda menn að það sé slíkur straumur fimmtán ára pilta á haf út að borg og bæir standi tóm? Þetta fimmtán ára gamla sjómannsefni sem breytingin myndi halda í landi; það verður ekki neytt í skóla í staðinn fyrir sjómennskuna. Það mun einfaldlega drepa tímann með þeim hætti sem því sýnist fram að sextánda afmælisdeginum. Þó velviljaðir reglugerðarmenn hafi haft af því skipsplássið er ekki þar með sagt að sjómannsefninu hafi verið gerður nokkur greiði. Og það sem mikilvægast er, það er ekki sjómannsefnið og forráðamenn þess sem taka þessa ákvörðun. Það gera stjórnlyndir menn fyrir sunnan sem telja sig vita hvað öllum sé fyrir bestu.