My view has always been: Cut taxes on any occasion, for any reason, and in any way that’s politically feasible. |
– Milton Friedman |
Besta leiðin til að koma böndum á ríkisútgjöldin er að minnka fóðurskammt ríkisskepnunnar. Ein afleiðing þess að ekki hafa verið teknar frekari ákvarðanir um að lækka tekjuskatta á einstaklinga eftir að Geir H. Haarde komst í fjármálaráðuneytið er að ríkissjóður stendur á blístri og aðhaldið er lítið. Enda hafa ríkisútgjöldin vaxið sem aldrei fyrr. Þannig var ákveðið að veita hátekjufólki hæstu félagslegu bætur í heimi með mestu varanlegu aukningu ríkisútgjalda hin síðari ár, ríkið hækkaði laun starfsmanna sinna umfram almennar launahækkanir, keypt var sendiráð í Japan fyrir 800 milljónir króna, íslenskir diplótúristar tóku til óspilltra málanna í Mapútó, menn héldu áfram að fabúlera um að byggja tónlistarhöll fyrir 4.000 milljónir króna, byrjað er að hita upp borana við fjallsrætur í fámennustu dölunum og sveitarfélögin hafa fengið að spreða í hvaðeina sem svonefndum sveitarstjórnarmönnum dettur í hug. Á það jafnt við um almennan fyrirtækjarekstur og hlutabréfakaup, leiftrandi útgjöld til boltaleikja fyrir fullorðna menn, byggingu risavaxinna íþróttahúsa, rándýrra listasafna eða stærstu skrifstofubygginga Íslandssögunnar. Og jafnvel þótt sveitarfélögin hafi hækkað útsvarið verulega á síðustu árum hefur það ekki dugað til því þau hafa safnað skuldum af miklum móð.
Það liggur við að menn séu farnir að sakna þess tíma þegar ríkissjóður var rekinn með halla. Hallinn veitti útgjaldaglöðum þingmönnum ákveðið aðhald þótt hallarekstur sveitarfélaga dugi ekki sem aðhald á gjörsamlega ábyrgðarlausa sveitarstjórnarmenn. Nú þegar ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi um nokkur ár virðast menn hins vegar telja að þar með hafi menn meira umboð til að eyða annarra manna fé og ekki sé sama þörf á aðhaldi og áður.