Undanfarið hefur maður nokkur hringt á kosningaskrifstofur vongóðra prófkjörsframbjóðenda, kynnt sig sem „Harald“ og viljað ræða Evrópumál. Einkum hefur hann þó viljað þrýsta á um að frambjóðendur tjái sig meira um Evrópumálin og þá helst að þeir mæli með umsókn Íslendinga að Evrópusambandinu. Þá hefur komið fram í máli Haraldar þessa að misjafnt sé hversu „vel“ hagsmunasamtök atvinnulífsins hafi staðið sig í þeim málaflokki, en ein samtök hafi staðið sig sérstaklega vel og það séu Samtök iðnaðarins sem hafi beitt sér fyrir vandaðri umræðu um málið. Þegar forvitnir starfsmenn prófkjörsskrifstofa hafa beðið Harald þennan að segja á sér frekari deili, ja þá hefur fengist upp úr persónunni að hún heiti Haraldur Nelson.
Hér er greinilega á ferðinni ódrengilegt bragð andstæðinga Evrópusambandsaðildar til að koma óorði á vammlausa starfsmenn Samtaka iðnaðarins því Haraldur Dean Nelson er einmitt „upplýsingastjóri Samtaka iðnaðarins“ og í fullu starfi við að senda á íslenska fjölmiðla næstum daglegar fréttatilkynningar um nýjustu sigra Evrópusambandsins. Allir hljóta að sjá að ekki getur verið að slíkur maður, sjálfur Upplýsingastjóri Samtaka iðnaðarins, geri sjálfan sig og samtök sín hlægileg með svo furðulegum símtölum. Hér hefur einhver verið að hringja og gefa ranglega upp nafn Haraldar Nelsons. Jafnvel hjá Samtökum iðnaðarins á barnaskapurinn sín takmörk.
Athugasemd við þennan pistil frá Haraldi Dean Nelson.