Mánudagur 18. nóvember 2002

322. tbl. 6. árg.

Ríkið hefur samið um sölu á nær öllum hlut sínum í Búnaðarbanka Íslands, eða 46% hlut af þeim rúma helmingi hlutafjár sem eftir var í eigu ríkisins. Eftir þessa sölu er ríkið nánast alfarið hætt þátttöku í bankastarfsemi og á aðeins litla hluti eftir í Búnaðarbanka og Landsbanka og verða engin vandkvæði að selja þá. Það má því nánast segja að markmið ríkisstjórnarinnar um að ljúka einkavæðingu ríkisviðskiptabankanna á kjörtímabilinu hafi náðst. Um leið er langþráður draumur frjálslyndra manna á Íslandi orðinn að veruleika og ekki er oft sem jafn mikil ástæða er til að fagna pólitískum tíðindum og nú.

Óhætt er þó að segja að fæðingin hafi lengst af gengið hægar en áhugamenn um frelsi og einkaframtak hefðu kosið. Innan flestra flokka hefur verið mikil andstaða við hugmyndir um einkavæðingu bankanna og er þáttur Alþýðuflokksins í því sérstaklega minnisstæður, en ráðherrar flokksins á árunum 1991-1995 gerðu allt sem þeir gátu til að hindra einkavæðinguna og tókst það ætlunarverk vel. Sömu menn sitja nú í forystu Samfylkingarinnar og reyna enn að þvælast fyrir auknu svigrúmi einkaframtaksins hvernig sem því verður við komið. Þessir „nútímalegu jafnaðarmenn“ eru að því leyti og flestu öðru einnig afar svipaðir Vinstri grænum og eins og bent hefur verið á er óskiljanlegt að þessir flokkar skuli ekki sameinast og freista þess þannig að ná auknum stuðningi við hugmyndir um „velferðarstjórn“, sem er nýtt orð vinstri manna yfir skattahækkanir, aukin ríkisumsvif og lakari lífskjör.

Um leið og unnendur frelsisins gleðjast yfir því að ríkið dregur sig í hlé á fjármálamarkaði er þó ástæða til að minna á að enn er verk að vinna, enda hafa stjórnlyndir menn allra flokka ekki náð litlum árangri í aukningu ríkisumsvifum á liðnum áratugum og langan tíma mun taka að vinda ofan af þeirri óheillaþróun. Sem dæmi um næstu verkefni á fjármálamarkaði má nefna að ríkið rekur fyrirbæri sem heitir Íbúðalánasjóður, en það er sjóður sem engin ástæða er til að sé í höndum ríkisins og ágætar hugmyndir hafa verið settar fram um hvernig koma megi honum inn í bankakerfið. Byggðastofnun er annað furðufyrirbæri ríkisins. Stofnunin þjónar engum öðrum tilgangi en þeim að færa fé frá þeim sem nýta það vel til hinna sem kunna síður með fé að fara. Stofnunin hefur því í raun það hlutverk að draga úr hagsæld og að því hlýtur að koma að menn sjái að ekki getur gengið að ríkið standi fyrir slíkri starfsemi.

Lánasjóður íslenskra námsmanna er enn einn sjóður ríkisins sem stundar lánastarfsemi á undarlegum forsendum. Hann lánar þeim niðurgreitt fé sem stunda langskólanám svo þeir megi í framtíðinni hafa hærri laun en hinir. Þetta er í raun millifærsla á fjármunum frá þeim sem hafa lægri laun til hinna sem eru hærra launaðir.

Fleiri dæmi af slíkum furðulegheitum mætti nefna og því er óhætt að segja að enn sé af ýmsu að taka þó mikið hafi áunnist á síðustu vikum og mánuðum.