Listaverkaeign Búnaðarbanka og Landsbanka varð með ótrúlegum hætti að umtalsefni í fjölmiðlum í vikunni. Suðurskautsfarinn Ólafur Örn Haraldsson vakti athygli á því að við sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum væri verið að selja eignir bankanna. Þetta kom Ólafi Erni mikið á óvart og hann telur mikið vandamál að á meðal eigna bankanna hafi verið listaverk og að með einkavæðingu bankanna séu listaverk þeirra ekki lengur í eigu ríkisins. Þó hefur verið augljóst frá því ríkið seldi fyrstu hlutina í bönkunum fyrir nokkrum árum að með því væru einstaklingar að eignast hlut í eignum bankanna. Ólafur Örn hefur bent á hina „augljósu lausn“ á stóra ríkislistaverkamálinu, en hún er að eigendur bankanna „gefi þjóðinni“ þessar eigur sínar. Hann er með öðrum orðum að óska þess af einstaklingum úti í bæ að þeir gefi ríkinu eignir sínar og þykir eignaupptaka ríkisins í formi skattheimtu augsýnilega ekki nægjanleg.
Þetta er furðuleg ósk og enn furðulegra að fleirum en einum manni detti í hug að bera hana fram, en þeir eru til sem hafa tekið undir þetta. Hvernig skyldi nú hátta til heima hjá Ólafi Erni og fleirum af þeim góðu mönnum sem hafa óskað eftir því að aðrir afhendi ríkinu listaverk sem þeir eiga, ætli þar séu engin listaverk? Eða getur verið að Ólafur Örn lumi á listaverkum sem gætu haft gildi fyrir fleiri en hann, en hann vilji þó ekki gefa þau ríkinu? Engum af þeim fjölmiðlamönnum sem fjallað hafa um málið virðist hafa dottið í hug að spyrja slíkrar spurningar.
Annað sem ekki hefur verið spurt um er hvers vegna það er svo óskaplega mikilvægt að öll helstu listaverk sem Íslendingar hafa sent frá sér í gegnum tíðina séu í eigu íslenska ríkisins. Er eðlilegt að ríkið sé að sanka að sér listaverkum? Nei, það er ekkert eðlilegt og á því er alls engin nauðsyn. Enn minni nauðsyn er á því að ríkið óski þess að einstaklingar úti í bæ, hvort sem þeir eru Ólafur Örn eða hluthafar í Búnaðarbanka eða Landsbanka, afhendi ríkinu listaverk sín. Jafnvel Ólafur Örn á að fá að hafa listaverk sín í friði fyrir ríkinu. Ríkið á nú þegar um 7.000 innlend og erlend listaverk í Listasafni Íslands og íslenskir listamenn sem safnið á verk eftir eru um 300. Listasafn Reykjavíkur á 3.400 listaverk í sínu safni og þar fyrir utan eiga stofnanir ríkis og sveitarfélaga og önnur sveitarfélög ógrynni listaverka. Tæplega er því ástæða til að hafa áhyggjur af því þó einstaklingar eigi nokkur listaverk líka.
Og af því að þetta „mál“ snýst nú allt um hinn almenna mann og hvað honum komi best, þá geta menn velt því fyrir sér hvort hinn almenni maður sér oftar þau listaverk sem hanga uppi í Listasafni Íslands eða í bankaútibúum Búnaðarbanka og Landsbanka.