Nú er rétti tíminn fyrir lýðskrum. Bæði prófkjör og kosningavetur framundan. Páll Magnússon varaþingmaður Framsóknarflokksins hefur því lagt fram tillögu til þingsályktunar um að lækka eða fella niður virðisaukaskatt á barnafötum og barnaskóm. Telur Páll að þannig megi minnka áhrif „jaðarskatta“ á barnafólk og draga úr „mismunun“ innnan skattkerfisins ef marka má greinargerð með tillögunni.
Það er vissulega nýstárleg leið til að minnka mismunun í skattkerfinu að taka upp mismunandi virðisaukaskatt á skó fyrir 17 og 18 ára. Einnig vekur athygli að varaþingmaðurinn sem jafnframt er aðstoðarmaður viðskiptaráðherra skuli leggja fram tillögu um að mismuna framleiðendum, innflytjendum og kaupmönnum með skattheimtu eftir því hversu stórar spjarir og skó þeir sýsla með.
Sem kunnugt er hefur Alþingi nýverið hækkað sjálfræðisaldur ungmenna í 18 ár og teljast menn nú börn fram að þeim aldri. Verður fróðlegt að sjá hvernig eftirliti með því að 18 ára noti ekki skattfrjálsa skó sem ætlaðir eru 17 ára verður háttað. Og ekki síður við hvaða skónúmer verður miðað þegar kemur að skattheimtunni. Ef ASÍ kemst með puttana í málið verður líklega um stighækkandi skatt að ræða, enginn skattur á númer upp í 34, svo 14% upp í 39, 25% á 40 – 45 og svo sérstakur tekjuskattur á stórfætta. Svo er spurning hvort það verður sama skónúmeraviðmið fyrir stúlkur og drengi. Ef jafnréttisráð kemst í málið munu stúlkur fá innlegg til að geta verið í jafnstórum skóm og drengir og svo mun karlanefnd jafnréttisráðs halda ráðstefnu um það hvort drengir séu afskiptir í þessu máli og hafi hnút í maganum gagnvart stúlkum.
Minnir þessi tillaga um að draga úr mismunun í skattkerfinu með því að hafa mismundandi skatta á fólk eftir aldri á það þegar Alþingi jafnaði rétt manna til fæðingarorlofs með því að láta hátekjufólk hafa hæstu félagslegu bætur í heimi en láglaunamenn, námsmenn og heimavinnandi fá minna en áður.
Svo er það þetta með jaðaráhrif tekjuskattkerfisins sem varaþingmaðurinn vill berjast gegn. Í raun er furðulegt að blanda þeim inn í umræðuna um virðisaukaskatt og næst að halda að varaþingmaðurinn misskilji það hugtak gjörsamlega. Jaðaráhrif koma fram þegar viðbótartekjur manna gufa upp vegna tekjuskatts og lækkandi bóta. Ef tillaga Páls nær fram að ganga munu jaðaráhrif skattkerfisins hins vegar einnig koma fram með viðbótaraldri Og ef menn taka of mikið lýsi og vaxa upp úr fötunum í Smash fyrir 18 ára aldur og labba sér yfir í Hanz í þá mun skatturinn einnig hækka.