Föstudagur 25. október 2002

298. tbl. 6. árg.

Þeir eru margir sem ekki vita annað íslenskt skáld betra en Jónas Hallgrímsson. Sennilega yrði erfitt að finna þann Íslending, kominn af barnsaldri, sem ekki þekkti nokkurt kvæði eftir þetta skáld. Ljóðelskir eða ekki, þá munu flestir sjálfsagt einhvern tíma hafa spurt hvað sé svo gott sem góðra vina fundur eða hvort þeir hafi gengið til góðs, götuna fram eftir veg. Þó meira en hálf önnur öld sé liðin frá andláti Jónasar eru afar margir Íslendingar sem hugsa til hans með þakklæti og finnst sem nú muni vandhæfi slíkan að finna. Hversu margir myndu ekki vilja sýna minningu skáldsins sóma ef viðeigandi færi gæfist. Og nú gefst mönnum einmitt færi á því.

Benedikt Guðmundsson nokkur, sem gegnir því merka starfi að vera forstöðumaður þróunarsviðs Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, ritaði á dögunum grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði að fæðingarjörð Jónasar væri nú föl og að núverandi eigendur vildu selja hana „aðilum sem mundu halda minningu þjóðskáldsins á lofti“. Nú er semsagt tilvalið fyrir aðdáendur skáldsins að bindast samtökum, kaupa jörðina og gera þar minningu Jónasar hátt undir höfði. Væri það mjög maklegt og gætu bæði skáldið og unnendur ljóða hans haft talsverðan sóma af slíku framtaki. Einhverra hluta vegna hafði Benedikt Guðmundsson aðeins aðrar hugmyndir þó ekki sé ástæða til að draga sérstaklega í efa að honum sé minning Jónasar hugleikin. Hann lagði nefnilega mikla áherslu á að tiltekinn aðili tæki að sér að kaupa jörð þessa. „Fyrir liggja hugmyndir um framtíðarnot jarðarinnar ef ríkisvaldið fæst til að kaupa hana“ segir Benedikt og svo kemur mikil upptalning á því sem þarna mætti gera. En þetta virðist allt bundið því skilyrði að þessi tiltekni ljóðaunnandi, íslenska ríkið, fáist til að kaupa jörðina.

Af hverju dettur engum í hug að safna nú fé meðal almennra borgara, mynda félagsskap þeirra sem unna ljóðum Jónasar og sjá hvort ekki safnast nægt fé til jarðakaupanna? Væri það skáldinu ekki meiri sómi ef fæðingarjörð hans væri keypt með samskotum þeirra sem hann hefur hrifið með ljóðum sínum en ekki eingöngu eftir ákvörðun ríkisins, fjármagnaðri með nauðungargjöldum af almennum borgurum? Og ef ekki myndi safnast nægilegt fé, væri þá ekki þar með séð hversu mikið borgararnir eru í raun fúsir til að leggja í þetta verkefni? Væri þá eðlilegt að taka með valdi af þeim sem upp á vantar?

Sama má segja um þá baráttu sem undanfarin ár hefur verið rekin fyrir byggingu risatónlistarhallar á ríkiskostnað. Frjáls félagasamtök, Samtök um byggingu tónlistarhúss, hafa árum saman efnt til samskota meðal borgaranna til að byggja höll þessa. Árangurinn af þeirri söfnun myndi varla nægja til að grafa grunninn hvað þá meira en þá vill þetta lið einfaldlega að ríkið beiti valdi sínu til að heimta nægilegt fé af skattborgurunum til að byggja höllina á þeirra kostnað, hvað sem hún kostar. Í orðanna fyllstu merkingu.