ÁAlþingi voru í gær lögð fram um 50 mál af ýmsu tagi. Flest málin eru óþörf og bera vott um að til þings eru kosnir allt of virkir þingmenn sem hafa allt of lítilfjörleg áhugamál utan vinnunnar. Þuríður Bachman, þingmaður annars fyrirspurnarflokksins, lagði til að mynda spurningu fyrir heilbrigðisráðherra um tannheilsu barna og unglinga og langaði meðal annars að vita hvort fylgst væri með tannheilsu barna og hvort tannheilsan væri skráð og skjalfest. Þá vildi hún ólm fá upplýsingar um tannheilsu barna hér í samanburði við tannheilsu barna á öðrum löndum Norðurlöndum og um það hversu hátt hlutfall barna, 18 ára og yngri, hefði ekki farið til tannlæknis undanfarna 18 mánuði. Þá þurfti upplýsingar um fjárframlag til skólatannlækninga í Reykjavík, hvort hækka eigi framlag í tannverndarsjóð og hvort hækka eigi gjaldskrár fyrir tannlækningar. Þessar ótrúlegu spurningar þingmannsins til ráðherrans sýna að annaðhvort gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir að því fylgir kostnaður að svara öllu því sem kemur upp í kollinn á honum, eða að honum er algerlega sama þó í ráðuneytum sitji menn alla daga og geri úttektir á öllum sköpuðum hlutum og svari spurningum þar um á kostnað skattgreiðenda.
Þessar spurningar voru þó ekki endilega þær óþörfustu sem lagðar voru fram á Alþingi í gær, enda atvinnumenn að keppa. Einn þeirra er Hjálmar Vetnissamfélag Árnason, en hann lét sig hafa það að beina fyrirspurn til flokkssystur sinnar viðskiptaráðherra um þróun vaxta banka og sparisjóða. Líklega ætlar Hjálmar V. Árnason að skora stig hjá einhverjum stuðningshópi sínum með þessari spurningu, en hefði hann aðeins áhuga á að fá þær upplýsingar sem hann bað um hefði hann eins getað sparað skattgreiðendum tíma starfsmanna viðskiptaráðuneytisins og aflað sér upplýsinganna sjálfur, enda vextir ekkert leyndarmál. Eða skyldu Hjálmar og aðrir sérfræðingar á Alþingi vera þeirrar skoðunar að með því að sitja þar hafi þeir fengið aðgang að öllum embættismönnum ríkisins til að svara öllu því sem þeim kann að detta í hug en nenna ekki sjálfir að fletta upp? Verður næsta spurning Hjálmars um hvar hann geti fengið jakkaföt á hagstæðu verði, eða hvort hann er vetur, sumar, vor eða haust?
Lúðvík Bergvin Bergvinsson og aðrir ámóta þingmenn reyndu í gær að slá sig til riddara og spilla um leið skattkerfinu með því að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Frumvarpið felur í stuttu máli í sér að vinnuveitendur geti fengið frádrátt fyrir að styrkja starfsmenn til íþrótta og er eitt af þessum frumvörpum sem á að auka heilsu landsmanna. Hvað er betra en það að vinnuveitendur geti dregið frá sköttum styrk til starfsmannanna svo þeir geti farið í hádeginu og slitið liðböndin í innanhússfótbolta? Ef Lúðvík Bergvin hefur áhuga á að gera mönnum auðveldara að stunda íþróttir eða bæta heilsu sína með öðrum hætti, hvers vegna leggur hann þá ekki til að almennir skattar verði lækkaðir svo menn hafi efni á að eiga frístundagaman, í stað þess að gata skattkerfið í þágu sérhagsmunahóps og draga um leið úr líkum á því að skattar verði lækkaðir? Ætli það geti nokkuð verið vegna þess að maðurinn vill kaupa sér vinsældir?