Miðvikudagur 16. október 2002

289. tbl. 6. árg.

Ífyrradag var tilkynnt að Ísland hefði gengið að nýju í Alþjóða hvalveiðiráðið og hafa margir fagnað því þar sem þá aukist líkur á að hvalur verði að nýju veiddur hér við land. Hér á landi hafa menn undanfarin ár bölvað mjög hvalveiðiráði þessu og talið ofríkismenn og friðunarsinna ráða þar ferðinni. Kenna margir ráðinu um að hvalveiðar hafa ekki verið stundaðar hér um margra ára skeið, þrátt fyrir talsverða samstöðu landsmanna og þingmanna sem flestir hafi viljað hefja veiðar sem fyrst. Í hugum margra hefur hvalskutullinn orðið að nokkurs konar sjálfstæðistákni; fáum við ekki sjálfir að ráða því hvort hvalir við Ísland séu veiddir eða ekki þá séum við varla sjálfstæðir lengur.

Já það er að vissu leyti rétt, sjálfstæðar þjóðir stjórna eigin náttúruauðlindum. En þegar menn bölva hvalveiðiráðinu þá er eins og þeir gleymi því að Íslendingar áttu þess kost að mótmæla hvalveiðibanninu á sínum tíma en Alþingi samþykkti að gera það ekki. Sú ákvörðun, nærri tuttugu ára gömul, hefur þvælst fyrir mönnum síðan og mætti verða síðari tíma stjórnmálamönnum áminning um að fara sér hægt í eftirgjöf til erlendra ríkja, ríkjasambanda eða alþjóðastofnana. Fyrir tuttugu árum beittu friðunarsinnar mjög þeim rökum að ef Ísland mótmælti hvalveiðibanninu þá myndi það „einangrast“. Ísland yrði að „vera með í samfélagi þjóðanna“. Það yrði að fylgjast með „kalli tímans“. Og þessi rök dugðu enda oft nægilega margir sem óttast mjög að vera strítt ef þeir eru ekki nægilega nútímalegir og í takti við „þróunina erlendis“. Og þessi skammsýna ákvörðun hefur valdið vandræðum hér í tuttugu ár.

Alþingi hefði vel getað mótmælt veiðibanninu en ákveðið jafnframt að setja lög sem bönnuðu hvalveiðar, svona ef menn hefðu viljað hlífa hvalastofninum um skeið. Og þá hefði Alþingi hvenær sem er getað leyft veiðarnar aftur ef því hefði þótt aðstæður hafa breyst. Þá hefðu erlendar þjóðir ekkert getað sagt. En þetta hefði náttúrlega ekki verið nógu „nútímaleg“ afstaða. Og alls ekki í samræmi við kall tímans. Sama gildir um margt annað. Íslendingar gætu hæglega sett lög og afnumið ýmsa þá tolla sem þeir leggja á innfluttar vörur og aðild að til dæmis Evrópusambandinu er fjarri því að vera nokkur forsenda fyrir tollalækkunum. Alþingi getur sett lög um útblástur lofttegunda og hefði alls ekki þurft – og átti alls ekki – að staðfesta svokallaða Kyoto-bókun á dögunum. Alþingi Íslendinga gæti ákveðið að leiða erlend lög jafnóðum í lög hér á Íslandi, svona ef Alþingi vildi það við hafa, og þyrfti ekki að gangast undir nokkrar skuldbindingar gagnvart erlendum ríkjum um að gera það. Og þannig mætti áfram telja. Í ótrúlega mörgum tilvikum er óþarfi að gangast undir nokkra erlenda skuldbindingu heldur er hægt að ná sama árangri með einhliða lögum hér heima. En slík lög hefðu þann kost að Íslendingar yrðu sjálfráða um að endurskoða þau en þyrftu ekki að semja um það við erlenda skriffinna sem sjaldan hafa nokkurn áhuga – að ekki sé beðið um þekkingu – á íslenskum aðstæðum.

Annað mál svo auðvitað það stjórnskipulega atriði að vitaskuld er Alþingi á hverjum tíma heimilt að setja þau lög sem því sýnist og yngri lög ganga framar eldri lögum og öllum alþjóðasamningum ef þannig ber undir. En slík lög – þó þau séu að sjálfsögðu stjórnskipulega í fullu gildi hvað sem hver segir – gætu kallað á gagnráðstafanir erlendra ríkja. Þess vegna eiga stjórnvöld að forðast sem mest þau mega að gangast undir vald erlendra ríkja, stofnana eða „dómstóla“.