Helgarsprokið 13. október 2002

286. tbl. 6. árg.
Víða er komið að þeim mörkum að ekki verður meiri fjármunum bætt í heilbrigðisþjónustuna og í sumum tilfellum er hún jafnvel farin að gera meiri skaða en gagn sem er alvarlegur hlutur. Skaðsemin er fólgin í því að valda óþarfa áhyggjum og ónauðsynlegum inngripum. Ef stöðugt er verið með áróður eða upplýsingar um að hætta sé á hinu og þessu þá missir fólk smám saman trúna á sjálft sig. Heilbrigt fólk í auknum mæli, finnur sig þannig knúið til að leita til læknis til þess að ganga úr skugga um að það sé ekki haldið tilteknum sjúkdómi. Veruleikinn er þversagnakenndur, hvað heilbrigðismál varðar. Heilbrigðiskerfið þenst út og fólk leitar meira til læknis en áður en miðað við alla þessa fjármögnun og heimsóknir til lækna líður okkur ekkert betur. Mikil aukning hefur orðið á lyfjaneyslu en þrátt fyrir það hafa fjarvistir frá vinnu vegna veikinda aukist.
Jóhann Ágúst Sigurðsson prófessor í heimilislækningum við Háskóla Íslands í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins

Þeir eru til sem halda því statt og stöðugt fram að íslenska heilbrigðiskerfið búi við svokallað „fjársvelti“. Þó opinber útgjöld til heilbrigðismála aukist ár frá ári þá komast sumir upp með að fullyrða að harðbrjósta stjórnvöld sitji og skeri og skeri niður þessi sívaxandi framlög. Eru þessar staðhæfingar notaðar til að telja fólki trú um að við völd sitji kaldlyndir harðlínu frjálshyggjumenn með saltfisk í hjarta stað, enda er því gjarnan bætt við að af þessum „sífellda niðurskurði“ megi glöggt sjá innræti hins illa Sjálfstæðisflokks – sem þó hefur ekki farið með heilbrigðisráðuneytið í hálfan annan áratug. Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar ýta sumir hverjir undir þessa trú með því að standa árlega fyrir gagnslitlum en sláandi „sparnaðaraðgerðum“ sem ætlaðar eru til þess að telja fólki trú um að svo sé nú kreppt að heilbrigðiskerfinu að stutt sé í að fólk deyi drottni sínum á göngum og kjöllurum án þess að nokkur komi því til hjálpar.

„Þetta mega vinstri menn ekki heyra nefnt, hvorki þeir sem kalla sig stundum „nútímalega jafnaðarmenn“ né þeir sem ekki reyna einu sinni að þykjast vera nútímalegir.“

Þannig tilkynntu starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar nýlega að innan nokkurra daga myndu þeir vísa heilabiluðu og bjargarlausu fólki á dyr vegna þess að þeir hefðu bara ekki efni á að sinna því. Og auðvitað varð uppi fótur og fit, Samfylkingin ærðist og þingflokkur Vinstri grænna vígbjóst í fljótheitum. Auðvitað var heilabilaða fólkinu svo ekki vísað á dyr en tilgangurinn náðist: fólk fékk þau skilaboð að svo mikið hefði þegar verið skorið niður að örþrifaráð væru næst á dagskrá. Á sama tíma fyrir ári þá sögðust spítalastjórnendur þurfa að taka fyrir glasafrjóvganir. Þá varð uppi fótur og fit, Samfylkingin ærðist og þingflokkur Vinstri grænna vígbjóst í fljótheitum. Eftir nokkurra daga taugaæsing og stóryrði þá „var fundin lausn“ og glasafrjóvganir gengu sinn vanagang. En tilgangurinn náðist, fólk fékk hin venjulegu barlómsskilaboð. Og upphæðin sem spítalarnir, sem velta milljörðum króna á hverju ári, hefðu sparað við það að hætta glasafrjóvgunum, hver ætli hún hefði verið? Hún hefði nú verið fimm milljónir króna og þurfa menn þá varla að velta fyrir sér hvort þessi ákvörðun spítalanna hafi verið tekin í fullri alvöru eða verið hugsuð sem venjuleg leiksýning.

En útgjöld skattgreiðenda til heilbrigðismála fara sívaxandi. Fólk heimtar sífellt meiri tækni, meiri rannsóknir, meira eftirlit, betri aðstöðu og svo framvegis og svo framvegis. Og ef sívaxandi útgjöld nægja ekki fyrir sívaxandi eyðslu spítalanna þá koma menn og æpa fjársvelti fjársvelti. En þeir sem þetta hrópa, þeir mega ekki heyra minnst á nokkrar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Þeirra svar er eitt: bara stórauka fjárframlögin ár eftir ár. Það má alls ekki skoða aðrar leiðir en þær sem nú eru farnar. Einkaaðilar, sem þó virðast geta rekið alls kyns starfsemi með sæmilegum árangri og yfirleitt betri árangri en opinberir starfsmenn, þeir mega alls ekki spreyta sig í heilbrigðiskerfinu. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að það fólk sem svo talar, það mun hvorki dautt né lifandi samþykkja nokkra einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. En það mun ekki heldur fást til að reyna einkarekstur eða einkaframkvæmd af nokkru tagi í þessum málum.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem út kom í gær, eru þessi mál rædd við Ástu Möller, alþingismann Sjálfstæðisflokksins, sem talsvert hefur beitt sér í heilbrigðismálum sem kannski er ekki undarlegt ef horft er til þess að hún var lengi formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í viðtalinu útskýrir Ásta að mikill munur sé á einkavæðingu, sem þýði að rekstur og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, færðist frá ríki til einkaaðila og að fólk þyrfti sjálf að standa straum af þeirri heilbrigðisþjónustu sem það nyti, og einkarekstri, sem þýði að ríkið semji við einkaaðila um að þeir reki einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar en kostnaðurinn verði eftir sem áður greiddur úr ríkissjóði og engar sérstakar breytingar verði á skipulagi almannatrygginga. Þá sé til svo kölluð einkaframkvæmd, og felist í henni að ríkið semji við einkaaðila um að hann vinni ákveðið verk og veiti ákveðna þjónustu og nefnir Ásta hjúkrunarheimilið Sóltún sem dæmi um þetta.

Ásta Möller segir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji auka einkarekstur og einkaframkvæmd í heilbrigðiskerfinu en hafni einkavæðingu. Hún segir að fjárskortur sé ekki helsti vandi heilbrigðisþjónustunnar heldur sé vandinn fólginn í röngum áherslum og úreltu skipulagi: „Nágrannaþjóðir okkar hafa staðið frammi fyrir sams konar vandamálum og leyst þau með því að færa rekstur heilbrigðisstofnana til einkaaðila eða félagasamtaka en ríkið borgar eigi að síður. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, kostnaðurinn hefur hlutfallslega minnkað, starfsánægjan vaxið og gæði þjónustunnar og afköst hafa aukist. Aðgengi hefur og batnað og biðlistar styst. Með þessu móti hefur ríkið reynst hafa meiri stjórn á útgjöldum vegna þess að þá er gerð kostnaðargreining og það hefur verið samið um magn, verð og gæði þjónustunnar en hefur eigi að síður eftirlit með hvernig allt gengur.“

Þetta mega vinstri menn ekki heyra nefnt, hvorki þeir sem kalla sig stundum „nútímalega jafnaðarmenn“ né þeir sem ekki reyna einu sinni að þykjast vera nútímalegir. Vinstri menn, þrátt fyrir stöku fagurgala um annað, eru enn með hugann á sama stað og þeir hafa geymt hann undanfarna áratugi. Skammt er að minnast leiksýningarinnar sem sett var á fjalir Áslandsskóla í Hafnarfirði á dögunum í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að gerð yrði tilraun með nýbreytni í skólastarfi þar og þannig mætti áfram telja. Vinstri menn tala einfaldlega um fjársvelti og fjársvelti; allar breytingartillögur kalla þeir einkavæðingu alveg óháð því hversu mikinn hlut ríkið á að koma að málum samkvæmt þeim tillögum sem ræddar eru.

Fyrir nokkru fjallaði  Vefþjóðviljinn um grein eftir þekktan og viðurkenndan breskan lækni, Michael Gross að nafni, sem fjallaði um ástandið á breskum sjúkrahúsum. Lýsing hans var ófögur en læknirinn taldi sjúklinga þurfa að bíða óratíma eftir aðstoð og hvorki nýjustu lyf né tæki væru á boðstólum. Skýringin á þessu ástandi væri hins vegar ekki fjárskortur heldur ofboðslegt skrifræði. Og lausnin væri ekki meira fé heldur einfaldara kerfi. Annar læknir, prófessor Jóhann Ágúst Sigurðsson, var í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sama blaðinu og talaði við Ástu Möller, og hann sagði einnig ýmislegt athyglisvert. Meðal þess sem Jóhann Ágúst sagði var að gríðarmikið væri framkvæmt af þarflausum en kostnaðarsömum rannsóknum og væri fullfrískt fólk sífellt að gangast undir tilgangslitlar rannsóknir í misskildu forvarnarskyni. Nefndi læknirinn til dæmis kembileit á brjóstakrabbameini sem hann sagði lítið gagn gera hjá konum undir fimmtugu, og skimum á ristilkrabbameini sem væri til lítils gagns en hefði meira að segja allnokkra hættu í för með sér fyrir þann sem gengst undir hana.

Kann ekki að vera að allar ferðirnar í kostnaðarsamar en óþarfar læknisrannsóknir skýrist að einhverju leyti af því að fólk ber iðulega mjög takmarkaðan kostnað af þeim rannsóknum sem það gengst undir? Ef menn greiddu stærri hluta kostnaðarins úr eigin vasa þá myndu þeir sennilega grafast betur fyrir um þann ávinning sem þeir hefðu af rannsókninni. Þannig mætti áfram telja. Fjáraustur hins opinbera til heilbrigðismála er gríðarlegur og skerðir önnur lífskjör borgaranna verulega. Þó heilsan sé öllum mönnum dýrmæt þá verður að umgangast heilbrigðiskerfið af viti. Það hlýtur að mega ræða aðrar leiðir en þær sem nú eru farnar og þegar menn leggja til að skoðaðar verði þær leiðir sem ekki ganga lengra en þær sem Ásta Möller ræðir í Morgunblaðinu í dag þá er furðuleg forherðing fólgin í því að vera bara ekki til viðtals.