Í helgarblaði DV eru birt tvö athyglisverð viðtöl við tvo eftirtektarverða vinstri menn. Annar er nægilega sáttur við sig til að telja sig vera í sögulegum leiðangri til að koma vinstri mönnum til valda. Hinn upphefur sig engu minna, segist ekki skríða fyrir valdi og að hann hafi alla tíð lent í þeirri aðstöðu að „þurfa að orða óþægilega hluti“. Hann hafi jafnvel í skóla orðið að „taka á kennurum fyrir hönd nemenda“. Já, það eru engar venjulegar alþýðuhetjur í viðtölum við DV að þessu sinni, jafnvel kennarar þeirra hafa orðið að lúta í lægra haldi þegar brandinum hefur verið brugðið á loft í baráttunni fyrir réttlæti og gegn ranglæti heimsins.
„Svo það fari ekki framhjá lesendum er rétt að undirstrika að í messu Arnar Bárðar eru að áliti prestsins meðal gesta þeir sem bera ábyrgð á fátækt annarra!“ |
Fyrri hetjan – og sú er mun meiri hetja ef marka má viðtölin – er engin önnur en Örn Bárður Jónsson, trúboði í Neskirkju. Trúboðið sem Örn Bárður kýs að stunda tengist kirkjunni þó ekkert nema að því leyti að það er að verulegu leyti stundað úr ræðustóli Neskirkju. Trúboðið er mun jarðbundnara og tengist Karli Marx og fleiri ámóta gæfulegum kennimönnum. Örn Bárður er nefnilega ekki á því að presturinn geti haldið sig við kenningar kristninnar og rætt trúmál við sóknarbörn sín, hann telur prestinn verða að taka þátt í pólitískri umræðu. Presturinn er, ef marka má Örn Bárð, til þess ráðinn að lesa sóknarbörnum pólitískan pistil í messu á sunnudögum. Sumir eru þó annarrar skoðunar, enda segir Örn Bárður frá því sjálfur að það komi fyrir að fólk yfirgefi kirkjuna í guðsþjónustu, en hann reiknar með að það sé af öðrum ástæðum en ósætti við þann sem les þeim pistilinn. Þeir sem farið hafa í messu kannast sennilega fæstir við að hafa orðið vitni að því að fólk hrökklist úr messunni vegna yfirgengilegs pólitísks áróðurs prestsins. Aðrir prestar myndu líklega ekki bara „reikna með“ að fólk hafi skyndilega munað eftir að það átti pantaðan ljósatíma eða hafi átt ámóta brýnt erindi út úr kirkjunni. Aðrir prestar drægju líklega aðra ályktun, en að vísu er fæstum öðrum prestum jafn mikið í mun að boða sama fagnaðarerindi og Örn Bárður vill boða. Flestir þeirra vilja halda sóknarbörnunum í kirkjunni til að geta rætt við þau það sem snertir trúna.
Í nýlegri predikun fjallaði Örn Bárður um eftirlitsstofnanir viðskiptalífsins og honum er mjög umhugað um að eftirlit með viðskiptalífinu verði aukið og telur sérlega mikilvægt að þessar stofnanir tryggi að menn verði ekki of efnaðir. Dauðlegum mönnum er vandséð í fljótu bragði hvaða erindi þetta á inn í messu í Neskirkjusókn, en það skýrist síðar í viðtalinu, þar sem fram kemur að í messu hjá Erni Bárði sitja bæði „þeir sem þekkja fátækt á eigin skinni og hinir sem segja má að beri með einhverjum hætti ábyrgð á henni“. Svo það fari ekki framhjá lesendum er rétt að undirstrika að í messu Arnar Bárðar eru að áliti prestsins meðal gesta þeir sem bera ábyrgð á fátækt annarra! Örn Bárður virðist trúa því að efnaðir menn beri ábyrgð á því að sumir eru fátækir og af viðtalinu má einnig ráða hvers vegna Örn Bárður er haldinn þessari firru. Hann virðist nefnilega álíta að auðæfi heimsins séu föst stærð og að þjóðfélaginu hafi ekki tekist að finna „hentuga leið til að skipta auðæfunum og lífsins gæðum“. Örn Bárður talar ekkert um að skapa auðæfi og lífsins gæði, en staðreyndin er vitaskuld sú að það er það sem mannkynið hefur alla tíð barist við, að skapa auð. Það kerfi sem Erni Bárði er svo mjög í nöp við, markaðsskipulagið eða kapítalisminn, er einmitt það kerfi sem hefur staðið sig langbest í að skapa auð og innan þeirra þjóðfélaga sem búa við það kerfi hafa það allir betra en í þeim ríkjum sem búa við annars konar kerfi. Fátækt er minni en annars staðar og ríkidæmi líka.
Erni Bárði er ef til vill alveg sama um þetta, því ef til vill stjórnast hann ekki að rökvísinni einni saman. Hann segir frá því að ef hann fái á tilfinninguna að hann standi við hliðina á manni sem hafi fengið eitthvað á silfurfati, án fyrirhafnar, geti hann orðið „ofsareiður“. Þessi fallegu orð – og viðtalið allt – eru ánægjuleg lesning fyrir sóknarbörn Arnar Bárðar. Nema að vísu ef þau hafa nýlega erft umtalsverða fjármuni, ja þá er vissara að sóknarpresturinn fái ekki veður af því.
En þá er það hin hetjan úr Helgar-DV, og hún er engin önnur en formaður Samfylkingarinnar, sjálfur Össur Skarphéðinsson. Össur er lítillátur, ljúfur og kátur eins og hans er von og vísa. Hann er að eigin sögn einstakur fyrir það að hafa boðið öðrum stjórnmálamanni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, upp að hliðinni á sér, en hann hugsi nefnilega bara um flokkinn en ekkert um sjálfan sig. Ástæðan fyrir því að hann nauðaði í Ingibjörgu Sólrúnu að svíkja loforð sín og bjóða sig fram til þings var sem sagt ekki sú staðreynd að staða hans sem formanns er veik og að án einhverrar hækju eigi hann í vök að verjast. Nei, þetta var allt eintóm fórnfýsi og flokkshollusta.
Össuri finnst gaman núna að vera formaður Samfylkingarinnar, en það fannst honum ekki fyrst í stað. Hann ætlar sér að leiða flokkinn inn í ríkisstjórn, en viðurkennir þó að flokkurinn er ekki almennilega orðinn að einni heild og að það geti tekið heilt kjörtímabil til viðbótar. Miðað við það má reikna með að ekki verði sérlega þægilegt að vinna með flokknum framan af næsta kjörtímabili, svona á meðan verið er að koma honum saman, en Össur ætlar engu að síður inn í ríkisstjórn. En Össur ætlar að gera fleira. Hann ætlar að ná fram endurnýjun í þingflokknum og hann vill fá inn ungt fólk og fólk úr atvinnulífinu. Þetta segir hann að verði gert, svo menn skulu ekki taka prófkjör Samfylkingarinnar of hátíðlega frekar en fyrri daginn. Niðurstöðu þeirra verður breytt eftir hentugleikum formanns. Í öðrum stjórnmálaflokki, þar sem formaður ræður greinilega ekki eins miklu og Össur í sínum flokki, þætti vinstri sinnuðum gestum spjallþátta að slíkt tal bæri vott um einræðistilburði. Hvað ætli þeim sérfræðingum þyki þegar Össur talar með þessum hætti?
Í viðtalinu lýsir Össur stefnu flokks síns og blaðamanni sýnist greinilega – og er ekki að undra miðað við lýsingu formannsins – að Össur sé búinn að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokksins. Össur neitar þessu ekki og segir að Ísland sé mjög gott land og að ekkert meiri háttar sé að hér og hafi ekki verið um langt skeið. „Það má hins vegar alltaf gera gott land betra,“ segir Össur og vill greinilega komast í að fínpússa eftir næstu kosningar. Hann telur að valdið hafi spillt þeim mönnum sem sitja nú að völdum og aðeins þess vegna sé ástæða til að skipta þeim út. Nú á Samfylkingin að taka við og framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins, bara án spillingarinnar sem nú grasserar hér á landi að mati Össurar. Hann getur að vísu ekki nefnt nein nothæf dæmi um spillingu hér á landi og blaðamaður innir hann ekki heldur álits á því hvers vegna Ísland hafi fengið bestu einkunn í nýlegri alþjóðlegri rannsókn á spillingu ríkja. En það er greinilegt hvernig barátta þessa fyrrum róttæklings og núverandi formannsígildis í flokksígildinu Samfylkingunni verður fyrir næstu þingkosningar. Þar verður barist fyrir óbreyttu ástandi, því hér sé allt mjög gott, en Samfylkingin vilji komast í ríkisstjórn af því að annars verði ekki hægt að taka á „spillingunni“. Þá verður Guðmundur Árni Stefánsson væntanlega gerður aftur að heilbrigðisráðherra og hver veit nema hann geti þá sagt af sér aftur til að draga úr spillingu í íslenskum stjórnmálum.