Ríkisútvarpið hefur látið gera skoðanakönnun sem leiðir í ljós að stofnunin er frábær, traust, skemmtileg og mannbætandi á allan hátt. Í einu orði sagt ómissandi. Að vísu kom einnig fram að því meira sem menn
horfa og hlusta á rásir Ríkisútvarpsins því minni ánægja er með þær, en það er aukaatriði. Þeir sem minna þekkja dagskrána eru mjög sáttir. Í sömu könnun voru aðspurðir einnig inntir eftir því hvaða fyrirkomulag á greiðslu afnotagjalda þeim þætti heppilegast. Þetta var þó óþörf spurning því svo ómissandi fjölmiðill þarf væntanlega ekki að hafa áhyggjur af litlum auglýsingatekjum eða áskrifendaþurrð þannig að hin svokölluðu afnotagjöld eða annars konar skattar eða skyldugreiðslur eru óþörf samkvæmt könnuninni.
Það blasir því við að svonefnd afnotagjöld hljóta að verða innheimt með sama hætti og ýmsar aðrar stöðvar gera, jafnvel þær stöðvar sem ekki eru jafn dásamlegar og stöðvar ríkisins. Þetta er einfalt og þægilegt fyrirkomulag og nefnist áskrift. Í könnuninni var einnig spurt um hvaða form á rekstri RÚV menn telji heppilegast. Þetta var einnig óþörf spurning því eins og lýðhylli RÚV ber með sér er ljóst að stöðin mun starfa áfram algjörlega óbreytt ef hún verður einkavædd. Það er nefnilaga engin ástæða fyrir ríkið til að reka vinsæla stöð, það vilja allir reka vinsæla stöð og rökin fyrir ríkisrekstri útvarps- eða sjónvarpsstöðvar hljóta að vera þau að stöðvarnar séu of óvinsælar til að geta borið sig. Þar sem nú er komið í ljós með afdráttarlausum hætti að RÚV er ofboðslega vinsælt, hvers vegna skyldi ríkissjóður þá ekki ná í nokkrar krónur í kassann með því að selja stofnunina?