Bilaðir menn sem óbilaðir vitna í hana hvenær sem önnur rök duga ekki. Henni er jafnan veifað þegar einhver vill sanna að löggjafinn hafi gengið of langt eða þá alls ekki nógu langt. Stjórnmálamenn eru farnir að krukka í henni á næstum hverju einasta kjörtímabili. Dómarar freistast nú orðið til að líta svo á að með henni hafi þeim verið veitt almenn heimild til að stjórna landinu, án þess að fara nokkru sinni í framboð. Daglega eru furðulegustu kröfur bornar fyrir dómstóla með torskiljanlegri vísan til hennar. Meira að segja hötuðustu öfl í heimi, erlend tóbaksfyrirtæki, telja sig eiga í henni bandamann. Já, rétt eins og matarkexið frá Fróni kemur „stjórnarskrá lýðveldisins Íslands“ við sögu á hverjum degi. Og í þessu blaði hefur stundum verið vitnað til hennar með þeim orðum að nú hafi eitthvert asnastrik löggjafans gengið framar en heimilt sé.
„Einkaaðilar mega nefnilega mismuna hver öðrum og þurfa almennt ekki að rökstyðja fyrir öðrum persónulegt val sitt milli manna. Maður þarf ekki að útskýra það fyrir konu hvers vegna hann vill ekki kvænast henni þó hann gangi með grasið í skónum á eftir öllum vinkonum hennar.“ |
Þó Vefþjóðviljinn byggi sjaldan röksemdir sinnar á stjórnarskrá þessari þá hefur blaðið sem sagt af og til haldið því fram að ákveðin ákvæði nýrra laga – eða jafnvel lögreglusamþykktar – gangi gegn ákvæðum skrárinnar og ættu því, samkvæmt hefðbundnum lögskýringarreglum, að víkja fyrir henni. Hér er einkum að geta umfjöllunar blaðsins um tóbaksvarnarlög en Vefþjóðviljinn hefur haldið því fram að þær skorður sem lögin setja við ráðstöfunarrétti fasteignareigenda gangi lengra en svo að samrýmst geti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þá hefur blaðið eins og svo margir aðrir haldið því fram að bann laganna við jákvæðri eða hlutlausri umfjöllun um tóbak fái tæplega staðist tjáningarfrelsisákvæði skrárinnar. Í þriðja lagi hefur Vefþjóðviljinn nýlega haldið því fram að í ljósi atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar sé með öllu útilokað að svo kallaður einkadans, sem fjöldi fólks hefur haft lífsviðurværi sitt af, verði bannaður með lögreglusamþykkt. Er nú svo komið að senn mun tekist á um að minnsta kosti tvö þessara atriða fyrir dómstólum landsins.
En þó sum tiltæki löggjafans séu vafasöm í ljósi stjórnarskrárinnar þá er ekki þar með sagt að þeir hafi almennt rétt fyrir sér, allir þessir fuglar sem daginn út og inn æpa að nú hafi stjórnarskráin enn einu sinni verið brotin. Sönnu nær er að í flestum þeim tilvikum sé engin ástæða fyrir öllum þessum upphrópunum. Að ýmsu leyti geta þingmenn hins vegar sjálfum sér um kennt því þeir álpuðust til þess fyrir rúmlega hálfum áratug að setja saman ný mannréttindaákvæði í stjórnarskrána og með því varð fjandinn laus. Ákveðnir lögmenn og meira að segja einstakir dómarar misstu fótanna við þær breytingar og hafa síðan haldið – eða að minnsta kosti látið eins og þeir haldi – að með breytingunum hafi verið settur gersamlega nýr réttur á Íslandi. Í raun stóð þó ekki annað til en að færa í letur þann óskráða rétt sem menn töldu vera í gildi. Það var ekki hugsun „stjórnarskrárgjafans“ að fara að búa til ný réttindi. En þingmenn gátu ekki setið á sér og misstu stjórn á sér í málæði og sitja í súpunni.
Sennilega er fátt í stjórnarskránni misskilið eða misnotað meira en jafnræðisregla hennar. Hljómar hún óstytt svo: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Þessa grein leika margir sér að því að skilja sem svo að allir menn skuli vera jafnir. Að óheimilt sé að mismuna mönnum. Þeir sem skilja ákvæðið svo virðast hlaupa yfir tvö mikilvæg orð hennar. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Jafnræðisreglan segir að löggjafinn megi ekki mismuna mönnum en segir vitaskuld ekkert um það að einstaklingar megi ekki mismuna hver öðrum. Enda yrði þá í raun fátt eftir af því persónulega frelsi sem flestir menn vilja njóta. Einkaaðilar mega nefnilega mismuna hver öðrum og þurfa almennt ekki að rökstyðja fyrir öðrum persónulegt val sitt milli manna. Maður þarf ekki að útskýra það fyrir konu hvers vegna hann vill ekki kvænast henni þó hann gangi með grasið í skónum á eftir öllum vinkonum hennar. Verkamaður ræður hjá hverjum hann sækir um vinnu og hjá hverjum ekki og þarf vitaskuld ekki að gæta nokkurs „jafnræðis“ milli þeirra. Listunnandi ræður því sjálfur hvaða tónleika hann sækir og þarf ekki að fara „jafn oft“ á tónleika „jafn hæfra“ tónlistarmanna.
Og meira að segja löggjafinn má mismuna mönnum, ef hann gerir það með málefnalegum hætti. Þannig er augljóst að setja má reglur um opinbera aðstoð við þungaðar konur, styrk til fátæklinga eða útdeilingu hjálma til reiðhjólamanna. Og það sem meira er, löggjafinn hefur all frjálsar hendur við að meta það hvað sé málefnaleg mismunun og hvað ekki. Dómstólar hafa þó vald til að meta hvort löggjafinn hafi gengið of langt við mismununina, en hér verður því haldið fram að mat löggjafans verði að vera fremur fjarstæðukennt til að dómstólar geti hnekkt því. Hér verður almenn skynsemi að vera með í ráðum og ef löggjafinn gengur ekki langt út fyrir þau mörk sem ætla má að hún setji, þá verða dómstólar að halda að sér höndum. Dómarar mega ekki freistast til þess að breyta reglum svo þær verði á þann veg sem þeir sjálfir hefðu sett ef þeir hefðu verið kosnir á þing. Það er nefnilega í þeim punkti sem mikilvægur sannleikur liggur. Dómarar hafa ekki verið kosnir á þing. Þeir eiga ekki að setja landsmönnum lög og hugsanlegar skoðanir þeirra á þjóðfélagsmálum verða að mæta afgangi. Dómari kann að vera þeirrar skoðunar að heppilegast fyrir alla væri ef fíkniefnasala væri lögleg atvinnugrein, örorkubætur væru hærri, sjávarútvegi stýrt með sóknarmarki en ekki aflahámarki, landið yrði eitt kjördæmi, allir fengju sömu laun og einungis lágvaxnar fatlaðar konur yrðu ráðnar til opinberra stjórnunarstarfa. Þetta eru allt hugmyndir sem má rökstyðja og takast á um. En ef dómari vill hafa áhrif á að þær náist fram, þá á hann að láta af dómstörfum sínum og bjóða sig fram til þings.
En hvað ef dómarinn gerir það nú ekki? Hvað ef hann sýknar bara fíkniefnasalann með þeim rökum að bann við fíkniefnasölu standist ekki atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þar sem í raun sé bannið ekki í þágu almannaheilla? Dómarinn væri vissulega ekki einn um telja að í raun væri það betra fyrir borgarana ef fíkniefnasala yrði gefin frjáls. Það eru til ýmis veigamikil rök gegn því mati löggjafans að fíkniefnabann sé í samræmi við „almannahag“. En eins og áður var sagt þá telur blaðið að dómstólar megi ekki hnekkja mati löggjafans á því hvaða sjónarmið séu málefnaleg, nema sjónarmið löggjafans séu bersýnilega fráleit. Af því leiðir að þótt öll rök hnígi að því að leyfa ætti sölu fíkniefna þá hafa dómarar ekki leyfi til að ganga þar fram fyrir skjöldu. Ef sú barátta eigi að fara fram í samræmi við stjórnskipunarreglur ríkisins, þá verði hún að fara fram á löggjafarþinginu en ekki í dómsölum. Sama myndi gilda um þau önnur atriði sem nefnd voru hér áðan í dæmaskyni. Dómarar eiga ekki að meta hversu háar örorkubætur eiga að vera, hvernig sjávarútveginum skal stýrt, hvernig menn semja um kaup og kjör og svo framvegis. Dómarar eiga ekki að taka fram fyrir hendur löggjafans svo lengi sem löggjafinn gengur ekki langt fram úr því sem almenn skynsemi segir. En jafnframt þarf dómarinn að gæta þess að grunnréttindi þau sem stjórnarskráin veitir, eignarréttur, atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi, séu virt.
En spyrjum aftur, hvað ef dómarinn gerir bara það sem honum sýnist? Það er nú vandamálið. Það er ekki auðvelt að tjónka við dómara sem ákveða bara að fara sínu fram. Hæstiréttur getur þannig gert nokkurn veginn það sem honum sýnist. Dómarar Hæstaréttar vita að stjórnmálamenn eru jafnan í erfiðri stöðu að takast á við réttinn. Dómararnir vita líka að stjórnarandstaðan og kjaftaskar hennar munu alltaf taka svari réttarins ef stjórnvöld gagnrýna niðurstöður hans. Dómarar eru nokkurn veginn ósnertanlegar í störfum sínum og ef þeir gera ekki annað af sér en dæma rangt, þá geta þeir gert það nokkurn veginn óslitið til sjötugs. Og við því er ekki gott að gera því í ljósi réttaröryggis er mikilvægt að dómarar njóti sjálfstæðis.
Gallinn við þetta er hins vegar sá að hætta er á að ósnertanlegur dómari gangi á lagið og freistist til að færa út kvíar sínar, ef svo mætti segja. Og þegar klaufskir stjórnmálamenn, svo sem stjórnarskrárnefnd undir forystu hagfræðingsins Geirs H. Haardes, taka upp á að færa alls kyns almenn óskhyggjuákvæði í lög eða stjórnarskrá, þá er hætt við að dómarar grípi gæsina og reyni að fara að stjórna landinu upp á eigin spýtur. Það er hins vegar alltaf hættulegt þegar ósnertanlegir menn fara að hafa mikil áhrif á stjórn landsins. Stjórnmálamenn, hversu áhrifamiklir eða -litlir þeir kunna að vera hverju sinni, vita ætíð að þeir þurfa að sækja umboð sitt til kjósenda og sú staðreynd hefur áhrif á þá. Þeir þurfa jafnframt að njóta nokkurs trausts andstæðinga sinna ef þeir ætla að ná málum fram. Ævilangt skipaðir dómarar, sem fæstir geta nafngreint og enginn þekkir í sjón, hafa ekkert slíkt aðhald. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að þeir haldi sig til hlés og fari afar sparlega með það vald sem þeim er treyst fyrir.