Morgunblaðið fullyrti í fyrirsögn fyrir tæpu ári að „rekstur hraðlestar til Keflavíkurflugvallar [gæti] staðið undir sér“. Var þar verið að segja frá könnun sem Orkuveita Reykjavíkur hafði látið gera á hagkvæmni hraðlestar milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Þegar fréttin sjálf var lesin kom hins vegar í ljós að lestin gat bara alls ekki staðið undir sér heldur þurfti að sleppa öllum stofnkostnaði, eða litlum 30 þúsund milljónum króna, til að dæmið gæti komið út í plús. Vefþjóðviljinn fjallaði um þetta mál í nokkrum orðum á sínum tíma.
Alfreð Þorsteinssyni og öðrum forsvarsmönnum Orkuveitunnar þótti þessi kostur hins vegar svo áhugaverður að þeir létu eyða nokkrum milljónum króna til viðbótar í frekari könnun á þessum spennandi fjárfestingarkosti – á mælikvarða Orkuveitunnar. Niðurstaða þeirrar könnunar liggur nú fyrir og nú kemur í ljós að jafnvel þótt menn láti sig ekkert varða um þær 30 þúsund milljónir króna sem kostar að koma slíkri lest á sporið gæti rekstur hennar ekki staðið undir sér. Fyrir rannsóknir á þessum órum Alfreðs hafa skattgreiðendur í Reykjavík hins vegar greitt um 16 milljónir króna.
Það er sumsé komið í ljós að þessar lestarhugmyndir voru svo mikil della að það myndi ekki einu sinni nægja að lestin félli ókeypis af himnum ofan til að rekstur hennar stæði undir sér. Og þarf engum að koma á óvart, nær væri að undrast að nokkur skyldi í raun velta fyrir sér hvort mögulegt væri að reka af nokkru viti lest á milli ekki fjölmennari staða en Reykjavíkur og Keflavíkur! En það er víst svo faglegt að rannsaka allt. Og að sama skapi „ófaglegt“ að neita að rannsaka hugsanlega kosti þess sem heilbrigð skynsemi segir þegar í stað að sé hreinasta þvæla. Enda er ekki að furða þó upp skjóti nú alls kyns „ráðgjafarfyrirtækjum“ sem vinna rándýrar úttektir á næstum hverju sem er. Sennilega eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að fá þau til að athuga. Næst mun Alfreð Þorsteinsson sjálfsagt fá einhverja vel valda endurskoðunarstofu til að „gera vandaða úttekt á kostum og göllum þess að planta í Öskjuhlíð baunagrasi einu miklu og manngengu sem nái til himins þar sem finna megi tröll og komast yfir fjársjóði þeirra og fjármagna þannig rekstur Línu.nets um ófyrirsjáanlega framtíð.“
Og ef engin endurskoðunarstofa fæst í þetta verkefni þá má eflaust leita til ráðgjafarfyrirtækisins sem lagði nafn sitt við þá niðurstöðu að hagstætt væri að reisa gríðarstóra tónlistarhöll fyrir almannafé í Reykjavík, en eins og kunnugt er þá var í niðurstöðum þeirrar úttektar meðal annars gert ráð fyrir því að jafn margir myndu sækja tónleika í hinu hugsanlega húsi og nú sækja alla aðra tónleika á höfuðborgarsvæðinu til samans! Og þessi skýrsla er stundum höfð til marks um það að það sé búið að „undirbúa tónlistarhússbygginguna vandlega“!