Það eru til tvær megintegundir vinstrimanna. Það eru vinstrimenn sem hafa gaman af því að ferðast innanlands og svo hinir sem finnst meira gaman að ferðast til útlanda. Þetta er nú það helsta sem skilur einn vinstrimann frá öðrum. Þeir síðarnefndu vilja auka við ríkisvaldið með því að ganga í Evrópusambandið á meðan hinir vilja auka við það upp á eigin spýtur hér heimavið. Hvorirtveggju hafa græna fingur þegar kemur að því að rækta ríkisvaldið og áhrif þeirra eru slík að vöxturinn er umtalsverður jafnvel þótt það falli í þeirra hlut að sitja í stjórnarandstöðu. Enda hafa fulltrúar þeirra í stjórnarliði og ríkisstjórn ekki einasta lagt hönd á plóg heldur og sveiflað haka og ræktað nýjan skóg og munar um minna þar sem spretta og vöxtur er nú sumstaðar meiri en í meðalári.
„Það er íhugunarvert hvort vöxtur og viðgangur ríkisins myndi ekki breytast ef flokkunum væri meinað að skammta sér framlög frá skattgreiðendum og yrðu þess í stað að treysta á frjáls framlög.“ |
Eitt af því sem vinstrimenn vilja bæta í flóru ríkisvaldsins eru stjórnmálaflokkarnir og rekstur þeirra. Þetta er þó sjaldnast sagt beinum orðum heldur er látið að því liggja að eftir, (a) vandaða og (b) upplýsta, umræðu um fjármál stjórnmálaflokka sé niðurstaðan sú að nauðsynlegt sé að (a) að gera bókhald stjórnmálaflokka opinbert og (b) að takmarka framlög einstakra fyrirtækja og einstaklinga til þeirra svo komið verði í veg fyrir „spillingu“. Svo lýkur röksemdafærslunni á því að til þess að gera framlög til stjórnmálaflokkana opinber þá þurfi að koma stjórnmálaflokkunum á opinbert framfæri.
Þetta er einmitt það sem vinstristjórnin í Bretlandi ætlar nú að gera, stórauka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka svo þeir verði óháðari frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Þetta er sagt styrkja tiltrú almennings á stjórnmálum yfirleitt og styðja við stjórnmálaflokkana og styrkja þannig lýðræðið. Sumpart byggir þetta á þeim misskilningi stjórnmálaflokkarnir séu nauðsynlegir lýðræðinu með einhverjum hætti og sá misskilningur er svo að stærstum hluta reistur á þeirri vitleysu að þátttaka í starfi stjórnmálaflokka sé alltaf af hinu góða, hvaða meginstefnu sem þeir svo fylgja.
Auknum framlögum ríkis til stjórnmálaflokka er ekki síst ætlað að þjóna því hlutverki að auglýsa stjórnmálin sem slík en sá er helstur munur á vinstrimönnum annarsvegar og hægrimönnum hinsvegar að hjá hinum fyrrnefndu eru stjórnmálin tilgangur í sjálfu sér hjá hinum síðarnefndu eru þau stundum tæki en þó oftast bara vandamál. Þetta sést gleggst á því að vinstrimenn hafa manna mest áhyggjur af minnkandi kjörsókn og svo á því að ef einhver umræða snýst um eitthvað annað en hvernig tryggja megi vöxt og viðgang ríkisins þá sé hún annaðhvort ekki nógu vönduð eða ekki nógu upplýst nema hvorttveggja sé.
Það er vandséð hvernig stjórnmálaflokkarnir eru nauðsynlegir lýðræðinu en ef þeir eru lýðræðisleg nauðsyn og ef það er lýðræðisleg nauðsyn að þeir séu ekki háðir frjálsum framlögum þá er spurning hvort ekki sé lýðræðisleg nauðsyn að flokkarnir séu óháðir kjósendum eða þá að minnsta kosti bara háðir óháðum kjósendum. Það er reyndar alveg ótrúlega útbreiddur misskilningur að þeim mun háðara sem eitthvað er ríkinu, þeim mun óháðara sé það í einhverjum skilningi. Og þetta er að vissu leyti kjarninn í áróðri vinstri manna, fyrir því meðal annars, að stjórnmálaflokkarnir séu reknir af ríkinu, að annarsvegar sé ríkið, sjálfgefið og óháð, og hinsvegar andstaðan við það sem er þá hagsmunatengd pólitík.
Ríkið er stærsti einstaki styrktaraðili allra þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og allir hafa þeir tryggt vöxt og viðgang ríkisins með einum eða öðrum hætti. Ríkisvaldið hefur og vaxið í meðförum þeirra allra þó vissulega sé það mjög mismikið. Það er íhugunarvert hvort vöxtur og viðgangur ríkisins myndi ekki breytast ef flokkunum væri meinað að skammta sér framlög frá skattgreiðendum og yrðu þess í stað að treysta á frjáls framlög.
Það er þó ekki þar með sagt að stjórnmálaflokkar hljóti að vera slæmur félagsskapur og að hugsjónamenn, hvort sem er af vinstri eða hægri kantinum, fái þar ekki þrifist. Stjórnmálaflokkar eru þvert á móti fremur skynsamleg aðferð manna til að hafa áhrif á niðurstöðu þeirra mála sem ráðið er til lykta á vettvangi hins opinbera. Það er skiljanlegt að fólk sem vill hafa áhrif á gang landsmálanna – hvort sem það er til að þenja ríkisvaldið út eða setja því þröngar skorður – starfi í stjórnmálaflokki og reyni að hafa áhrif á stefnu hans. Engum fullorðnum manni dettur hins vegar í hug að sá maður sem skráir sig í stjórnmálaflokk sé þar með ánægður með hvert einasta atriði í stefnu flokksins eða ánægður með allar ákvarðanir sem trúnaðarmenn flokksins taka hverju sinni. Menn skrá sig í þann stjórnmálaflokk sem stendur næstur þeirra lífsskoðun og reyna svo að hafa áhrif á stefnu flokksins og áhrif á það hvaða flokksmenn veljast til að koma stefnunni í framkvæmd. Fáir eru hins vegar svo barnalegir að sjá ekki muninn á flokknum og sjálfum sér og telja þar með að þeir geti ekki verið í flokknum nema styðja allan hans málflutning. Þess vegna treysta menn sér almennt til að starfa með þeim stjórnmálaflokki sem næst þeim stendur. Brýnasta verkefni stjórnmálamanna er hins vegar að skera svo niður verkefni og umsvif hins opinbera að það verði alltaf færra og færra sem stjórnmálaflokkarnir hafa að segja um málefni borgaranna. Þannig ætti markmiðið að vera það að menn geti starfað í stjórnmálaflokki sem hefði ekki annað verkefni en það að tryggja að hann hefði sem fæst verkefni.