Fjármálaráðuneytið er ekki ánægt með að á það hefur verið bent að undanförnu að einstaklingar greiða nú að meðaltali hærra hlutfall tekna sinni í tekjuskatt en þeir gerðu fyrir tíu árum þegar illa þokkaður fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins skilaði af sér. Í fréttabréfi ráðuneytisins sem kom út í gær segir vegna þessa: „Að undanförnu hefur nokkur umræða verið um þróun tekjuskatta einstaklinga. Fyrr í vikunni birtust fréttir í fjölmiðlum um að álagning tekjuskatta og útsvars hefði meira en tvöfaldast á síðustu tíu árum. Með fréttunum fylgdu myndir sem mátti túlka sem svo að skattbyrði heimilanna hefði stóraukist. Slík túlkun er hins vegar alröng.“
Einmitt það já. Það er auðvitað ekkert við það að athuga að birtar séu myndir í fjölmiðlum sem sýna hvernig tekjur ríkisins af tekjuskatti hafa vaxið síðasta áratuginn í krónum talið. Þessar myndir segja að sjálfsögðu ekki alla söguna um raunverulega skattbyrði þ.e.a.s. hvaða hlutfall tekna menn greiða í skatta en engu að síður sjá menn þó að hið opinbera hefur ekki verið hlunnfarið stórkostlega. Hvað má þá segja um þá mynd sem birt er í vefriti fjármálaráðuneytisins í gær og er ætlað það eitt að slá ryki í augu blaðamanna og annarra sem um þessi mál fjalla? Þar er birt graf sem sýna á hvernig tekjuskattbyrði landsmanna hefur breyst frá 1990. Grafið sýnir raunar allt annað en hvernig heildarálagning tekjuskatts (þ.e. samanlagður hlutur ríkis og sveitarfélaga) hefur breyst. Einmitt þær upplýsingar vantar!
Það liggur hins vegar ljóst fyrir að frá árinu 1990 hefur hlutur ríkisins í tekjum manna vaxið úr 10,4 í 12,1%. Það er hækkun á hlutfalli um 16,3%. Telur fjármálaráðherra að það sé ekki til marks um stóraukna skattbyrði? Þegar útsvar sveitarfélaga er einnig tekið inn í myndina (en það vantar sárlega, en líklega viljandi, á grafið í vefriti fjármálaráðuneytisins) verður ekki betur séð en að byrði landsmanna af tekjusköttum hafi hækkað úr 17,4 í um 24%. Það er hvorki meira né minna en 37,9% hækkun tekjuskatts. Hvað telur fjármálaráðherra vera stóraukna skattbyrði ef 37,9% hækkun er það ekki?
Ástæðan fyrir þessari auknu skattbyrði er ósköp einföld. Tekjur í þjóðfélaginu síðustu ár hafa vaxið mjög og vegna þess hvernig skattkerfið er úr garði gert skilar það mjög auknum tekjum til hins opinbera. Besta ráðið gegn þessari óheillaþróun er að lækka skatthlutfallið sem nú er allt að 45,54% þegar sérstakur tekjuskattur (hátekjuskattur) er reiknaður með.
En er nokkur von til þess að skatthlutfallið lækki á meðan í fjármálaráðuneytinu sitja menn sem telja 37,9% hækkun á tekjuskattsbyrði ekkert stórmál?