Þriðjudagur 6. ágúst 2002

218. tbl. 6. árg.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram enn eina af sínu afbragðs snjöllu hugmyndum. Nú er ætlunin að setja ný lög sem fela munu í sér að þegar bíll og reiðhjól lenda í árekstri þá muni trygging bílsins ávallt greiða allt tjón á mönnum og tækjum, hvort sem bílstjórinn eða hjólreiðamaðurinn á sök á óhappinu. Reglur um réttindi – í sumum tilvikum forréttindi – hjólreiðamanna eru afar misjafnar á milli landa innan Evrópusambandsins, en það er nokkuð sem ESB á bágt með að sætta sig við. Og þessi lög eru hugsuð til að þvinga ríki á borð við Bretland til að fylgja ríkjum á borð við Frakkland og Þýskaland í því að veita hjólreiðamönnum alger forréttindi í umferðinni.

BICYCLEÞessi fyrirhuguðu lög eru hættuleg að því leyti að þau svipta menn ábyrgð á gerðum sínum og gera ráð fyrir að saklaus maður þurfi að taka á sig byrðar fyrir þann sem hefur brotið af sér. Slíkt brýtur gegn öllu því sem menn eiga að venjast og samræmist ekki því sem almennt er talið réttlæti. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki áhyggjur af þessu, enda verður að steypa alla í sama mót, og þá jafnvel þótt allt verði jafn vitlaust. Og ESB hefur ekki heldur áhyggjur af þeim kostnaði sem þetta mun valda bifreiðaeigendum og heldur því blákalt fram að kostnaður þeirra vegna þessa verði óverulegur. Í Bretlandi eru menn ekki á sama máli og þar hefur verið bent á að bílatryggingar muni líklega hækka um 50 pund, eða sem nemur um 6.700 íslenskum krónum. Og vitaskuld er staðreyndin sú að iðgjöld trygginga munu hækka við þessa breytingu, enda dettur ekki nokkrum manni í hug að tryggingafélögin taki á sig kostnaðinn af löggjöfinni.

En þó Bretar séu andsnúnir lögunum er líklegt að þau nái fram að ganga í krafti meirihluta í atkvæðagreiðslu. Þannig mun ESB líklega takast að þvinga hækkuð iðgjöld upp á Breta, allt vegna þess að á meginlandi Evrópu er meira í tísku að vera á móti bílum en á Bretlandi.