Laugardagur 3. ágúst 2002

215. tbl. 6. árg.

Það kemur sjálfsagt ýmsum á óvart að ríkissjóður og sveitarfélög hafa nær sömu nettótekjur af tekjuskatti einstaklinga. Á síðasta ári höfðu sveitarfélögin 56 milljarða króna úr launaumslögum landsmanna en ríkissjóður 57,5 milljarða króna. Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum seilst sífellt dýpra í vasa skattgreiðenda á sama tíma og hlutur ríkissjóðs í tekjuskattinum hefur lækkað. Engu að síður hafa sveitarfélögin verið að safna skuldum en ríkissjóður að greiða sínar skuldir niður.

Í frétt DV í gær kemur fram að með því að fella niður persónuafslátt má lækka tekjuskattinn úr rúmum 38% í 26%. Skatturinn yrði þá flatur, allir greiddu sama hlutfall tekna í skatt, en því hærri tekjur því hærri skattur í krónum talið. Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi myndu skattgreiðslur þeirra sem hafa undir 200 þúsund krónum í tekjur hækka við 26% flatan skatt en lækka hjá þeim sem hafa yfir 200 þúsund krónur. Ef flati skatturinn væri hins vegar 15% myndu allir með tekjur yfir 110 þúsund krónum á mánuði koma betur út en í núverandi kerfi. Ríkissjóður yrði hins vegar af tekjum frá því sem nú er ef skatturinn færi niður í 15%. Þó má gera ráð fyrir að skattalækkun af þessu tagi hefði jákvæð áhrif á efnahaginn og þannig myndi einhver hluti tekjutaps ríkissjóðs skila sér til baka. Sú var raunin þegar tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður.

Svo má auðvitað spara í rekstri ríkissjóðs til móts við skattalækkanir. Til dæmis gæti ríkissjóður sparað  yfir 20 milljarða með því að hætta framlögum til landbúnaðarmála, sem kosta 11 milljarða á ári, ásamt því að hætta greiðslu vaxtabóta og hætta hinni einstæðu félagslegu aðstoð við fullfrískt fólk sem gengur undir nafninu foreldraorlof.

FLATURSKATTUR