Í dag er níræður hagfræðingurinn Milton Friedman og er óhætt að fullyrða að af núlifandi hagfræðingum hefur enginn haft álíka áhrif og hann. Raunar má deila um það hvort hann hafi verið sá hagfræðingur sem mest áhrif hafi haft á síðustu öld, en ýmsir myndu þó telja að John Maynard Keynes hafi haft enn meiri áhrif á viðhorf manna og aðgerðir stjórnvalda. Friedman, ólíkt Keynes, er raunar meira fyrir aðgerðaleysi stjórnvalda en aðgerðir þeirra, og má segja að á síðari hluta síðustu aldar hafi átök í hagfræði að miklu leyti snúist um hvor yrðu ofan á, sjónarmið Keynes eða Friedmans. Kenningar Keynes spruttu upp úr Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og gengu í stuttu máli út á að ríkið ætti að grípa inn í með auknum útgjöldum þegar að kreppti í efnahagsmálum, en draga saman seglin þegar vel áraði og þensla ríkti. Ríkisfjármál voru helsta hagstjórnartækið að mati Keynes og fylgismanna hans, en stjórn peningamála skipti litlu máli. Friedman taldi hins vegar að fjármálum hins opinbera ætti ekki að beita þannig og að stjórn peningamála, eða peningamagns, væri það sem mestu skipti. Hann sýndi meðal annars fram á það í helsta riti sínu A Monetary History of the United States 1867-1960, sem Anna Jacobson Schwartz ritaði með honum, að fylgni milli stjórnar peningamála og þenslu eða samdráttar er afar mikil. Sem dæmi má nefna að í bókinni kemur fram að frá toppi þenslunnar í ágúst 1929 til botns efnahagslægðarinnar í mars 1933, þ.e. á tíma Kreppunnar miklu, hafi peningamagn dregist saman um meira en þriðjung. Friedman telur að með þessu hafi stjórnvöld stuðlað að því að gera hefðbundinn samdrátt að þeirri ógurlegu kreppu sem raun ber vitni, en þar til bókin var gefin út höfðu menn ekki gert sér grein fyrir þessum staðreyndum um Kreppuna. Rétt er að taka fram að þó peningamagnssinnar, þ.e. Friedman og þeir sem aðhyllast svipaðar skoðanir, og Keynesverjar hafi deilt um hvor séu áhrifaríkari tæki til stjórnar efnahagsmála, ríkisfjármál eða peningamál, þá er það ekki svo að báðir séu jafn hlynntir inngripum hins opinbera. Peningamagnssinnar eru almennt andvígir því að hið opinbera grípi inn í gang efnahagslífsins – Friedman hefur til að mynda lagt til að peningamagn sé látið vaxa um tiltekið hlutfall á hverju ári og að því megi nánast stýra með tölvu –, en Keynesverjar hafa eins og áður segir aðhyllst þá skoðun að ríkið eigi að grípa inn í og freista þess að stýra efnahagslífinu upp úr lægðum og niður af tindum.
Paul Samuelson hefur líklega ritað mest lesnu kennslubók í hagfræði frá upphafi, en hún heitir Economics, sem er mjög í stíl við nafngiftir kennslubóka í hagfræði, því þær heita svo að segja allar annaðhvort Economics, Microeconomics eða Macroeconomics. Nóg um það, Samuelson þessi aðhylltist sjálfur kenningar Keynes og ber mikla ábyrgð á að þeir sem á síðari hluta tuttugustu aldar lögðu stund á grunnáfanga í hagfræði kynntust fáum öðrum kenningum. Sautján útgáfur hafa verið gerðar af þessari bók og í þeim má glöggt sjá þau áhrif sem kenningar Friedmans hafa haft. Í þriðju útgáfunni frá 1955 er lítið gert úr kenningum peningamagnssinna og þar segir að fáir hagfræðingar telji peningastefnu seðlabanka til þess fallna að hafa hemil á hagsveiflum. Þetta viðhorf breytist með tímanum og í fimmtándu útgáfunni frá 1995 er sagt að ríkisfjármál séu ekki lengur helsta stjórntæki til að ná fram stöðugleika í Bandaríkjunum og að í náinni framtíð muni peningastefna seðlabankans vera helsta tækið til að tryggja stöðugleika. Það má því ef til vill slá því fram að það hafi tekið fjóra áratugi að breyta viðhorfum manna og fá áhrifaríka hagfræðinga til að viðurkenna að ríkisfjármál eru ekki heppilegt tæki til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Áhrif Friedmans koma ekki síst fram í þessari viðhorfsbreytingu, þó vissulega hafi hann ekki staðið einn í baráttunni.
Nú orðið eru viðhorfin til kenninga Keynes reyndar orðin svo breytt að margir hagfræðingar eru þeirrar skoðunar að kenningarnar hafi varla nema sögulegt gildi, enda séu þær að flestu leyti meingallaðar. En hvers vegna er það svo mikilvægt að sjónarmið Keynes hafi orðið undir í keppni hugmyndanna? Jú, ástæðan er sú að þær kenningar að ríkið eigi að auka útgjöld sín þegar að kreppir hafa það í för með sér að umsvif ríkisins aukast sífellt, sem er einmitt það sem átti sér stað stærstan hluta síðari helmings tuttugustu aldar, eða á þeim tíma sem áhrif Keynes voru hvað mest.
Friedman hefur breytt viðhorfum manna til fleiri hagfræðilegra efna og má þar til að mynda nefna samband atvinnuleysis og verðbólgu. Phillips-kúrfan er graf sem sýnir sambandið þarna á milli og lengi var því haldið fram að hún sýndi að ef menn vildu minnka verðbólgu þá myndi atvinnuleysi aukast. Þetta gerði það að verkum að minni áhugi var fyrir hendi en ella að draga úr verðbólgu og að margir töldu réttlætanlegt að viðhalda hárri verðbólgu í því skyni að halda atvinnuleysi niðri. Friedman sýndi fram á að þetta samhengi ætti ekki við, nema ef til vill til skamms tíma, og þar með var ein af afsökununum fyrir því að prenta peningaseðla eða auka ríkisútgjöld runnin úr greipum þeirra sem vilja sem mest afskipti ríkisins. Barátta Friedmans hefur einmitt einna helst miðað að því að draga úr umsvifum hins opinbera og auka umsvif einstaklinga, enda er Friedman frjálshyggjumaður þó þeir frjálshyggjumenn séu til sem vilja ganga lengra en hann í takmörkun á ríkisafskiptum á einstökum sviðum. Þó hagfræði hafi átt hug Friedmans hefur hann ekki eingöngu fjallað um efnahagsmál. Hann, ásamt Alan Greenspan, sem síðar varð seðlabankastjóri Bandaríkjanna, átti til að mynda stóran þátt í að herskylda var aflögð í Bandaríkjunum. Annað sem Friedman hefur barist fyrir í að minnsta kosti þrjá áratugi er að bann við fíkniefnum verði lagt af. Þó það mál hafi enn ekki náðst fram hefur þó þokast í rétta átt og efasemdir um gildi bannsins fara vaxandi.
Eins og sjá má af því sem hér hefur verið nefnt er Friedman mikill baráttumaður og þeir sem hafa séð hann í rökræðum eru vafalítið flestir sammála um að Friedman sé skeleggur og sannfærandi talsmaður frjálslyndra sjónarmiða. Ýmis þessara sjónarmiða koma fram í bókinni Frelsi og framtak (Capitalism and Freedom), sem varð vinsæl meðal almennings og hefur selst í yfir hálfri milljón eintaka.
Í dag eru 20 ár liðin frá því „Frelsi og framtak“ kom út í íslenskri þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. |
Önnur bók kom út síðar, árið 1980, og ásamt henni tíu sjónvarpsþættir með sama nafni, Free to Choose, en að þessu vann hann ásamt eiginkonu sinni Rose. Þættirnir vöktu mikla athygli, þar á meðal hér á landi, og bókin seldist í yfir einni milljón eintaka. Nokkrum árum síðar, árið 1984, kom Friedman til Íslands og hélt hér fyrirlestur og tók þátt í sjónvarpsumræðum. Fyrirlestur Friedmans kallaðist Í sjálfheldu sérhagsmunanna og fjallaði um það að líkt og á markaðnum væri í stjórnmálum að verki ósýnileg hönd. Munurinn væri þó sá að ósýnilega höndin á markaðnum fengi menn til að vinna að almannahagsmunum, en ósýnilega hönd stjórnmálanna fengi stjórnmálamenn til að vinna að sérhagsmunum. Þetta stafaði af því að sérhagsmunir væru þess eðlis að þeir skiptu lítinn hóp manna miklu en allan almenning litlu. Sérhagsmunahópar næðu oft undirtökum og gætu haft áhrif á stjórnmálamenn vegna þess að almenningur léti undir höfuð leggjast að beita sér í málum þar sem hagsmunir hvers og eins eru of litlir til að það borgi sig fyrir hann að gæta þeirra. Hann sagðist ekki telja að hægt væri að leysa þennan vanda með því að kjósa „réttu mennina“ því vandinn sé sá að jafnvel velviljaðir þingmenn verði að hugsa um eigin hagsmuni til að ná endurkjöri og þar með verði þeir að gefa eftir gagnvart sérhagsmunahópum. Friedman sagðist sjá tvær lausnir á þessu; upplýstan einvald og takmörkun ríkisvalds með almennum stjórnarskrárreglum. Fyrri kostinn taldi hann ekki heppilegan, enda væri engin leið að tryggja að einvaldur breytti rétt, en síðari kosturinn væri æskilegur og í stjórnarskrá sé hægt að setja reglur sem setji hömlur á ríkið.
Eins og einhverja lesendur grunar líklega út frá þeim upplýsingum sem gefnar voru hér í upphafi fæddist Milton Friedman 31. júlí árið 1912. Foreldrar hans voru Gyðingar og innflytjendur frá Austur-Evrópu og ólst Friedman upp í New York í litlum efnum. Ágætur námsárangur skilaði honum þó hverjum styrknum á fætur öðrum sem varð til þess að hann gat lokið doktorsprófi í hagfræði árið 1946, en hann varð fyrir nokkrum töfum í námi vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Að námi loknu hóf Friedman kennslu við Chicago-háskóla og varð sá skóli smám saman þekktur fyrir hagfræði á borð við þá sem Friedman aðhyllist. Árið 1947 stofnaði hann Mont Pélérin-samtökin ásamt Friedrich August von Hayek, Ludwig von Mises, George Stigler og fleiri frjálslyndum fræðimönnum, og hann var forseti samtakanna árin 1970-72. Árið 1967 varð hann formaður Bandaríska hagfræðingafélagsins og árið 1976 hlaut hann nóbelsverðlaunin í hagfræði. Ári síðar lét hann af störfum hjá Chicago-háskóla og gerðist rannsóknarfélagi við Hoover-stofnunina við Stanford-háskóla, þar sem hann er enn að störfum. Loks má nefna að eitt af því sem hann hefur tekið þátt í frá því hann hætti kennslu er mæling frelsisvísitölunnar, en hann er einn af upphafsmönnum þess verkefnis. Sú vísitala sýnir hlutfallslega stöðu landa með tilliti til frelsis og eins og flest annað sem Friedman hefur tekið sér fyrir hendur hefur hún gefist vel í baráttunni fyrir auknu frelsi einstaklingsins, því hún sýnir glögglega að auknu frelsi fylgir aukin velmegun.