Undanfarin ár hafa bæði hið opinbera og ýmis fyrirtæki lagt út í talsverðan kostnað við að hvetja Íslendinga til að „sækja Ísland heim“ í leyfi sínu. Fyrstu árin var þessum auglýsingum gjarnan svarað með athugasemdum fyndinna manna sem endilega vildu fá að vita hvar Ísland ætti heima, svona ef til þess kæmi að menn ákveddu að sækja það heim. En undanfarin ár hefur minna borið á slíkum útúrsnúningi enda margir eflaust orðnir vanir þessum áróðri. Ekki eru allir þó sáttir við hann og skal Vefþjóðviljinn hiklaust gefa sig fram sem andstæðing hans. Blaðið er þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi ekki að skipta sér af því hvert landsmenn halda í orlofi sínu eða þá hvort þeir fara nokkurt yfirleitt. Á hinn bóginn sé ekkert athugavert við það að einkaaðilar hafi uppi slíkan áróður á eigin kostnað.
Síðastliðinn sunnudag birti Morgunblaðið viðtal við einn þeirra manna sem starfa að ferðaþjónustu á landsbyggðinni og hafa talsverða hagsmuni af því að sem flestir „sæki Ísland heim“, Erling Thoroddsen hótelsstjóra á Raufarhöfn. Erlingur er ekki hrifinn af öllu því sem hið opinbera hefur gert í ferðaþjónustu og nefnir sem eitt dæmi „milljarða kynningarátak sem Ferðamálaráð hreyki sér mjög út af, en var síðan í fjölmiðlum í vor dæmt ónýtt af aðilum í ferðaþjónustunni. Átakið skilaði fleiri ferðamönnum til landsins en dvalardögum fækkaði, sérstaklega er fjær dró höfuðborginni.“ Nú er rétt að taka fram að sennilega er Erlingur þessi ekki sammála Vefþjóðviljanum um allt sem snýr að opinberum afskiptum af ferðamálum enda stýrir hann hóteli sem opinber aðili, Raufarhafnarhreppur, á. Það breytir ekki því að blaðinu þykir eitt og annað athyglisvert sem Erlingur segir í viðtalinu. Hann gefur meðal annars lítið fyrir opinbera ferðamálafrömuða á landsbyggðinni og þykir þeir bæði gagnslitlir og nískir á þá dagpeninga sem þeir fá!
„Annar stórkostlegur dragbítur á framgang ferðaþjónustunnar eru þessar ferðamálanefndir á landsbyggðinni og endalausir fundir þeirra. Menn hittast, sýna sig, sjá aðra, viðra hugmyndir. Koma svo heim í hérað og tala um að þessi fundurinn eða hinn hafi verið verið gagnlegur. Menn á launum og dagpeningum og svo gerist bara ekki neitt og eftir sem áður eru það einstaklingarnir sem rembast við einhverja uppbyggingu og fá ekkert allt of mikinn stuðning hins opinbera til þess. Ég er búinn að sjá þessa aðila á fundunum góðu með alla dagpeningana. Í hvað fara dagpeningarnir? Þeir fara ekki í að kaupa þjónustu þar sem fundurinn fer fram hverju sinni. Dagpeningamenn tíma flestir hverjir ekki að draga andann og laumast heim með seðlana í veskinu og líta á þá sem tekjubót. Það má ekkert við þessu segja, ef það er minnst á að hrófla við þessu æpir BSRB að um kjaraskerðingu sé að ræða.“
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að fara að ræða hugsanlega sparsemi dagpeningamanna en blaðið trúir vel þeim orðum Erlings að gagnið af ferðamálanefndum hins opinbera sé lítið. Í þessu máli sem öðrum gildi nefnilega að þeir eru líklegastir til árangurs sem mesta hagsmuni hafa af því að árangur náist. Eða efast menn kannski um það að einkaaðilar í ferðaþjónustu séu líklegri en opinberir nefndarmenn til að ná til hugsanlegra ferðamanna? Hið opinbera, ríki og ekki síður sveitarfélög, ættu að draga úr umsvifum sínum í ferðamálum sem öðrum og láta borgurunum sjálfum eftir að vinna að framgangi hugðarefna sinna, ferðalaga. Sá kostnaður sem hið opinbera hefur af starfi allra ferðamálafrömuðanna er að sjálfsögðu greiddur af skattgreiðendum í landinu sem þar með hafa sem því nemur minna fé milli handanna. Fyrir hverja krónu sem hið opinbera eyðir til „ferðamála“, hafa skattgreiðendur, einstaklingar og fyrirtæki, einni krónu minna undir höndum. Borgarinn hefur einni krónu minna til ferðalaga; fyrirtækin hafa einni krónu minna til að byggja upp og kynna þjónustu sem fólk vill nýta sér á ferðalögum.