Bankar og sparisjóðir eru eitt helsta umræðuefnið þessa dagana. Allt eins er líklegt að ríkið selji stóra hluta úr bæði Búnaðarbanka og Landsbanka og eins verði breyting á SPRON. Ýmis sjónarmið eru uppi varðandi þessi mál eins og gengur. En engu að síður eiga allir sem tjá sig um þessi mál eitt sameiginlegt: Þeir hafa allir „samkeppnina“ sín megin. Það er sama hvað menn vilja og hvað þeir ætlast fyrir þeir hafa það eitt í huga að auka samkeppnina í bankastarfsemi. Viðskiptaráðherra vill ákveðna hluti sem auka samkeppni en ekki aðra sem draga úr samkeppni að hennar mati. Hún telur það augljóst að samkeppni minnki ef bönkum fækki. Morgunblaðið vill setja þak á eignarhluti í bönkum. Ríkisstjórnin og einkavæðingarnefnd vilja ekki selja öðrum bönkum hluti ríkisins í Lands- og Búnaðarbanka. Og stjórnir bankanna hafa að sjálfsögðu sínar skoðanir, ekki síst þær að innlima næsta banka. Allt á þetta auðvitað að auka samkeppni.
Þetta leiðir hugann að því hve samkeppnishugtakið er orðið útjaskað. Á þessum síðum hefur áður verið bent á þann skaða sem hin gamla Verðlagsstofnun ríkisins, nú Samkeppnisstofnun, hefur valdið íslensku atvinnulífi með sífelldum afskiptum af viðskiptum á frjálsum markaði. Stofnunin hefur hvað eftir annað tekið ráðin af stjórnendum og eigendum fyrirtækja og komið í veg fyrir að þeir geti selt fyrirtæki sín, sameinast öðrum, keypt önnur eða hagrætt með öðrum hætti eftir bestu vitund. Þessi ríkisafskipti eru öll í nafni samkeppni.
Og það er því vart að undra þótt ýmsir telji sig geta aukið samkeppni þegar nokkrir skriffinnar á gömlu Verðlagsstofnun eru orðnir svo háþróaðir að þeir reikna framtíðina á hinum frjálsa markaði út af mikilli nákvæmni og skipa svo eigendum og stjórnendum fyrirtækja að haga sér í samræmi við þessa spádóma. Allt í nafni samkeppninnar.
Á sama tíma og hið opinbera rekur sérstaka stofnun í nafni samkeppnismála heldur það uppi verðlagshöftum, verndartollum og innflutningbanni, tekur upp endalausar reglugerðir, tilskipanir og staðla frá ESB, rekur ríkisstyrkt fyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki, rekur einkasölu og bannar auglýsingar á almennum neysluvörum o.s.frv. Allt kemur þetta í veg fyrir samkeppni.
Svo eru menn að hlæja að því að ríkið reki jafnréttisstofu og framkvæmdastýra hennar fái á baukinn vegna jafnréttismála.