Nú eru það kjúklingar, síðast paprikur og tómatar, að ógleymdum kartöflunum, frönskum, soðnum og mygluðum. Ostar, nautakjöt, svín og sveppir koma reglulega við sögu og kalkúnalappir gerðu það gott í fjölmiðlum um árið. Þessi mikla matarumræða í fjölmiðlum ár og síð er þó yfirleitt ekki um matinn sjálfan heldur skrifræðið, boðin og bönnin í kringum viðskipti og framleiðslu á honum.
Það er ekki nóg með íslenskur landbúnaður sé hnepptur í viðjar skömmtunar og „framleiðslustýringar“. Verðlagsnefndir koma saman eins og í sovésku ævintýri og ákveða verð á hvers manns disk. Þetta mikla kerfi er talið kosta almenning 20 milljarða króna á ári. Engu að síður búa þeir sem kerfið á að verja, íslenskir bændur, við krappari kjör er flestir landar þeirra.
Nú er þetta ekki séríslenskt vandamál. Flestar Evrópuþjóðir eyða miklu fé í niðurgreiðslur og framleiðslustyrki og helmingi þeirra fjármuna sem Evrópusambandið hefur yfir að ráða eyðir það í niðurgreiðslur. Svipaða sögu er að segja frá Norður-Ameríku. Þessi víðtæka styrkja- og verndarstefna Vesturlanda bitnar mjög á bændum í öðrum heimshlutum sem geta ekki keppt við niðurgreiddar afurðir frá Vesturlöndum sem dembt er inn á markaði þeirra, hvað þá að þeir geti flutt afurðir sínar til Vesturlanda þar sem mæta þeim himinháir tollmúrar og önnur innflutningshöft.
Það er hins vegar ekki rétt sem ýmsir halda fram að Íslendingar verði að ganga í ESB til ástandið í þessum málum lagist. Líklega ykjust útgjöld íslenskra skattgreiðenda vegna landbúnaðarmála við aðild. Íslendingar þyrftu að taka þátt í niðurgreiðslu á ólífuræktun á Spáni og síðar kartöflum í Póllandi. Sóunin og haftastefnan hérlendis er algjört sjálfskaparvíti sem leysa má með breytingum á íslenskum lögum. Til þess þarf ekki utanaðkomandi aðstoð, allra síst frá þeim sem standa enn verr að málum. Fyrsta skrefið er að afnema innflutningshöft á landbúnaðarafurðir.