Þriðjudagur 9. júlí 2002

190. tbl. 6. árg.

Þeir á Stöð 2 eru nú svona og svona. Þannig sendu þeir – eða að minnsta kosti Róbert Marshall – í gærkvöldi út sérstaka „frétt“ sem eingöngu snerist um að Sólveig Pétursdóttir svaraði aldrei fyrir óvinsæl mál heldur sendi þá undirmenn sína í fjölmiðla í sinn stað. Fyrst og fremst voru þar nefnd til sönnunar margumtöluð mál sem kennd eru við leikfimi- og andófshreyfinguna Falun Gong og komu stórs hóps á hennar vegum hingað til lands í síðasta mánuði. Stöð 2 hélt því fram að það mál hefði verið undir skýru forræði dómsmálaráðherra en engu að síður hafi Sólveig Pétursdóttir ekki leyft fréttamönnum að tala við sig en látið einhvern Stefán Eiríksson í ráðuneytinu einan um hituna. Nú er ekki gott að segja hversu þaulsetnir ráðherrar þurfa að vera hjá fréttamönnum svo að hinum síðarnefndum þyki nóg fyrir sig gert en Vefþjóðviljinn man ekki betur en Sólveig hafi þó setið í heilum Kastljósþætti í Ríkissjónvarpinu til að svara fyrir ákvarðanir ráðuneytisins og hafi þangað komið beint úr viðtali Sigmars Guðmundssonar á… Stöð 2. Kannski biður einhver um að dómsmálaráðherrann sitji daglega fyrir svörum og komi í alla fréttatíma, og ef það er krafan þá uppfyllti Sólveig hana ekki, en að búa til sérstaka frétt um að dómsmálaráðherra hafi bara ekki verið til viðtals, ja hvað á að segja um slíka fréttamennsku?

En ef að Róbert Marshall og félagar á Stöð 2 vilja gera fréttir um stjórnmálamann sem ekki svarar fyrir óþægileg mál þá væri ef til vill vænlegt að líta sér nær. Eða hvað, hafa menn ekki tekið eftir vinnulagi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur undanfarin átta ár? Hafa menn kannski ekki tekið eftir því hver það er sem mætir í fréttir þegar þarf að verja nýjustu hækkanir leikskólagjalda? Það er Bergur Felixson, forstöðumaður Dagvistar barna. Og kynnir hann þá kannski líka opnun nýrra leikskóla? Nei, það gerir sko Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nútímalegur stjórnmálamaður. Hver svarar fyrir óráðsíu Orkuveitunnar? Þá er vísað á Guðmund Þóroddsson forstjóra. En opnar hann þá nýjar dælustöðvar? Nei, þá kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, nútímalegur stjórnmálamaður, með Alfreð Þorsteinsson höfðingja á báðar hendur. Hver ætli svari fyrir tæplega tveggja milljarða króna taprekstur Línu.nets? Ætli það sé þá borgarstjórinn sem bauð sig sérstaklega fram til að „taka pólitíska ábyrgð“? Nei, þá sjaldan sem fjölmiðlar fjalla um látlaust tap Línu.nets þá er talað við einhvern Eirík Bragason, framkvæmdastjóra. En menn geta verið vissir um það, að ef einhvern tíma verður sögð jákvæð frétt af þessu furðufyrirtæki, þá verður nú enginn Eiríkur Bragason þar í forsvari. Þá mun nú kastljósið falla á annað fólk.

Hver svarar í hvert sinn sem óþægilegar staðreyndir um félagsleg mál í borginni koma upp á yfirborðið? Ætli það sé hinn nútímalegi borgarstjóri félagshyggjuflokkanna? Nei þá fá fjölmiðlar að tala við Láru Björnsdóttur félagsmálastjóra. Og hver kynnti hækkanir strætisvagnafargjalda á meðan borgin stýrði þeim málaflokki? Borgarstjórinn? Nei það var nú jafnan Lilja Ólafsdóttir forstjóri. Og þannig má áfram telja. En hvað hafa hinir gagnrýnu fjölmiðlar, þessir sem bregða hvassri egg sinni á allt og hlífa engu, að segja um þetta? Það blasir við. Róbert Marshall fer og gerir frétt um að Sólveig Pétursdóttir sé ekki til viðtals.