Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Samfylkingin hættir bara ekki að koma fólki á óvart. Það er bara eins gott fyrir Samfylkinguna að fjölmiðlar og ákveðinn hópur kjósenda gera minni kröfur til hennar en annarra stjórnmálaflokka. Samfylkingin er látlaust gripin með allt niður um sig, og stóryrtir talsmenn hennar eru iðulega sjálfir á fullu við það sem þeir hafa áður að fyrra bragði sakað aðra um. Samt er eins og flestir fjölmiðlamenn og sumir kjósendur láti sig það engu varða. Fyrir allar kosningar reynir Samfylkingin til dæmis að efna til ólgu þar sem tiltekinn annar stjórnmálaflokkur nýtir sér skýra heimild í kosningalögum til að eiga fulltrúa í kjördeildum og fylgjast með því hverjir taka þátt í kosningunum. Samfylkingin setur ætíð á svið mikið leikrit og talar um þetta af miklum ofsa og heilagri reiði, þó þeir sem til þekki viti vel að Samfylkingin myndi sjálf fylgjast með kosningunni ef hún hefði aðeins til þess nægilega marga félagsmenn. En engu að síður eru alltaf einhverjir einfeldningar sem láta Samfylkingarmenn blekkja sig með þessum málflutningi.
En það er ekki aðeins að engin ástæða sé til að taka mark á þessum málflutningi Samfylkingarmanna. Það er ekki aðeins að Samfylkingin meini ekkert með þessu öllu, í ljós hefur nefnilega komið að hún laumast sjálf til að gera það sem hún segir ólöglegt. Í borgarstjórnarkosningunum á dögunum kom þannig í ljós að fulltrúar R-listans – lesist: Samfylkingarinnar – sóttu ítrekað til sýslumannsins í Reykjavík lista yfir þær þúsundir Reykvíkinga sem greitt höfðu atkvæði utan kjörfundar. Samfylkingarliðið taldi með öðrum orðum ekki að þessir kjósendur ættu nokkra heimtingu á því að kjósa án þess að flokkarnir vissu að þeir hefðu kosið. Og vel að merkja, á sama tíma og R-listinn safnaði upplýsingum um þá sem höfðu kosið, þá kærði hann Sjálfstæðisflokkinn til Persónuverndar fyrir að fylgjast með því hverjir kysu! Og þegar allt komst upp þá beit þetta lið höfuðið af skömminni með því að reyna að ljúga því að kjósendum að allar ferðirnar til sýslumanns hefðu bara verið „mistök“.
Jæja, jafnvel margir þeirra sem telja sig vita margt um innræti og sannfæringu Samfylkingarliðsins urðu hissa þegar R-listinn var staðinn að því að safna upplýsingum um þá sem höfðu kosið. En hvað haldiði að hafi komið fram í gær? Fyrir nokkrum dögum skrifaði sá sérstaki maður, Björgvin G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar og varaþingmaður hennar á Suðurlandi, eina af sínum stóryrðagreinum í Morgunblaðið þar sem hann réðst afar harkalega á Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa einn flokka fylgst með í kjördeildum. Björgvini var ákaflega mikið niðri fyrir og stóryrðin voru svo mikil að sennilega hefur farið um marga lesendur. En bíði menn bara, í gær skrifaði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Hveragerði, litla grein í Morgunblaðið og benti á að fyrir mánuði sátu eftirlitsmenn Samfylkingarinnar ábúðarmiklir í kjördeildum í bænum og skráðu hjá sér hvaða Hvergerðingar kusu og hverjir kusu ekki. Og þetta gerir Samfylkingin í kjördæmi framkvæmdastjórans stóryrta. Og hvað ætli fjölmiðlamenn segi um þetta? Jú auðvitað nákvæmlega ekkert.
Menn ættu hins vegar að setja upp nýtt dæmi í huganum. Menn ættu að ímynda sér framkvæmdastjóra stjórnmálaflokks æða í blöðin með stóryrðarunur og ásakanir um stórfelld mannréttindabrot. Svo ættu menn að ímynda sér að í ljós kæmi að hans eigin flokkur stundaði nákvæmlega sömu iðju. Ef menn halda að fjölmiðlamenn gerðu ekkert og segðu ekkert, þá ættu þeir að skipta um nafn á framkvæmdastjóranum og stjórnmálaflokknum. Prófa að ímynda sér viðbrögð fjölmiðlamanna ef flokkurinn, sem gerði sjálfur það sem hann sakaði aðra um, héti ekki Samfylkingin heldur til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn. Prófa jafnvel að ímynda sér viðbrögð fjölmiðlamanna ef orðstóri framkvæmdastjórinn héti ekki Björgvin G. Sigurðsson heldur til dæmis Kjartan Gunnarsson.