Það er ekki aðeins hér á landi sem nýjar og nýjar reglur dynja á borgurunum. Það þarf ekki að koma á óvart enda er fólk af þeirri tegund, er ætíð telur sig geta haft vit fyrir öllum hinum, ekki sérstakt íslenskt afbrigði af mannskepnunni. Embættismenn og „sérfræðingar“ með barnfóstruáráttu vaða uppi í flestum löndum og sífellt nákvæmari reglugerðir eru settar til að vernda borgarana og vitaskuld með tilheyrandi óþægindum og kostnaði sem lendir á þessum sömu borgurum. Á dögunum sagði Vefþjóðviljinn frá Fraser nokkrum Brown og tilraunum hans til að reka lítið verkstæði í stríði við ensk heilbrigðisyfirvöld sem heimta af honum látlausar öryggisskýrslur. En á Englandi eru það ekki aðeins fámenn verkstæði sem verða fyrir ofstækisfullum vinnuverndarmönnum eða öðrum aðskotadýrum. Nú hyggjast reglugerðarsmiðir snúa sér að því sem sumum finnst enskara en flest sem enskt er, pöbbnum.
Nú hyggst breska ríkisstjórnin færa réttinn til að veita krám starfsleyfi úr sínum höndum og yfir til sveitarstjórna. Með því móti fá bæjar- og borgaryfirvöld á hverjum stað næstum frjálsar hendur til að setja stöðunum skilyrði fyrir starfsleyfinu. Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir verður jafnvel smæsta sveitakrá að „marka sér stefnu“ og sýna þar fram á hvernig kráin hyggist mæta síharðnandi heilbrigðis- og öryggisreglum, hvernig kráin hyggist hindra læti og komast hjá því að nágrannarnir truflist vegna rekstrarins. Þá verður embættismönnum – í nafni öryggis – heimilað að banna tóbaksreykingar á kránum sem og að ákveða hve margir gestir mega vera inni á hverri og einni og krefst það þess að krárnar ráði sérstaka teljara til starfa. Þá mun þurfa sérstakt skemmtanaleyfi fyrir hvern og einn mann sem fenginn er til að skemmta á kránni, svo sem með því að spila á hljóðfæri eða sýna spilagaldra.
Allt er þetta gert í öryggisskyni og sumar reglurnar munu íslenskir veitingahúsagestir kannast við. En allt kostar þetta fé og fyrirhöfn og í sumum tilfellum verður krám lokað vegna þessa. The Sunday Telegraph óttast að þúsundum pöbba verði lokað nái tillögur þessar fram, og það óhugnanlega er það, að þá munu ýmsir reglugerðarsmiðirnir gleðjast. Því þó slíkar starfsreglur séu jafnan kynntar sem hreinasta nauðsyn til að gæta heilsu eða velsæmis, þá er staðreyndin sú að þær eru oft notaðar til að koma höggi á þá starfsemi sem kjörnir fulltrúar eru persónulega á móti, svo sem vegna hugmyndafræðilegra kreddna sinna eða af öðrum persónulegum ástæðum. Héðan af Íslandi er skemmst að minnast þeirra orða Stefáns Jóns Hafstein, sem nú er orðinn borgarfulltrúi í Reykjavík, að hann vildi ekki banna borgurunum að sækja erótíska skemmtistaði en hann vildi hins vegar „drekkja stöðunum í skrifræði“. Þannig er opinberu valdi, valdi sem á að beita í hófi og á málefnalegan hátt, skefjalaust beitt í tilraunum forræðishyggjumanna til að steypa alla í sama mót.
Því forræðishyggjumennirnir vilja að allir hafi sama smekk. Allir hafi sama gildismat. Skemmtun sem einum þykir ósiðleg og hann hreinlega þolir ekki að aðrir stundi; forræðishyggjumaðurinn tekur ekki í mál að neinum öðrum geti þótt hún í lagi. Honum finnst sjálfsagt að banna hana. Ef ekki með beinu banni þá með endalausum starfsreglum og skilyrðum sem á endanum enginn maður getur uppfyllt.