Fréttamenn geta alltaf fundið sér nýjan hasar. Kínverji sá sem hér var á dögunum gestur forseta Íslands var ekki fyrr farinn af landi ásamt óvinum sínum þegar fréttamenn fundu út að „tjáningarfrelsi“ hefði verið skert á Austurvelli á þeirri athöfn er forseti Íslands leggur blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar, forsætisráðherra heldur hátíðarávarp, kór syngur ættjarðarlög og skiltum er kastað í ungar stúlkur sem lesa ljóð fjallkonunnar. Málavextir munu í sem stystu máli vera þeir að hópur manna mætti á athöfnina og bar skilti er á voru letraðar ýmsar pólitískar fullyrðingar hópsins. Lögregla sem þarna var taldi þetta til þess fallið að spilla hátíðinni fyrir öðrum gestum og fjarlægði skiltin en handtók engan. Þykir ýmsum, þá ekki síst fréttamönnum, sem tjáningarfrelsi þessara manna hafi verið skert ef ekki afnumið með öllu.
Hvað er „tjáningarfrelsi“? Ætli ekki megi segja að maður njóti tjáningarfrelsis ef honum er ekki af hálfu hins opinbera almennt meinað að láta í ljós skoðanir sínar, og skipti þá litlu hvort tálmanir hins opinbera séu lagðar á með fyrirfram banni eða hörðum refsingum eftir á. Þó lögregla hafi hindrað menn með kröfuspjöld á hátíðardagskránni á Austurvelli er hins vegar nokkuð langt seilst að segja tjáningarfrelsi umræddra manna hafa verið skert sérstaklega. Þessir menn gátu haldið fram sjónarmiðum sínum úti um allan bæ, þeir gátu skrifað í blöð, farið í mótmælagöngur, haldið útifundi og talað óhindrað í útvarp og sjónvarp þar sem þeir eru reyndar aufúsugestir fréttamanna. Það eina sem var gert var að þeim var ekki hleypt með skilti sín inn á hátíð sem annar aðili var að halda. Þessir menn máttu standa með skilti sín á öllum opnum svæðum um allt land nema þessum eina litla bletti, Austurvelli, þessar fáu mínútur sem aðrir menn héldu þar hátíð.
Auðvitað er strangt til tekið hægt að segja að með því einum aðila sé leyft að halda samkomu á tilteknum stað og tilteknum tíma, að þá sé frelsi annarra til að tjá sig akkúrat á sama stað og sama tíma skert. En að fara af því tilefni að tala í geðshræringu um „skerðingu á tjáningarfrelsi“ – eru menn þá ekki að gera heldur lítið úr kúgun þess fólks sem býr við raunverulega skerðingu á tjáningarfrelsi?“.
Það er skerðing á tjáningarfrelsi ef manni er til dæmis bannað að boða þá kenningu sína að Guð sé ekki til eða að einhver tiltekin trúarbrögð séu ein rétt en öll önnur tóm hindurvitni og bull. En svari nú hver fyrir sig hvort það sé alvarleg skerðing á tjáningarfrelsi ef menn eru hindraðir í að ryðjast inn á samkomur trúaðra með slíkar kenningar. Ef til dæmis múslimar fá leyfi til að halda samkomu einhvers staðar, er það þá spurning um „tjáningarfrelsi“ að allir aðrir megi skálma með krossa inn á samkomuna? Það er mikill munur á því hvort skilti er fjarlægt þar sem maður gengur með það í sakleysi sínu eða hvort það er tekið af manni sem fer með það inn á hátíð sem aðrir halda og hafa fengið fullt leyfi fyrir, í þeim tilgangi að spilla hátíðinni fyrir þeim. Eða svo annað dæmi sé tekið: Auðvitað er mönnum frjálst að berjast fyrir því að í næstu kjarasamningum verði laun lækkuð en vinnuvika lengd. Menn mega gefa út bæklinga, flytja ávörp, skrifa greinar og bera skilti til að leggja áherslu á slíkar kröfur og það væri skerðing á tjáningarfrelsi ef hið opinbera legði bann við því. En hvað ætli menn segðu, ef mikill fjöldi manna tæki upp á því að útbúa mikil skilti með slíkum kröfum og standa svo fremstur í flokki á útifundi verkalýðsfélaganna 1. maí? Þó væri það mun veigaminni aðgerð en að storma með skilti á hátíðina á Austurvelli. Á útifundinum 1. maí er þó gert ráð fyrir skiltum og kröfuspjöldum og aðrir yrðu með sín skilti til mótvægis. Á útifundum 1. maí er beinlínis gert ráð fyrir kröfuspjöldum. Á Austurvelli, að morgni 17. júní, kemur fólk saman til að fagna sigrum sjálfstæðisbaráttunnar.
Önnur kenning sem hver rakti fyrir öðrum í gær var sú, að fyrir því væru dómar að lögreglu væri að vísu fyllilega heimilt að fjarlægja skilti sem þessi sem sett væru upp til að spilla fyrir hátíðarhöldum, en hins vegar hefði Hæstiréttur dæmt að óheimilt væri að handtaka þá sem bæru skiltin. Hefði þetta komið fram í málaferlum vegna þess fólks sem strengdi borða með áróðri gegn varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu, á 11 alda afmælishátíð Íslandsbyggðar á Þingvöllum árið 1974. Þar voru borðarnir teknir niður, og þeir sem stóðu fyrir því að festa þá upp voru í framhaldinu handteknir og fluttir til Reykjavíkur til yfirheyrslu þar sem þeim var haldið í nokkrar klukkustundir. Minnihluti Hæstaréttar, einn dómari, taldi að ekki lægi fyrir að mennirnir með borðana hefðu verið sérstaklega beðnir um að taka þá niður og fyrst svo væri þá hefði ekki verið heimilt að handtaka þá. Meirihluti Hæstaréttar, það er allir hinir dómarar Hæstaréttar, taldi hins vegar að heimilt hefði verið að færa mennina af vettvangi til skýrslutöku – og þar með handtaka þá – en eins og þarna háttaði til hefði ekki verið nauðsynlegt að flytja þá til Reykjavíkur og halda þeim þar svo lengi sem gert var. Er því úr lausu lofti gripið að það sé óheimilt að handtaka fólk sem endilega þarf að stíla mótmæli sín inn á opinber hátíðahöld. Hitt er svo annað mál að auðvitað á hið opinbera ætíð að ganga mildilega fram og ekki handtaka fólk ef vægari aðgerðir gera sama gagn. Enda var enginn handtekinn á Austurvelli að morgni 17. júní.