Það er sennilega ekki gaman að vera franskur vinstri maður þessa dagana. Þó er líklega enn verra að vera franskur vinstri maður með áhuga á fótbolta því goðum slíks manns hefur nú á fáum dögum hvarvetna verið hent út án þess að þau hafi náð að skora nokkurt einasta mark. En það voru ekki bara franskir vinstri menn sem biðu á sunnudaginn einstæðan ósigur. Eða hvað, verður ekki að líta svo á að sálufélagar þeirra hér á landi hafi farið sömu leið? Ha, æpir kannski einhver, hvernig tengjast Össur Skarphéðinsson og félagar þessari nýjustu niðurlægingu franskra vinstri manna? Er ekki þeirra klúður nægt þó þeir þurfi ekki að bera ábyrgð á frönskum félögum sínum? Og jú, kannski blasa tengslin ekki við en einhverra hluta vegna þykja þess háttar tengsl alltaf augljós þegar vinstri menn vinna sigur erlendis. Þegar krötum gengur vel erlendis þá halda íslenskir kratar sínar eigin kosningavökur og formaður Alþýðuflokksins er meira að segja kallaður í beinar fréttaútsendingar þar sem honum er óskað til hamingju með sigurinn. Svokallaðir fréttaskýringarþættir eru lagðir undir fréttir af „vinstri bylgjunni í Evrópu“ og vangaveltur um hvort hún hljóti ekki að hafa gríðarleg áhrif hér á Íslandi.
En þegar vinstri menn eru hýddir í heimalöndum sínum þá er eins og fréttamenn sjái enga ástæðu til að velta fyrir sér hvort það leiði til þess að félagar þeirra hér á landi verði flengdir, þeim til samlætis. Það að jafnaðarmenn í Frakklandi séu nánast þurrkaðir út mun ekki kalla á nein viðtöl við Össur Skarphéðinsson. Að þessu sinni verða engir málfundir ákafra „stjórnmálafræðinga“ boðaðir til að ræða hvort „franska bylgjan“ berist kannski hingað. Ef „fréttaskýringarþættir“ munu yfirleitt taka eftir afhroði franskra vinstri manna þá má treysta því að umfjöllun þeirra um frönsku kosningarnar mun snúast um að hræða fólk með uppgangi þeirra sem fréttamennirnir réttilega kalla öfgamenn, en ranglega „hægri öfgamenn“, en þess er skemmst að minnast að hinn hálofaði „fréttaskýringaþáttur“ Ríkisútvarpsins, Spegillinn, taldi fuglinn Jean Marie Le Pen meðal annars frambjóðanda „nýfrjálshyggjumanna“!
En úr því hér var minnst á Össur Skarphéðinsson þá má geta þess að sennilega er hann allra Íslendinga vonsviknastur með franska kjósendur. Össur hefur nefnilega ítrekað lýst Lionel Jospin sem sínum manni og tekið fram að hann telji vinsældir Jospins til marks um að tími íslenskra vinstri manna sé rétt ókominn. En því miður, það hefur enginn franskur stjórnmálamaður verið flengdur harkalegar en einmitt Lionel Jospin. Í nýafstöðnum forsetakosningum lýstu fleiri Frakkar yfir stuðningi við áðurnefndan Le Pen en Jospin, sem komst ekki einu sinni í síðari umferðina. Og nú um helgina var Jafnaðarmannaflokki Jospins gefið langt nef.
Merde.