Þeim fjölgar ört útlendingunum sem dæmdir eru til íslenskrar grunnskólavistar. Það hefur hingað til þótt þungur dómur, jafnvel þegar börn eiga í hlut. Morgunblaðið hefur svo eftir yfirlögregluþjóni á Keflavíkurflugvelli að nokkrir útlendingar muni hugsanlega gista á dýnum í sérstöku herbergi í Leifsstöð yfir heila nótt. Fram að þessu hefur flestum þótt nóg um að dvelja þar í eina til tvær klukkustundir og kjósa þá frekar sæti í almenningnum en dýnur í sérstökum herbergjum. Ætla mátti að nú hefði aldeilis átt að láta undan sífelldum kröfum um víkkun refsiramma, svona í eitt skipti fyrir öll.
Þessir útlendingar, sem áttu að sæta svo hörðum dómum, eru hingað komnir víðsvegar að úr heiminum og sumir jafnvel frá landinu helga, Schengen. Þeir ku vera af öllum gerðum og báðum kynjum. Þá deila þeir einnig þeim sérstaka eiginleika með öðrum útlendingum að vera allskonar. Samt sem áður þekkjast þeir frá öðrum útlendingum og þeir þekkjast þegar þeir segja til nafns við komuna til landsins. Og nú skyldi enginn halda að þeir beri allir eftirnafnið bin Laden eða eitthvað það annað nafn sem réttlætti að viðkomandi væru kynnt fyrir sérstökum herbergjum Leifsstöðvar heldur bera þeir allskonar útlensk nöfn, rétt eins og útlendinga er siður. Þeir þekkjast vegna þess að nöfn þeirra eru á lista sem yfirvöld hafa undir höndum og þessi listi er ekki yfir al kaída meðlimi né heldur er þetta listi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur yfir þá sem hafa hring í eyra eða eðalstein í nafla. Þetta er listi yfir fólk sem þykir gaman í leikfimi!
Það er umhugsunarefni hvernig slíkur listi verður til. Er leikfimikennurum í gervöllum heiminum uppálagt að skrá þetta hjá sér? Er til samsvarandi listi yfir þá sem leiddist í leikfimi og svo þá sem var bara alveg sama? Lengi hefur verið ljóst að ríkið safnar aðskiljanlegustu upplýsingum um einstaklingana, skuldir þeirra og eignir, gjöld og tekjur, sjúkdóma og erfðir og svo mætti lengi telja svo mörgum hefur þótt nóg um. En nú er semsagt komið í ljós að það er til listi, ekki einasta yfir þá sem mættu í leikfimi eða höfðu vottorð heldur er sérstaklega merkt við þá sem þykir gaman. Þetta mætti kannski verða þeim lexía, sem láta sér í léttu rúmi liggja að stjórnvöld safni allskyns upplýsingum um einkalíf fólks, hvort heldur er með myndavélum, framtalseyðublöðum, sjúkraskrám eða öðrum hætti.
En þrátt fyrir að þessum útlendingum þyki gaman í leikfimi þá liggur ekki annað fyrir en að þeir séu besta fólk og að því leyti eru þeir alveg eins og flest annað fólk. Þeir vilja mótmæla meðferð kínverskra stjórnvalda á iðkendum Falun Gong í Kína, rétt eins og flest annað fólk. Þeir vilja mótmæla þessari meðferð með kröfuspjöldum eða jafnvel bara með því gera sig sýnilega.
Jiang Zemin, sem væntanlegur er hingað til lands í boði Ólafs Ragnars Grímssonar er hinsvegar öðruvísi en flest annað fólk. Hann er líka öðruvísi en flestir aðrir opinberir gestir að því leyti að það er engin þörf á að vernda hann gegn vondu fólki. En hann sjálfur setur fram kröfu um að njóta verndar gegn góðu fólki og í því liggur vandinn. Það er nefnilega gott fólk bókstaflega úti um allt og vandlifað í heimi hér ef maður hefur ofnæmi fyrir því. Og þrátt fyrir að stjórnvöld á meginlandi Kína hafi, nær alla nýliðna öld og allt fram á þennan dag, lagt mikið af mörkum til að útrýma góðu fólki þá sprettur það alltaf upp aftur, hvort sem er í Kína eða annars staðar.